Frumvarp til laga um breytingar á lögum um stimpilgjald

mánudagur, 14. nóvember 2011

 

Hér er umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp um breytingu á lögum um stimpilgjald. Spor í rétta átt en gengur þó ekki nógu langt.

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 14. nóvember 2011

Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald, með síðari breytingum, 44. mál.

Neytendasamtökin hafa löngum lýst sig andvíg stimpilgjaldi vegna húsnæðiskaupa og gildir þá einu hvort um er að ræða fyrstu eign eða ekki. Stimpilgjöld vegna kaupsamninga á fasteignum (0,4%) geta t.a.m. numið töluvert háum fjárhæðum og oft er um að ræða kostnað sem fólk gerir ekki ráð fyrir þegar áætlað er að kaupa nýtt húsnæði. Sömu sögu má segja um stimpilgjöld vegna lána til fasteignakaupa (1,5%). Sé ætlunin að taka nýtt lán vegna kaupa á nýrri fasteign getur kostnaður vegna þessara atriða hæglega numið hundruðum þúsunda og getur hann því hæglega dregið úr hvata fólks til að skipta um húsnæði.

Afnám stimpilgjalda er gamalt baráttumál Neytendasamtakanna og má nefna hér kafla úr samþykktum þings Neytendasamtakanna árið 2006:

Stimpilgjaldið er ósanngjörn skattlagning. Í fyrsta lagi er það þung byrði fyrir ungt fólk sem er að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti. Í öðru lagi kemur það illa niður á fólki sem á í greiðsluvanda og þarf að skuldbreyta lánum sínum. Einnig dregur það úr hreyfanleika neytenda á fjármálamarkaði og þar með nauðsynlegu aðhaldi neytenda að þessum markaði.

Því telja samtökin jafnframt brýnt að gengið sé lengra en frumvarp þetta kveður á um, og að stimpilgjald sé einnig afnumið endanlega þegar um er að ræða endurfjármögnun, en ekki aðeins með bráðabirgðarákvæðum eins og nú er.

Neytendasamtökin styðja því frumvarp þetta með áðurnefndum fyrirvara og hvetja eindregið til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: