Frumvarp til laga um breytingar á lögum um loftferðir

Þriðjudagur, 11. maí 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Samgöngunefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 11. maí 2010

Efni: umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingar á lögum um loftferðir nr. 60/1998, 567. mál.

Neytendasamtökin fagna þeim úrbótum sem lagðar eru til á sviði neytendaverndar með þessu frumvarpi, sér í lagi þeim breytingum sem lagðar eru til með 14. gr. frumvarpsins, en samtökin hafa í starfi sínu oftsinnis orðið vör við það að flugrekendur kjósi að hunsa álit Flugmálastjórnar. Þetta hefur svo valdið því að eftirlit með flugrekendum er ekki nægilega skilvirkt og nær ekki tilgangi sínum, og þar eð skilvirkt eftirlit og eftirfylgni hefur ekki verið fyrir hendi er mjög torvelt fyrir neytendur að ná fram rétti sínum verði þeir fyrir tjóni vegna vanefnda flugrekenda.

Neytendasamtökin styðja því þetta frumvarp og hvetja eindregið til samþykktar þess.

Að því sögðu vilja samtökin þó koma á framfæri eftirfarandi ábendingum:

Um 13. gr.: Samkvæmt þessu ákvæði, sbr. 14. gr. frumvarpsins, er það Flugmálastjórn sem hafa skal eftirlit með því að verðupplýsingar til neytenda séu í samræmi við lögin. Neytendasamtökin fagna þeim ítarlegu reglum um verðmerkingar flugmiða sem lagðar eru til með þessu ákvæði. Hins vegar telja samtökin að ákvæði 13. gr. geti skarast nokkuð á við valdsvið Neytendastofu, sem samkvæmt lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sbr. reglur nr. 725/2008 um verðmerkingar og aðrar verðupplýsingar, setur reglur um verðmerkingar og hefur eftirlit með því að farið sé eftir þeim. Neytendasamtökin telja afar brýnt að eyða úr lögum allri óvissu um það hver skuli hafa eftirlit með þessum þætti, þar sem það getur m.a. valdið töfum á úrlausn mála sé almenningur í óvissu um það hvert hann á að snúa sér. Þá hlýtur það að vera einn af hornsteinum skilvirkrar stjórnsýslu að valdmörk milli stofnana séu skýr.

Um 14. gr.: Þrátt fyrir það nýmæli að Flugmálastjórn sé heimilt að taka stjórnvaldsákvarðanir í kjölfar kvartana neytenda, og eftir atvikum að leggja dagsektir og févíti á eftirlitsskyldan aðila brjóti hann gegn ákvörðuninni, sbr. 15. gr., er nokkuð óljóst hvort stofnuninni er ætlað að taka afstöðu til einkaréttarlegra krafna. Almennt kveða ákvarðanir eftirlitsstjórnvalda einungis á um það hvort eftirlitsskyldur aðili hafi gerst brotlegur við lög og reglur og eftir atvikum er sektarúrræðum beitt, en ekki skorið úr um hvort, og þá hve mikinn, rétt til bóta kvartandi á. Sé litið til álita Flugmálastjórnar verður hins vegar ekki annað séð en þau hafi kveðið á um að flugrekanda beri skylda til greiðslu bóta, sbr. t.a.m. álit FMS dags. 8. september 2009 og álit FMS dags. 26. ágúst 2009, en eins og áður hefur komið fram virðast flugrekendur líta svo á að álit Flugmálastjórnar séu ekki bindandi. Neytendasamtökin hafa rekið sig á að mörkin milli einkaréttar og allsherjarréttar geta verið óljós innan stjórnsýslunnar, og telja því brýnt að það komi skýrt fram í lagatextanum sjálfum hvers eðlis ákvarðanataka Flugmálastjórnar er.

Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við frumvarpið og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er