Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum

mánudagur, 26. júlí 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Alþingi
150 Reykjavík

Reykjavík 26.júlí 2010

Efni: Umögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, 662. mál.

Neytendasamtökin leggjast eindregið gegn samþykkt þessa frumvarps. Með frumvarpinu, verði það að lögum, er komið í veg fyrir að einstakir framleiðendur geti framleitt umfram greiðslumark nema í þeim takmarkaða mæli sem þeim er heimilt til eigin vinnslu. Með yfirtöku KS á Mjólku og samstarfi KS og MS er búið að loka hringnum og í raun er aðeins eitt mjólkursamlag starfandi hér á landi. Jafnframt er minnt á að þegar Mjólka hóf starfsemi sína í samkeppni við MS var það einmitt að mestu gert með kaupum á mjólk sem var umfram greiðslumark.

Í áliti sem Samkeppniseftirlitið gaf út á síðasta ári kemur m.a. fram að bæði bændur og neytendur nutu góðs af þeirri takmörkuðu samkeppni sem Mjólka veitti afurðastöðvum innan SAM (Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði). Þannig hafi greiðslur til bænda vegna kaupa á mjólk umfram greiðslumark hækkað á sama tíma og vörur sem Mjólka hefur framleitt hafi lækkað í verði til neytenda.

Í frumvarpinu kemur einnig fram að framleiðanda er heimilt að markaðsfæra innanlands afurðir úr allt að 10.000 lítrum mjólkur árlega, án þess að teljist til nýtingar á greiðslumarki lögbýlis. Neytendasamtökin eru andsnúin því að sett séu takmörk hér, heldur sé einstaka framleiðendum heimilt að framleiða eigin afurðir í því magni sem hann telur sér hagkvæmt, enda ber hann sjálfur ábyrgð á sölu þessara afurða.

Að mati Neytendasamtakanna er með þessu frumvarpi verið að koma í veg fyrir að samkeppni geti orðið á nýjan leik á þessum markaði. Það skal engan undra að svo sé þegar skoðað er hvaða aðilar komu að samningu þess. Neytendasamtökin telja hins vegar afar brýnt að frelsi sé aukið innan þessarar greinar og lýsa því andstöðu sinni við þetta frumvarp.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóðin á frumvarpið er