Frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum

Þriðjudagur, 24. maí 2011

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og skattanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 19. maí 2011

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum, 788. mál.

Neytendasamtökin þakka fyrir tækifærið til að tjá sig um ofangreint frumvarp. Með frumvarpi þessu er ætlunin að festa í lög reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrishöftin svokölluðu sem nú er að finna í núgildandi reglum Seðlabankans nr. 370/2010. Samtökin sjá þó aðeins ástæðu til að fjalla um þau ákvæði frumvarpsins sem snúa að neytendum.

Neytendasamtökin sjá sig knúin til að gera alvarlegar athugasemdir við eftirfarandi:

Um 3. gr. d. (13. gr. d.): Í þessari grein er fjallað um kaup innlendra aðila á reiðufé. Í 1. mgr. ákvæðisins er lagt bann við því að innlendir aðilar kaupi gjaldeyri í reiðufé eða taki reiðufé út af gjaldeyrisreikningum viðskiptabanka. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan lagt til að einstaklingar sem teljast innlendir aðilar í skilningi frumvarpsins geti keypt gjaldeyri í reiðufé að fjórum skilyrðum uppfylltum. Þessi skilyrði lúta að því að einstaklingi er heimilt að kaupa gjaldeyri í reiðufé þegar hann hyggur á ferðalag erlendis.

Í 1. – 4. tl. 2. mgr. eru ítarlegar reglur um för innlends aðila sem ferðamanns með gjaldeyri úr landi. Samtökin velta því upp hvort reglurnar séu að einhverju leyti úr hófi ítarlegar og íþyngjandi og hvort sama markmiði hafi ekki verið náð með núgildandi reglum án þess að þær séu svo ítarlegar sem þessar. Þessar reglur taka til einstaklinga og því telja samtökin hið minnsta að þörf sé á að reglurnar verði vel kynntar ef ætlast er til þess að einstaklingar hafi þær í huga þegar farið er í ferðalög erlendis.

Í 3. mgr. ákvæðisins er lögð skilaskylda á allan gjaldeyri sem keyptur hefur verið vegna fyrirhugaðra ferðalaga sem fjallað er um í 2. mgr. ákvæðisins og hefur ekki verið nýttur í ferðalaginu. Núgildandi reglur um skilaskyldu gjaldeyris er að finna í 12. gr. reglna Seðlabankans nr. 370/2010. Þar kemur fram að erlendum gjaldeyri sem innlendir aðilar eignast skuli skilað til fjármálafyrirtækis hér á landi innan tveggja vikna frá því gjaldeyrinn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans, og takist skilaskylda ekki innan ofangreinds frests skuli skýringum komið á framfæri við fjármálafyrirtæki. Þessi regla tekur til alls gjaldeyris og á því bæði við um einstaklinga sem fyrirtæki. Sú regla sem ætlunin er að lögfesta í 3. mgr. 3. gr. d. frumvarpsins tekur hins vegar aðeins til einstaklinga. Skilaskylda á gjaldeyri sem fyrirtæki eignast er hins vegar að finna í 3. gr. l. frumvarpsins en hún er nánast samhljóða 12. gr. reglna nr. 370/2010 að því undanskildu að tímafrestur ákvæðisins er þrjár vikur en ekki tvær. Hins vegar er frestur einstaklinga til að skila gjaldeyri sem ekki hefur verið notaður í ferðalagi tvær vikur og því skemmri frestur þegar um einstaklinga er að ræða en fyrirtæki, en það verður að teljast nokkuð óeðlilegt að lögð sé ríkari skylda á einstaklinga heldur en fyrirtæki í atvinnurekstri.

Skilaskylda á ferðamannagjaldeyri sem þessum er óháð þeirri upphæð sem um ræðir hverju sinni. Þannig er ljóst að einstaklingi ber að skila 5 evrum, og minna ef svo ber undir, til fjármálafyrirtækis ef hann hefur ekki getað notað þær erlendis. Þessi skilaskylda er fortakslaus enda er ekkert lágmark að finna í ákvæðinu. Ef einstaklingur hyggur því á aðra ferð þremur vikum síðar er honum ekki heimilt að geyma 5 evrurnar þangað til enda þarf hann að skila þeim til fjármálafyrirtækis innan tveggja vikna frá heimkomu. Neytendasamtökin gerðu litla könnun á því hvað það kostar að kaupa 100 evrur hjá fjármálafyrirtæki og á hvaða verði fjármálafyrirtæki kaupa 100 evrur til baka af einstaklingi. Algengt er að um 5% munur sé á kaup- og sölugengi fjármálafyrirtækjanna á gjaldeyri. Ákvæðið leggur því þá skyldu á einstakling að hann selji fjármálafyrirtæki gjaldeyri á lægra verði en hann keypti hann, að viðlagðri refsingu. Fyrir einstakling sem ferðast mikið erlendis getur verið um töluverðar upphæðir að ræða á ársgrundvelli sem viðkomandi verður af verði frumvarpið að lögum. Mismunurinn endar síðan í vasa fjármálafyrirtækja fyrir tilstuðlan löggjafans.

Samtökin mótmæla því harðlega að fortakslaus regla sem þessi sé lögfest varðandi einstaklinga án þess að neitt lágmark sé tiltekið. Þannig má gera ráð fyrir að í raun sé refsivert að skila ekki afgangsmynt, e.t.v. örfáum evrum. Umrætt ákvæði verður einnig að skoða í samhengi við 4. og 5. gr. frumvarpsins þar sem refsiákvæðum laga um gjaldeyrismál er breytt þannig að þau nái yfir þau ákvæði sem ætlunin er að lögfesta með frumvarpinu. Þannig varðar það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að gleyma að skila gjaldeyri sem ekki hefur verið notaður á ferðalagi, enda er heimilt að refsa fyrir brot á lögunum sem framin eru af gáleysi, sbr. 16. gr. a. laga um gjaldeyrismál. Þar sem ekkert lágmark er að finna í frumvarpinu verður heimilt að refsa einstaklingi með sektum eða fangelsi fyrir að gleyma að skila inn 5 evrum eða þaðan af minni upphæð. Þessi niðurstaða er með ólíkindum og hvetja samtökin eindregið til þess að lögfest verði lágmarksupphæð varðandi þann gjaldeyri einstaklinga sem skilaskylda hvílir á þannig að í lagasetningu þessari verði gætt eðlilegs meðalhófs.

Að lokum vilja samtökin velta upp þeirri spurningu hvaða takmarki stefnt sé að með reglum þeim sem er að finna í 3. gr. d. frumvarpsins. Frumvarpið í heild sinni tekur til gjaldeyrismála sem eru einstaklingum almennt óviðkomandi. Tilgangur þess er að lögfesta reglur um gjaldeyrishöft sem nauðsynlegar eru í kjölfar bankahrunsins, til þess að vernda íslenskt efnahagslíf fyrir óhóflegu útflæði gjaldeyris sem haft getur neikvæð áhrif á gengi krónunnar og efnahagslífið í heild. Ekki verður hins vegar séð að þær ítarlegu reglur sem ætlunin er að lögfesta varðandi einstaklinga, og sem eiga sér ekki fyrirmynd í núgildandi reglum Seðlabankans, hafi mikil áhrif þegar umfang gjaldeyrismála í skýrslu Seðlabankans er eingöngu tiltekið í milljörðum króna. Þá kemur hvergi fram í athugasemdum með frumvarpinu af hverju nauðsynlegt sé að lögfesta jafn ítarlegar reglur og þessar varðandi ferðamannagjaldeyri og af hverju nauðsynlegt sé að refsiákvæði laganna, sem hafa að geyma heimild til að refsa fyrir gáleysisbrot, séu að öllu leyti látin ná yfir ákvæði sem snúa að einstaklingum. Einnig má gera athugasemdir við lagasetningu sem þessa þar sem ætlunin er að lögfesta ítarlegar reglur en hvergi kemur fram hvernig eftirliti skuli háttað eða hvort einhver breyting verði á eftirlitinu í kjölfar þeirra breytinga á reglunum sem ætlunin er að lögfesta með frumvarpi þessu, en ljóst er að mismunandi sjónarmið hljóta að eiga við þegar annars vegar er um einstakling að ræða og hins vegar útflutningsfyrirtæki sem eignast mikið magn gjaldeyris í hverjum mánuði.

Neytendasamtökin hvetja því til þess að 3. gr. d. frumvarpsins verði endurskoðuð í ljósi ofangreindra athugasemda.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir við frumvarpið.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Heimir Skarphéðinsson

Slóðin á frumvarpið er: