Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda

mánudagur, 28. október 2013

 

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 28. október 2013.

Umsögn við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda nr.62/2005, með síðari breytingum (talsmaður neytenda o.fl.), 94. mál.

Á síðasta þingi Neytendasamtakanna var gerð samþykkt um áherslur í neytendamálum 2012-2014. Þar kom m.a. eftirfarandi fram:„Neytendastofa og talsmaður neytenda verði sameinuð í Umboðsmann neytenda til að gera stjórnsýslu á sviði neytendamála skilvirkari. Tryggt verði með fjárveitingum að embættið geti sinnt lögformlegum skyldum sínum.“

Í plaggi sem samþykkt var á þingi samtakanna árið 2008 og ber heitið stefna og áherslur Neytendasamtakanna sept. 2008 – sept. 2010 segir svo m.a.:
„Þing Neytendasamtakanna telur brýnt að breyta lögum um yfirstjórn neytendamála. Í stað núverandi Neytendastofu og talsmanns neytenda komi ný og öflug stofnun sem hafi eftirlit með hinni eiginlegu neytendaréttarlöggjöf. Neytendastofa sinnir margvíslegum öðrum verkefnum sem eiga þar ekki heima, enda í grunninn byggð á Löggildingastofu. Þingið telur eðlilegt að horfa til norskrar löggjafar hvað þetta varðar þannig að öflug stofnun sjái um að framfylgja löggjöf á neytendaréttarsviði en Neytendasamtökin annist aðra þætti neytendamála. Núverandi fyrirkomulag er flókið og veldur ruglingi.“

Þessi afstaða samtakanna er óbreytt og fagna þau því tillögum um að sameina embætti talsmanns neytenda og Neytendastofu. Þó telja samtökin brýnt að tryggt verði að fjárveitingar til stofnunarinnar nægi til að hún geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum. Eins og fram kemur í athugasemdum við ofangreint frumvarp byggist frumvarpið á tillögum starfshóps sem ætlað var að fara yfir skipan neytendamála, hlutverk ráðuneyta og stofnana auk þess að skoða hlutverk frjálsra félagasamtaka í neytendamálum. Í tilefni af því er rétt að taka fram að tillaga starfshópsins um þetta atriði var svohljóðandi:
Starfshópurinn gerir þá tillögu að embætti talsmanns neytenda verði lagt niður og málaflokkur neytendamála styrktur með öðrum hætti með því fjármagni sem varið er í embættið. Á árinu 2012 var alls 14,5 milljónum á fjárlögum varið til talsmanns neytenda.  Starfshópurinn leggur til að fjármagninu verði skipt að jöfnu milli neytendaréttarsviðs Neytendastofu og Neytendasamtakanna, eyrnamerkt kvörtunar- og leiðbeiningarþjónustunni sem þar er rekin.
Ekki verður séð af fjárlagafrumvarpi næsta árs að ætlunin sé að veita því fjármagni sem sparast, eða hluta þess, með því að sameina stofnanir á þennan hátt, til Neytendastofu eða Neytendasamtakanna. Því er aðeins verið að hrinda hluta af tillögu starfshópsins í framkvæmd. Er því í raun freistandi að álíta að ekki sé beinlínis um sameiningu að ræða heldur aðeins niðurfellingu eins embættis. Þá segir í almennum athugasemdum um fumvarpið að verið sé að styrkja málaflokkinn. Það er vissulega fagnaðarefni ef svo er en þó er vandséð að í raun sé verið að styrkja neytendavernd með því að veita minna fjármagni til málaflokksins en áður.

Þá telja samtökin brýnt að samhliða sameiningunni verði nafni stofnunarinnar breytt í „Umboðsmann neytenda“, bæði til þess að undirstrika að hér sé um sameiningu að ræða en ekki einungis niðurfellingu eins embættis og eins vegna þess að nafngiftin „Neytendastofa“ hefur valdið því að neytendur, fjölmiðlafólk, og jafnvel ráðamenn rugla Neytendasamtökunum saman við Neytendastofu. Slíkt er mjög bagalegt, bæði fyrir Neytendasamtökin og væntanlega eins fyrir Neytendastofu, því stofnun sem sinnir eftirlitshlutverki og starfar eftir ákveðnum lagaramma á lítið skylt við frjáls félagasamtök sem sinna hagsmunabaráttu og aðstoða neytendur við að ná fram einkaréttarlegum kröfum sínum.

Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni undir lok síðasta árs og sendu Neytendasamtökin við það tækifæri ítarlega umsögn um skýrsluna. Um það atriði sem hér er til umfjöllunar sagði þannig í umsögn samtakanna:
„Á bls. 13 kemur fram tillaga starfshópsins um að leggja skuli niður embætti talsmanns neytenda. Neytendasamtökin telja rétt að benda á eftirfarandi samþykkt sem gerð var á þingi samtakanna í september sl.: „Neytendastofa og talsmaður neytenda verði sameinuð í Umboðsmann neytenda til að gera stjórnsýslu á sviði neytendamála skilvirkari.“ Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að Umboðsmaður neytenda starfi hér á landi eins og á öðrum Norðurlöndum. Eðlilegt er að um leið og embætti talsmanns neytenda verði lagt niður, verði Neytendastofa einnig lögð niður undir núverandi heiti og embætti umboðsmanns neytenda taki við og starfi þá með sambærilegum hætti og sambærileg embætti á Norðurlöndum og sinni einnig þeim verkefnum sem Neytendastofa gerir nú. Það er sannfæring samtakanna að slík breyting myndi styrkja neytendastarf og stuðla að aukinni skilvirkni. Þá telja Neytendasamtökin rétt að þeir fjármunir sem myndu sparast með þessari sameiningu yrðu nýttir eins og lagt er til í skýrslunni, enda telja samtökin það ákjósanlega leið til að efla neytendastarf.“

Raunar voru samtökin jákvæð gagnvart þeim tillögum sem fram komu í skýrslunni og telja afar brýnt að fleiri tillögum verði hrint í framkvæmd hið fyrsta. Til dæmis er afar áríðandi að tryggt verði að fleiri fari að álitum kærunefndar lausafjár- og þjónustukaupa, en eins og staðan er nú er raunar ekki vitað hver fylgni við álitin er en síðast þegar hún var skoðuð var hún um 50% sem hlýtur að teljast algerlega óásættanlegt. Snemma árs 2011 sendu Neytendasamtökin þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra erindi þar sem farið var fram á að tekin yrði upp nafnbirting þeirra fyrirtækja sem ekki fara að álitum nefndarinnar en slíkt fyrirkomulag er m.a. við lýði í Danmörku. Erindi þetta mætti skilningi innan ráðuneytisins en því miður hefur ekki komið til neinna aðgerða í kjölfarið. Í áðurnefndri skýrslu kemur svo fram sú tillaga að kærunefndin taki upp sama verklag og tíðkast í Danmörku.
Er þetta einungis nefnt hér í dæmaskyni um það að grípa þarf til ýmissa frekari aðgerða en sameiningar embætta til að bæta neytendalöggjöf hér á landi.

Neytendasamtökin gera svo ákveðnar athugasemdir varðandi 1. málslið b.-liðar 1. gr. frumvarpsins sem er svohljóðandi: „Neytendastofa skal stuðla að fræðslu til almennings um neytendamál og önnur verkefni sem stofnuninni verða falin með lögum eða reglugerðum.“ Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir aukinni neytendafræðslu og í samþykktum þings Neytendasamtakanna frá hausti 2012 segir m.a.: „Ríkissjónvarpið geri fasta sjónvarpsþætti um ýmis málefni sem varða neytendur og sinni þannig fræðsluskyldu sinni. Efla þarf neytendafræðslu innan skólakerfisins. Einnig ber skólum og yfirvöldum menntamála að sjá til þess að fyrir hendi sé öflug fullorðinsfræðsla á þessu sviði.“ Samtökin ítreka þá afstöðu sína að efla þurfi fræðslu verulega, bæði með kennslu- og kennsluefni í grunn- og framhaldsskólum og eins með aukinni fjölmiðlaumfjöllun, en umfjöllun Ríkisútvarpsins um neytendamál hefur verið af skornum skammti, sé t.a.m. miðað við aðra ríkisfjölmiðla á Norðurlöndum. Neytendasamtökin taka þá undir það sem segir í athugasemdum með ofangreindu ákvæði frumvarpsins, þ.e. að markmið neytendafræðslu sé að mennta sjálfstæða, meðvitaða og vel upplýsta neytendur og að með aukinni þekkingu geti neytendur í meira mæli veitt seljendum mikilvægt aðhald. Hins vegar telja samtökin afar óljóst af frumvarpstextanum hvernig Neytendastofu sé ætlað að stuðla að slíkri fræðslu og í athugasemdum segir beinlínis að stofnunin skuli skipuleggja hana eftir efnum og aðstæðum. Neytendasamtökin telja afar mikilvægt að þessi skylda stofnunarinnar sé skilgreind nánar, og að ákveðnir fjármunir séu sérstaklega ætlaðir til þessa verkefnis. Að öðrum kosti, og miðað við verkefnaumfang Neytendastofu telja samtökin ella hætt við því að þessi liður starfseminnar verði undir. Þá ítreka samtökin enn mikilvægi þess að menntastofnanir fái nægt fjármagn til að sinna þessu brýna verkefni en ekki verði látið við það sitja að binda í lög það verkefni Neytendastofu að „stuðla að fræðslu til almennings um neytendamál“.

Með ofangreindum fyrirvörum styðja Neytendasamtökin ofangreint frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir