Frumvarp til breytinga á lögum vegna nýs búvörusamnings

Fimmtudagur, 26. maí 2016

Nefndasvið Alþingis
Atvinnuveganefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík 26. maí 2016

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um nýja búvörusamninga, 680. mál.

Í nýjum búvörusamningi milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands er að mestu leyti samið um óbreytt fyrirkomulag búvöruframleiðslu og gildistími samningsins er tíu ár. Hugmyndir sem liggja að baki nýjum búvörusamningi ganga gegn hagsmunum neytenda, samningurinn þjónar ekki langtímahagsmunum búvöruframleiðslu, hann styrkir ekki stöðu bænda og engar tryggingar eru fyrir því að hann styrki uppbyggilega byggðaþróun í landinu. Þá vinnur samningurinn gegn nýsköpun og þar með framtíðarhagsmunum bænda og neytenda. Samningurinn festir búvöruframleiðslu í íhaldssömum farvegi óbreyttrar landbúnaðarstefnu sem löngu er úr sér gengin. Af þessum ástæðum hvetja Neytendasamtökin til þess að Alþingi hafni því að staðfesta lög sem eru nauðsynleg til þess að samningurinn gangi í gildi.

Neytendasamtökin leggja áherslu á eftirfarandi þætti:

·       Það er mat Neytendasamtakanna að ekki sé gætt að hagsmunum neytenda í drögum að nýjum búvörusamningi. Kröfu Neytendasamtakanna um aukna samkeppni innan búvöruframleiðslu og þá sérstaklega í mjólkurframleiðslu er ekki mætt.

·       Í samningnum eru ákvæði sem eru framleiðsluhvetjandi sem þjónar ekki hagsmunum bænda, neytenda né skattgreiðenda. Þetta á t.d. við um lambakjötsframleiðslu sem fjöldi bænda telur að muni leiða til nýrrar offramleiðslu og verðfalls á lambakjöti. Ef framleiðsla á búvörum verður aukin umfram eftirspurn innanlands mun verð á búvörum lækka sem vissulega væri jákvætt fyrir neytendur eða að horfið verður til þess tíma þegar búvörur voru fluttar út með útflutningsuppbótum en skattgreiðendur eru þegar að greiða niður t.d. lambakjöt.

·       Fjárútlát hins opinbera vegna búvöruframleiðslu aukast á samningstímanum og eru greiðslur til bænda verðtryggðar.

·       Það er ekki ásættanlegt að samningur sem bindur hendur næstu þriggja ríkisstjórna og Alþingis sé gerður til svo langs tíma.

·       Beinar greiðslur á ári vegna búvörusamnings verða um 13 milljarðar á ári eða 130 milljarðar á samningstímanum og er þá ekki tekið tillit til að samningurinn er verðtryggður. Að auki er innlendri búvöruframleiðslu tryggð tollvernd sem er metin á 8-10 milljarða króna á ári. Því má segja að bændum séu tryggðar með samningnum árlegar tekjur uppá 21-23 milljarða króna eða um 210-230 milljarða á samningstímanum. Þessi kostnaður lendir á neytendum og skattgreiðendum sem eru einn og sami aðilinn og því gengur þessi samningur þvert á hagsmuni neytenda.

·       Í tengslum við búvörusamninga á að stórhækka tolla á mjólkur- og undanrennudufi auk osta. Ef af verður mun þetta leiða til hækkunar á vöruverði sem bitnar með fullum þunga á neytendum. Jafnframt gengur þetta gegn alþjóðlegum skuldbindingum sem ganga út á að örva viðskipti með landbúnaðarvörur á milli landa. Þetta er því fráleit tillaga.

·       Neytendasamtökin gagnrýna að yfirvöld landbúnaðarmála hafi ekki leitað eftir samráði eða sjónarmiðum Neytendasamtakanna við gerð samningsins. Neytendur hafa ekki haft neina aðkomu að þessum samningi sem hefur mikil áhrif á kjör landsmanna.

·       Töluverðar upphæðir eiga að vera eyrnamerktar til að auðvelda m.a. nýliðun og nýsköpun eða 900 milljónir króna fyrsta árið og 700 milljónir króna næstu árin. Af því fjármagni er aðeins 35 milljónum króna varið til lífrænnar framleiðslu. Það er mat Neytendasamtakanna að framlagið sé ekki hvetjandi fyrir bændur að snúa sér í meira mæli að lífrænni framleiðslu.

·       Það er mat Neytendasamtakanna að nýr búvörusamningur feli í sér óbreytt ástand í landbúnaðarmálum, viðhaldi kvótakerfi í landbúnaði, tryggi að full samkeppni ríki ekki um landbúnaðarvörur, sé fjárhagslega mjög dýr, sé til of langs tíma og gangi þvert gegn hagsmunum neytenda.

·       Neytendasamtökin taka jafnframt undir kröfur Dýraverndarsambands Íslands um að eðlilegt sé að þeir sem fremja alvarlegt eða ítrekað dýraníð verði sviptir framleiðslustyrkjum.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður

 

Fylgiskjal með umsögninni:

Samþykktir þings Neytendasamtakanna 2014 um landbúnaðarmál  

Endurskoða þarf landbúnaðarstefnuna frá grunni með það að markmiði að auka samkeppni og svigrúm bænda til hagræðingar og lægri framleiðslukostnaðar. Jafnframt þarf að draga stórlega úr þeim opinbera stuðningi til landbúnaðarframleiðslu sem neytendur bera. Ef rétt er staðið að mun þetta verða til að styrkja íslenskan landbúnað.

Neytendur höfðu miklar væntingar þegar stefnt var að auknum viðskiptum með landbúnaðarvörur landa á milli með alþjóðlegum samningum. Með tæknilegum viðskiptahindrunum hefur þó tekist að mestu að hafa af neytendum þann ávinning sem vænst var. Neytendasamtökin krefjast þess að fyrirkomulagi innflutnings landbúnaðarvara verði breytt með hagsmuni neytenda í huga.

Uppræta þarf einokun í mjólkuriðnaði með lækkun eða afnámi tolla á innfluttar mjólkurvörur. Allir tollar á innfluttum ostum sem ekki eru framleiddir hér á landi verði þegar felldir niður. Tollar á öðrum mjólkurvörum verði þegar lækkaðir verulega og síðar afnumdir.

Koma þarf í veg fyrir fákeppni í framleiðslu á eggjum og kjúklinga- og svínakjöti m.a. með auknum innflutningi á þessum vörum á lágum eða engum tollum. Gera verður sömu kröfur um heilbrigði og gerðar eru hér á landi.

Tryggja þarf með eftirliti að innfluttar vörur uppfylli sömu kröfur og gerðar eru til innlendrar framleiðslu.

Samkeppnislög nái að fullu til mjólkuriðnaðarins eins og annarra atvinnugreina.