Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð

Þriðjudagur, 6. nóvember 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 2. nóvember 2012.

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um skaðsemisábyrgð, nr. 25/1991 (ábyrgð dreifingaraðila), 137. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemd við ofangreint frumvarp:

Um 1. gr.: Í greininni er kveðið á um að við ákvörðun bóta vegna tjóns á hlut sem hlýst af vegna ágalla á söluvöru skuli draga frá fjárhæð sem nemur 500 evrum. Í athugasemdum með greininni segir hins vegar: „…þegar tjón hefur orðið á hlut sem verður rakið til ágalla á vöru sem framleiðandi hefur framleitt eða dreift þá fellur slíkt tjón því aðeins undir ákvæði tilskipunarinnar að það fullnægi lægri fjárhæðarmörkum en þeim sem kveðið er á um í þessari grein tilskipunarinnar, þ.e. 500 evrum.“

Þarna er að mati Neytendasamtakanna ákveðið misræmi í orðalagi frumvarpstextans, sem skilja verður sem svo að draga skuli 500 evrur frá bótum vegna tjóns á hlut, óháð því hvort tjónið nemur 500 evrum eða t.d. 10.000 evrum, annars vegar og orðalagi í greinargerð hins vegar sem skilja má sem svo að bæta skuli tjón á hlut að því tilskildu að það nái lágmarkinu, sem er þá 500 evrur, en ekki er tekið fram að draga skuli 500 evrur frá bótaupphæð sama hverju tjónið nemi.

Þá er b-liður 9. gr. tilskipunarinnar svohljóðandi: „damage to, or destruction of, any item of property other than the defective product itself, with a lower threshold of 500 ECU, provided that the item of property:
(i) is of a type ordinarily intended for private use or consumption, and
(ii) was used by the injured person mainly for his own private use or consumption.“
Að mati Neytendasamtakanna er í b-lið 9. gr. kveðið á um að tjón á hlut eða eigum neytenda skuli bætast að því tilskyldu að tjónsupphæðin nemi tilteknum þröskuldi (þ.e. 500 ECU), en ekki er kveðið beint á um að sú fjárhæð, þ.e. 500 evrur skuli dragast frá bótafjárhæð óháð fjárhæð tjónsins.

Að mati samtakanna er því gengið lengra í 1. gr. frumvarpsins heldur en tilskipunin beinlínis kveður á um og hvetja samtökin því til þess að þetta ákvæði verði skoðað frekar. Eftir því sem samtökin komast næst (enda eðlilegt miðað við orðalag tilskipunarinnar) er nokkuð misjafnt eftir löndum hvort látið er nægja að miða við þröskuldinn, en nemi tjón fjárhæðum umfram hann skuli það að fullu bætt, eða hvort 500 evrur eru dregnar frá bótafjárhæð óháð því hversu mikið hið fjárhagslega tjón er. Hvetja samtökin til þess að fyrri leiðin verði fyrir valinu hér á landi, enda verður ekki í fljótu bragði séð að tilskipunin krefjist þess að gengið sé lengra í skerðingu bótaréttar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir