Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum (úthlutun tollkvóta)

mánudagur, 19. mars 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Atvinnuveganefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 19. mars 2012

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum (úthlutun tollkvóta), 508. mál.

Neytendasamtökin telja ofangreint frumvarp að sumu leyti vera skref í rétta átt og eru samþykk markmiðum frumvarpsins um að tryggja nægt framboð og samkeppni. Að þessu sögðu gera samtökin þó eftirfarandi athugasemdir:

Varðandi úthlutun tollkvóta: Neytendasamtökin hafa efasemdir um að rétt sé að miða við 90% mark í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins, enda verður ekki séð hvaða röksemdir liggja fyrir því að sú tala var valin umfram aðrar. Þá telja samtökin jafnframt skorta á skýrari reglur um það hvernig eftirliti með þessu framboðshlutfalli verður háttað, þ.e. hvort hið opinbera hafi sjálfstætt eftirlit með því eða hvort stuðst verði við ábendingar og upplýsingar frá dreifingaraðilum. Jafnframt telja samtökin ekki rétt að binda úthlutun tollkvóta því skilyrði að ljóst sé að innlendir framleiðendur muni ekki geta annað 90% eftirspurnar á næstu þremur mánuðum, en slíkt er áskilið í athugasemdum í greinargerð með 1. gr. frumvarpsins. Þrír mánuðir eru langur tími á neytendamarkaði og að setja úthlutun tollkvóta svo ríkar skorður leiðir væntanlega til þess að ólíklegt er að úthlutun fari fram á grundvelli ákvæðisins.

Neytendasamtökin eru fylgjandi því að innflutningshömlur verði alfarið lagðar af, enda hlýtur slíkt að stuðla að heilbrigðri samkeppni og lægra vöruverði neytendum til hagsbóta. Standi hins vegar ekki vilji til þess telja samtökin brýnt að innlendum afurðarstöðvum verði ekki úthlutaður kvóti skv. 1. gr. frumvarpsins, enda vandséð hvernig slíkt getur þjónað hagsmunum neytenda og stuðlað að heilbrigðri samkeppni, enda þeim aðilum í hag að halda uppi verði á markaði, og því ótryggt að þær vörur sem þeir fá tollkvóta fyrir komist í almenna dreifingu. Enn fremur telja Neytendasamtökin eðlilegt að úthlutun tollkvóta fari fram með hlutkesti.

Þá eru Neytendasamtökin andvíg því að tollar séu tengdir við SDR, eða sérstök dráttarréttindi, en með slíku er ljóst að veik staða íslensku krónunnar leiðir til mun hærra vöruverðs á innfluttum afurðum.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á frumvarpið er