Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna

mánudagur, 22. júní 2009

 

Nefndarsvið Alþingis
Menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 22. júní 2009

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum (82. mál).

Neytendasamtökin fagna þeirri breytingu sem felst í frumvarpi þessu, þ.e. að meginreglan verði sú að námsmaður þurfi ekki að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð, ef hann telst uppfylla skilyrði stjórnar Lánasjóðsins um lánshæfismat. Telja verður að þetta fyrirkomulag tryggi betur að tilgangur laganna nái fram að ganga, þ.e. að nemendur hafi jafna stöðu til að stunda nám óháð aðstoð annarra.

Gera verður þó fyrirvara um ágæti þessa frumvarps þar sem stjórn Lánasjóðsins hefur sjálfsvald um hvaða skilyrði námsmenn þurfi að uppfylla til að komast hjá því að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð. Það kemur skýrt fram að námsmenn verða að teljast lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins, en það er ekki tilgreint nánar hvernig þessar reglur skuli vera. Að svo stöddu er því óvíst hvert efni þessara reglna verða og því með öllu óljóst hversu ströng skilyrði námsmenn þurfa að uppfylla til þess þeir teljist lánshæfir.

Neytendasamtökin geta því ekki lagt mat á gildi þessa frumvarps, þar sem nauðsynlegt er að gera grein fyrir þessum skilyrðum sem stjórn Lánasjóðs er heimilt að miða við í útlánareglum sínum. Ef skilyrðin verða of þröng má álykta að frumvarpið nái ekki tilgangi sínum að tryggja jafnan rétt til náms.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóðin á frumvarpið er: