Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014

Miðvikudagur, 20. nóvember 2013

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 20. nóvember 2013.

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014 (verðlagsbreytingar o.fl.), 3. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um I., II., og IV. kafla: Í umræddum köflum er m.a. lögð til hækkun á olíugjaldi, hækkun á vörugjaldi af bensíni og hækkun á sérstöku vörugjaldi af bensíni. Eldsneytisverð hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum og ljóst er að heimilin mega ekki við frekari álögum. Því telja samtökin fulla ástæðu fyrir stjórnvöld að halda að sér höndum þegar kemur að gjaldtöku sem kemur til með að hækka eldsneytisverð til neytenda. Neytendasamtökin telja ljóst að aukin skattlagning af þessu tagi muni bitna illa á neytendum, ekki einasta í formi hækkaðs verðs, heldur einnig í formi þyngri greiðslubyrði verðtryggðra lána, en ljóst er að þessir kaflar frumvarpsins, verði þeir að lögum, munu hafa nokkur áhrif á vísitölu neysluverðs en vísitöluþróun hefur þegar verið skuldsettum heimilum mjög óhagstæð. Þá er í IV. kafla frumvarpsins lögð til hækkun á bifreiðagjaldi. Neytendasamtökin leggjast gegn þessum hækkunum, með sömu rökum og eiga við hér að ofan, enda má telja að álögur á bifreiðaeigendur séu þegar komnar úr hófi fram.

Um III. kafla: Í III. kafla er kveðið á um breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta nr. 129/2009. Upphaflega var gert ráð fyrir því að þau lög féllu úr gildi í lok árs 2012 en nú virðast þau komin til að vera. Neytendasamtökin lögðust á sínum tíma gegn því að lög nr. 129/2009 væru sett, og ítreka hér með enn og aftur þá afstöðu sína, enda að mati samtakanna hæpið að auka enn við álögur á eldsneyti auk þess sem undarlegt er að mati samtakanna að leggja sérstakan skatt á lífsnauðsynlegar vörur á borð við hita og rafmagn. Þá telja samtökin það sök sér væri innheimtu kolefnisgjaldi og hita- og rafmagnsskatti ætlað að standa á einhvern hátt undir aukinni umhverfisvernd, eða til að bæta fyrir skaða sem kolefnisútblástur hefur í för með sér, en þvert á móti virðist þessi gjaldtaka ekki eyrnamerkt í nein slík verkefni. Neytendasamtökin ítreka því áður framkomin sjónarmið sín varðandi lög nr. 129/2009 og leggjast gegn þeim tillögum sem fram koma í III. kafla frumvarpsins.

Um V. kafla.: Í 9. grein frumvarpsins er lagt til að vörugjald á áfengi, áfengisgjald, hækki um 3%. Verði sú hækkun að veruleika hefur það í för með sér að áfengisgjöld hafa hækkað um  u.þ.b. 60 -70% frá hausti 2008 eftir því hvort um er að ræða sterk eða létt vín. Neytendasamtökin telja því að um óeðlilega mikla hækkun á einstökum vöruflokki hafi verið að ræða.

Þá er í 10. gr. lögð til 3% hækkun á tóbaksgjaldi. Tóbaksgjöld hafa þegar hækkað gríðarlega, og langt umfram aðrar hækkanir, frá árinu 2008.

Neytendasamtökin leggjast því alfarið gegn framangreindum tillögum, ekki síst með vísan til þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka mun hafa á neysluvísitölu og þar með verðtryggð lán. Í öllu falli telja samtökin nauðsynlegt að ekki sé tekið tillit til verðbreytinga á áfengi og tóbaki við verðtryggingu lána.

Um XI. kafla: Í 20. gr. frumvarpsins er lögð til 600 kr. hækkun á svokölluðu útvarpsgjaldi. Neytendasamtökin leggjast alfarið gegn þessari hækkun. Neytendasamtökin ítreka jafnframt afstöðu sína til þessa gjalds yfirleitt, en í umsögn samtakanna við frumvarp til laga nr. 6/2007, 56. mál á 133. löggjafarþingi mótmæltu Neytendasamtökin upphæð nefskattsins og lögðu til aðrar leiðir til fjármögnunar. Ríkisútvarpsins.

Um XII. kafla: Í 22. gr. frumvarpsins er lögð til 25% hækkun á skráningargjaldi opinberra háskóla. Raunar er um hámarksgjaldtöku að ræða, en ekki er gert ráð fyrir að innheimt sé hærra gjald en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi. Fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu að þetta gjald hafi síðast verið hækkað árið 2012, og þá um 33%. Heildarhækkun skrásetningagjalda verður þannig, verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, 67% á einungis tveimur árum. Hlýtur svo mikil hækkun að vera algerlega óásættanleg og ætti að skoða leiðir til hagræðingar byggi þessi hækkun á raunkostnaði skólanna við skráningu.

Allar framangreindar athugasemdir Neytendasamtakanna snúa því að því að forðast eigi af fremsta megni frekari álögur á heimilin í landinu í formi hækkaðra gjalda sem þess utan leiða til hækkana á verðtryggðum lánum vegna áhrifa á vísitölu neysluverðs. Verðtryggð lán hafa hækkað gríðarlega á síðustu árum, og eru margir íbúðaeigendur í þeirri stöðu að hafa misst allt eigið fé í eignum sínum vegna þess. Eru þá ótaldir þeir sem misst hafa heimili sín vegna hækkana á verðtryggðum lánum.

Að endingu verður að telja að þær krónu- og prósentuhækkanir sem hér eru lagðar til séu illa til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í minnisblaði sem forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sendu heildarsamtökum á vinnumarkaði hinn 15. nóvember sl., málsnúmer FOR13110044. Í minnisblaðinu, sem sent er fyrir hönd ráðherranefndar um kjarasamninga er mælst til þess að launahækkanir í komandi kjarasamningum verði hóflegar og stefnt verði að því markmiði að halda verðbólgu í skefjum og stuðla að efnahagslegum stöðugleika. Í minnisblaðinu segir einnig: „Komið verði böndum á sjálfvirkar verðlagsbreytingar einkaaðila og opinberra aðila vegna hækkunar vísitölu neysluverðs.“ Í minnisblaðinu er jafnframt tekið fram að við gerð nýrra kjarasamninga skuli leggja áherslu á kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna. Í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það sem hér er til umsagnar segir hins vegar um áhrif tillagna frumvarpsins á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.: „Lauslegt mat bendir til að áhrifin gætu verið um 0,2–0,3% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Hækkun annarra gjalda sem frumvarpið tekur til hefur einhver bein áhrif á ráðstöfunartekjur heimilanna til lækkunar. Áhrif þessara breytinga í heild gætu því mælst nálægt 0,3% til rýrnunar á kaupmætti ráðstöfunartekna ef áhrifin koma fram að fullu.“

Minna má á að Reykjavíkurborg hefur ákveðið að hækka ekki gjaldskrá sína hvað varðar t.d. leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili, bókasafnsskírteini og sundlaugakort um áramótin. Að sögn forsvarsmanna borgarinnar er það gert til að koma í veg fyrir víxlverkun verðlags og launa og með það að markmiði að koma á stöðugleika, auka kaupmátt og koma böndum á verðbólgu. Er mjög miður ef Alþingi treystir sér ekki til að fylgja þessu fordæmi borgarinnar. Hvetja samtökin stjórnvöld því eindregið til að leita annarra leiða hvað varðar ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Að lokum er beðist velvirðingar á þeirri óviðráðanlegu töf sem orðið hefur á sendingu umsagnarinnar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður