Frumvarp til laga um breyting á áfengislögum (áfengisauglýsingar)

Miðvikudagur, 16. nóvember 2011

 

Nefndasvið Alþingis
Allsherjarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 11. maí 2011

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á áfengislögum nr. 75/1998 með síðari breytingum, 705. mál.

Neytendasamtökin eru fylgjandi því markmiði frumvarpsins að gera bann við áfengisauglýsingum skýrara og skilvirkara. Jafnframt telja samtökin eðlilegt að eftirlit með því hvort brotið sé gegn því banni sé í höndum Neytendastofu, enda samrýmist það vel eftirlitshlutverki því sem stofnunin fer með samkvæmt lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Neytendasamtökin gera þó eftirfarandi athugasemd við frumvarpið:

Um „viðskiptaorðsendingu“: Í frumvarpinu er rætt um viðskiptaorðsendingar og bann með þeim. Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er svo að finna skilgreiningu á því hvað teljist viðskiptaorðsending. Sú skilgreining er, að breyttu breytanda þar eð einungis er um viðskiptaorðsendingar sem varða áfengi að ræða, að mestu samhljóða skilgreiningu á hugtakinu „viðskiptaboð“ sem er að finna í 39. tl. 2. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Það er raunar mat Neytendasamtakanna að í báðum tilvikum væri „auglýsing“ heppilegra yfirhugtak og í betra samræmi við almennan málskilning sem og hugtakanotkun í áðurnefndum lögum nr. 57/2005. Þar sem ekki var fallist á athugasemdir samtakanna þar að lútandi í umsögn þeirra um frumvarp til fjölmiðlalaga telja samtökin þó í öllu falli brýnt að hugtakanotkun sé samrýmd í áfengislögum og lögum um fjölmiðla og telja því að notast skuli við hugtakið „viðskiptaboð“.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir við ofangreint frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: