Frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli

mánudagur, 14. nóvember 2011

 

Hér er umsögn Neytendsamtakanna um breytingu á lögum um matvæli. Þar er gerð tillaga um aukið frelsi við selja eða veita mat án endurgjalds.

Nefndasvið Alþingis
Atvinnuveganefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 14. nóvember 2011

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum (takmörkun á gildissviði laganna, reglugerðarheimild, EES-reglur), 138. mál.

Neytendasamtökin telja afar mikilsvert að gætt sé vel að öryggi, gæðum og hollustu við framleiðslu og dreifingu matvæla. Hins vegar telja samtökin jafnframt eðlilegt að einstökum aðilum sem vilja selja eða veita mat án endurgjalds, í tengslum við hjálparstarf, íþróttir, félagsmál, eða önnur slík málefni sem horfa til almannaheilla sé gert mögulegt að starfa með einfaldari hætti og færri skilyrðum en nú er. Jafnframt telja samtökin rétt að mögulegt sé að víkja frá ákvæðum laga 93/1995 þegar um er að ræða matvæli sem framleidd eru með hefðbundnum íslenskum aðferðum o.þ.h. Þó telja samtökin brýnt að vel sé gætt að því að ekki verði gengið svo langt í sveigjanleika að matvælaöryggi sé ógnað á nokkurn hátt. Því telja samtökin mikilvægt að reglugerð sú sem gert er ráð fyrir í b-lið 1. gr. verði sett sem fyrst í kjölfar laganna.

Á grundvelli ofanritaðs telja samtökin ekki ástæðu til að senda sérstaka umsögn vegna máls 61, frumvarps sem nú er einnig til meðferðar hjá nefndinni, og varðar einnig breytingu á lögum um matvæli nr. 93/1995, enda virðist gengið lengra í frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar. Þá virðist samtökunum eðlilegra og horfa til mikillar einföldunar að skilja þá aðila sem matreiða og selja matvæli í þágu góðgerðarstarfsemi einfaldlega undan gildissviði laganna fremur en að gera þeim að sækja um sérstakt tímabundið starfsleyfi.

Neytendasamtökin styðja því framangreint frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Fyrir liggur tillaga til þingsályktunar um svipað efni og sem nefnt er í umsögninni en það gengur skemmra. Slóðin á þá tillögu er: http://www.althingi.is/altext/140/s/0061.html.

Slóðin á lögin sjálf er svo http://www.althingi.is/lagas/nuna/1995093.html.