Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, nauðungarsölu og gjaldþrotaskipti

Fimmtudagur, 5. mars 2009

 

Nefndasvið Alþingis
Allsherjarnefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík 4. mars 2009.

Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, 322. mál.

Neytendasamtökin fagna framkomu þessa frumvarps og hvetja til samþykktar þess. Þó telja samtökin tilefni til eftirfarandi athugasemda:

Varðandi 3. gr. frumvarpsins þar sem heimilað er, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að fresta nauðungaruppboði fram yfir 31. ágúst 2009, þá telja samtökin þann tímafrest of skamman. Vísast þá til þess að telja má að endurskoðunar verði þörf eftir það tímamark, en Alþingi er ekki tekið til starfa eftir sumarfrí á þessum tíma, og einnig til þess að telja má að það sé langur vegur frá því að áhrif fjármálakreppunnar hvað varðar nauðungarsölu verði komin fram fyrir þetta tilgreinda tímamark.

Hvað varðar 4. gr. frumvarpsins þá telja samtökin rétt að aðilar sem stunda atvinnurekstur njóti sama réttar og aðrir. Líta verður til þess, sér í lagi með hliðsjón af aðstæðum á vinnumarkaði nú, að margar stéttir eiga fáa atvinnumöguleika aðra en eigin atvinnurekstur. Breyting í þá veru að veita megi þriggja mánaða frest jafnvel þó skuldari sé einstaklingur sem stundar atvinnurekstur ætti ekki að valda kröfuhafa réttarspjöllum þar eð gert er ráð fyrir því að hann sé samþykkur beiðni um frestun. Þá ber einnig að líta til þess að um er að ræða gjaldþrotaskipti á búi einstaklingsins sjálfs en ekki fyrirtækis hans.

Hvað varðar 5. gr. frumvarpsins hafa samtökin veitt því athygli að talsverðs misskilnings gætir meðal almennings um efni þeirrar greinar. Þannig virðist orðalag greinarinnar gefa fólki til kynna að þegar tvö ár eru liðin frá gjaldþrotaskiptum sé það laust allra mála. Sú er þó alls ekki raunin enda tiltölulega lítið mál að slíta fyrningu og halda kröfum þannig lifandi til langs tíma. Neytendasamtökin setja sig ekki beinlínis upp á móti efni þessarar greinar en telja ástæðu til að skýra hana betur. Eða haga framkvæmdinni með öðrum hætti, t.a.m. með því að samtvinna breyttar fyrningarreglur á einhvern hátt úrræði um greiðsluaðlögun eða með því að setja takmörk á þann fjölda skipta sem slíta má fyrningu skulda eftir gjaldþrot. Í öllu falli telja samtökin heppilegt, svo ekki verði vaktar falskar vonir meðal skuldara, að skýra þetta ákvæði betur.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: