Frumvarp til laga um ábyrgðarmenn

mánudagur, 9. mars 2009

 

Nefndasvið Alþingis
Viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 6. mars 2009.

Athugasemdir við frumvarp til laga um ábyrgðarmenn, 125. mál.

Neytendasamtökin fagna mjög framlagningu frumvarps til laga um ábyrgðarmenn. Samtökin hafa lengi barist fyrir slíkri lagasetningu, enda ljóst að persónulegar ábyrgðir á lánum tíðkast í mjög ríkum mæli hér á landi og því ófært að ekki gildi neinn lagarammi um slíka gerninga. Vissulega fara margir lánveitendur eftir þeim leikreglum sem settar voru með samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem samtökin eru aðili að, en til þess ber að líta að einungis er um samkomulag, en ekki lög, að ræða, og eins hins að ekki eru allir lánveitendur sjálfkrafa aðilar að samkomulaginu.

Verður því að telja mikla þörf á lagasetningu um ábyrgðarmenn, svo að reglur þessar séu öllum ljósar og neytendur, jafnt sem lánveitendur, geti leitað í þær.

Samtökin telja ekki þörf á að gera efnislegar athugasemdir við frumvarpið. Hins vegar vilja samtökin benda á, í tengslum við 4. gr. frumvarpsins, að reglur um greiðslumat, og hvað telst forsvaranlegt viðmið þegar kemur að framfærslu einstaklinga, eru mjög óljósar og lánveitendum nokkuð í sjálfsvald sett með hvaða hætti greiðslumat er gert. Er og ljóst að margir lántakendur hafa spennt bogann nokkuð og vanmetið það fjármagn sem þeim er nauðsynlegt til viðurværis. Telja samtökin nauðsynlegt að bæta úr þessu t.a.m. með því að út búa raunhæf neysluviðmið sem greiðslumat gæti þá byggst á.

Neytendasamtökin styðja þetta frumvarp og hvetja eindregið til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: