Frumvarp til innheimtulaga

Miðvikudagur, 24. mars 2004

 

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 25.mars 2004

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til innheimtulaga, 223. mál. 

Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að lögfest verði innheimtulög og fagna því frumvarpi sem nú er til umfjöllunar. Gera samtökin eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.
  
1. gr.
Í 1. gr. laganna er tekið fram að lögin gildi ekki um innheimtu umdeildra peningakrafna þar sem þörf hefur verið á sérfræðilegri ráðgjöf. Telja Neytendasamtökin að orðalag ákvæðisins sé til þess fallið að farið sé á svig við lögin. Það er auðvitað slæmt að farið sé út í innheimtuaðgerðir vegna krafna sem ekki er fyllilega ljóst að skuldara beri að greiða. Verra er þó að það sé gert og að lögin gildi þá ekki um slíka innheimtu eins og orðalag ákvæðisins býður heim. Mæla samtökin því eindregið með því að ákvæði þetta verði fellt niður. Í staðinn leggja samtökin til að aukið verði við ákvæði 6. gr. laganna um góða innheimtuhætti í samræmi við athugasemdir samtakanna um 6. gr.  

Ákvæði 1. mgr.1. gr. hljóði því þannig:

Lög þessi gilda um innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi, þó ekki innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga.

d-liður 4. gr.
Neytendasamtökin telja að aðili sem er í vanskilum með vörsluskatta eigi ekki að hafa innheimtuleyfi. Gera samtökin þá tillögu að d-liður 4. gr. verði svohljóðandi:

er ekki í vanskilum með opinber gjöld eða vörsluskatta.
6. gr.
Neytendasamtökunum hafa borist margar kvartanir þar sem innheimtuaðilar virðast hafa farið af stað með innheimtu án þess að hafa grundvallar gögn um kröfuna og án þess að hafa skoðað réttmæti hennar. Á þetta m.a. við um skuldir vegna leigu á myndbandsspólum og vegna vinnu iðnaðarmanna.  Í mörgum tilvikum hefur komið í ljós við nánari athugun að þeim sem innheimtunni var beint að bar engin skylda til að greiða, t.d. vegna fyrningar eða sönnunarskorts. Þekkja samtökin dæmi þess að fólk hafi orðið mjög skelkað við að fá í hendur innheimtuviðvörun eða innheimtubréf og hafi greitt umfram skyldu í fljótfærni. Neytendasamtökin leggja því til að við 6. gr. um góða innheimtuhætti bætist eftirfarandi málsliðir:

Innheimtuaðili skal safna nauðsynlegum gögnum um kröfuna hjá kröfuhafa. Séu fyrir hendi aðstæður sem vekja vafa um réttmæti kröfu skal innheimtuaðili meta þær aðstæður áður en innheimtuviðvörun er send. Sé ekki hægt að sýna fram á réttmæti kröfu með afgerandi hætti skal skera úr um réttmæti hennar með dómi, úrskurði úrskurðarnefndar eða sambærilegum hætti áður en innheimta er hafin.

7. gr.
Neytendasamtökin leggja til að bætt verði við nýrri 3. mgr. 7. gr.  Þar verði talið upp hvað koma eigi fram í innheimtuviðvörun til ábyrgðarmanns sem send er til hans samtímis innheimtuviðvörun til skuldara. Gerð er tillaga að eftirfarandi orðalagi:

Samtímis innheimtuviðvörun til skuldara skal senda ábyrgðarmönnum samskonar bréf. Auk þeirra upplýsinga sem taldar eru upp í 2. mgr. 7. gr. skal í bréfi til ábyrgðarmanna koma fram:
a. hvort verið sé að ganga að ábyrgðarmanni auk aðalskuldara;
b. sú fjárhæð sem ábyrgðarmaður hefur skuldbundið sig til að greiða að hámarki skv. ábyrgðaryfirlýsingu sinni, komi til innheimtuaðgerða á hendur honum;
c. hvort ábyrgðarmanni sé heimilt að segja upp ábyrgð sinni fyrir annarri fjárhæð en þeirri sem þegar er fallin í vanskil.
Ný 8. gr.
Í 12. gr. dönsku innheimtulaganna er að finna ákvæði sem varðar það hvenær og með hvaða hætti innheimtuaðili má snúa sér að skuldara persónulega. Með öryggi borgaranna að leiðarljósi gera Neytendasamtökin þá tillögu að lögfest verði sambærilegt ákvæði í nýrri 8. gr. og að orðalag hennar verði eftirfarandi:

1. mgr.
Án fyrirfram gefins leyfis skuldara og undanfarandi skriflegrar viðvörunnar til hans er óheimilt að snúa sér að skuldara persónulega. Í viðvöruninni skal þess getið með ótvíræðum hætti hvenær dagsins og hvar innheimtuaðili muni snúa sér til skuldara. Í viðvöruninni skal koma fram símanúmer og heimilisfang innheimtuaðila. Viðvörun eins og þá sem hér um ræðir má ekki senda fyrr en frestur skv. innheimtuviðvörun í 7. gr. er liðinn. Hafi innheimtuaðili reynt að snúa sér persónulega til skuldara eftir útgáfu viðvörunar en ekki hitt á hann er innheimtuaðila heimilt síðar án frekari viðvarana að snúa sér persónulega til skuldarans svo fremi sem það komi ótvírætt fram í þeirri skriflegu viðvörun sem send var skuldaranum.

2. mgr.
Innheimtuaðila er einungis heimilt að snúa sér persónulega til skuldara án undangenginnar viðvörunnar, sbr. 1. mgr., á virkum dögum, þ.m.t. laugardögum, á milli kl. 8 að morgni til kl. 21 að kvöldi. Á laugardögum þó aðeins á milli kl. 10 og kl. 16.

3. mgr.
Sé skuldarinn einstaklingur má aðeins snúa sér til hans persónulega án undangenginnar viðvörunnar, sbr. 1. mgr., á heimili hans. Reki skuldari atvinnustarfsemi má þó einnig snúa sér til hans á vinnustað hans.

4. mgr.
Sá sem snýr sér persónulega til skuldara skal sýna fram á heimildir sínar gagnvart skuldara með því að framvísa skilríkjum þar að lútandi sem dómsmálaráðuneytið gefur út eða sá sem dómsmálaráðuneytið heimilar útgáfu slíkra skilríkja.

10. gr.
Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um meðferð innheimtufjár. Innheimtuaðila er gert skylt að halda innheimtufé aðskildu frá eigin fé og leggja féð á vörslufjárreikning. Engar frekari reglur eru í ákvæðinu um vörslufjárreikninginn. Neytendasamtökin leggja til að í samræmi við lög um lögmenn verði ráðherra gert að setja nánari reglur um vörslufjárreikninga.

Almennt
Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir stofnun úrskurðarnefnda sem leysa úr ágreiningsmálum neytenda og seljenda á ýmsum sviðum. Slíkar nefndir gera neytendum fært að fá leyst úr ágreiningsmálum sínum við seljendur á ódýran og fljótlegan máta. Skuldarar eru oft í fjárhagslega slæmri stöðu og því minni líkur á að þeir sæki mál sín fyrir dómstólum. Telja Neytendasamtökin því brýnt að sett verði á stofn nefnd sem fjallað getur um ágreiningsmál tengd innheimtu, t.d. um það hvort innheimta hafi verið í samræmi við góða innheimtuhætti. 

Neytendasamtökin gera ekki fleiri athugasemdir við lagafrumvarp þetta og mæla eindregið með lögfestingu þess.

Virðingarfyllst,
f. h. Neytendasamtakanna,

_______________________________
Íris Ösp Ingjaldsdóttir, lögfr.