Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt (skattlagning sjúkdómatrygginga)

Þriðjudagur, 8. febrúar 2011

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og skattanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 7. febrúar 2011

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt með síðari breytingum, 300. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp en samtökin telja skorta mjög á skýrleika frumvarpsins eins og það liggur nú fyrir Alþingi.

Samkvæmt núgildandi 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 teljast skattskyldar tekjur með þeim undantekningum sem greinir í lögunum, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs, og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær eru. Samkvæmt 2. tl. A-liðar 7. gr. teljast til tekna tryggingabætur, meðlög og styrkir, skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóma, slysa, atvinnutaps eða launamissis og hvers konar skaðabætur og vátryggingabætur, sbr. þó 2. tl. 28. gr. Í 2. tl. 28. gr. kemur svo fram að ekki teljist til tekna eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingafjár, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, enda séu bætur þessar ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Samkvæmt þessu eru því greiðslur vegna líftryggingar, dánarbóta, miskabóta og bóta fyrir varanlega örorku, skattfrjálsar. Er hér um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu sem kemur fram í 7. gr. laganna. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-10220/2009 var því hafnað að greiðslur úr sjúkdómatryggingu, sem ákveðnar eru í einu lagi til greiðslu, væru felldar undir hugtakið líftryggingu í 2. tl. 28. gr. laganna, heldur yrði að telja það skattskyldar tekjur skv. 2. tl. A-liðar 7. gr.

Sjúkdómatryggingum er almennt ekki ætlað að bæta upp launamissi eða annað fjárhagslegt tap sem hlýst af því að vátryggður greinist með sjúkdóm sem gerir það að verkum að greiðsluskylda tryggingafélags verður virk. Má segja að sjúkdómatryggingum svipi að mörgu leyti til líftrygginga, þ.e. greiðsluskylda tryggingafélags verður virk við ákveðinn atburð eða aðstæður og greiðslunum er ekki ætlað að mæta fjárhagslegu tjóni eða bæta ákveðið fjárhagslegt tjón sem vátryggður verður fyrir. Því má telja að þau sjónarmið sem eigi við um líftryggingar eigi að mörgu leyti einnig við um sjúkdómatryggingar, og því sé ekki eðlilegt að gera þennan greinarmun á líftryggingum og sjúkdómatryggingum. Afstaða Neytendasamtakanna er því í raun sú að rétt sé að greiðslur vegna sjúkdómatrygginga séu skattfrjálsar rétt eins og greiðslur vegna líftrygginga.

Með frumvarpinu er ætlunin að skattlagning á útgreiðslum vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði ekki skattskyldar. Neytendasamtökin telja að í þessari reglu geti falist mikið ósamræmi og reglan geti þegar upp er staðið skipt tryggingatökum sjúkdómatrygginga í hópa eftir því hvenær og hvernig samningur um sjúkdómatryggingu er gerður. Verður nú fjallað sérstaklega um þetta atriði.

Það skiptir miklu máli fyrir efni frumvarpsins hvaða skilningur er lagður í hugtakið „kaupa“, en athugasemdir með frumvarpinu gefa engar vísbendingar þar að lútandi.  Lagt er til að greiðslur úr sjúkdómatryggingum sem „keyptar“ hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði skattfrjálsar. Á vátryggingamarkaði stendur neytendum til boða að kaupa sjúkdómatryggingar með mismunandi hætti. Þannig geta neytendur keypt sjúkdómatryggingar frá ári til árs, eins og er með flestar venjulegar tryggingar. Er þá óljóst hvort „keypt“ er ný sjúkdómatrygging á hverju ári, þ.e. þegar samningar endurnýjast, eða hvort rétt er að telja að „kaupin“ eigi sér stað þegar samningur um sjúkdómatryggingu er fyrst gerður, þ.e. þegar viðskiptavinur færir viðskipti sín til viðkomandi tryggingasala. Sé seinni skilningurinn réttur hamlar það verulega hreyfanleika viðskiptavina á tryggingamarkaði. Neytendum stendur það varla til boða að færa sig milli vátryggingafélaga/fjármálafyrirtækja ef ljóst er að ef samningi er sagt upp og gerður nýr samningur við annað fyrirtæki munu greiðslur samkvæmt þeim samningi verða skattskyldar, en ef neytandinn hefði haldið sig við gerðan samning og endurnýjað hann árlega myndu greiðslur vegna þess samnings verða skattfrjálsar. Sé fyrri skilningurinn hins vegar réttur, þ.e. að „kaup“ eigi sér stað árlega, þ.e. þegar trygging er endurnýjuð, skapast verulegt misræmi milli þeirra sem gera samninga til eins árs í senn og þeirra sem gera langtímasamninga um sjúkdómatryggingar.

Í sumum tilvikum er hægt að gera langtímasamninga sem jafnvel gilda í 20 – 25 ár, og hafa slíkir samningar verið í boði hjá mörgum vátryggingafélögum og jafnvel fjármálafyrirtækjum. Jafnan eru greidd iðgjöld af slíkum langtímasamningum einu sinni á ári en þar sem gerður er samningur til langs tíma verður að telja að „kaupin“ hafi átt sér stað við upphaflega samningsgerð. Er því ljóst að bætur vegna slíks samnings verða ekki skattskyldar, verði frumvarpið að lögum, jafnvel þó útgreiðsla bóta eigi sér ekki stað fyrr en eftir 10-20 ár.  Ljóst er því að frumvarpið, verði það að veruleika, mun fela í sér mikið ójafnræði milli tryggingataka eftir því hvort þeir gera langtímasamninga eða samninga til eins árs í senn. Jafnframt er þó ljóst að þeir sem gert hafa slíkan langtímasamning fyrir 1. desember 2010 eiga þess varla kost að segja upp samningnum og leita annað með viðskipti sín, þar sem slík tilfærsla viðskipta myndi hafa skattskyldu bótagreiðslna í för með sér. Verði frumvarp þetta að lögum er því einnig dregið stórlega úr hreyfanleika viðskiptavina sem gert hafa samninga til langs tíma.

Hvað varðar tímamörkin er einnig afar óljóst af hverju miða eigi við 1. desember 2010, enda ekki ljóst hvernig framkvæmd við sölu trygginga hefur breyst við það tímamark. Eins og tekið er fram í almennum athugasemdum við frumvarpið hafa tryggingafélögin markaðssett sjúkdómatryggingar á þann hátt að greiðslur úr þeim séu skattfrjálsar. Ekki verður séð að tryggingafélög hafi breytt framkvæmd sinni vegna sölu og markaðssetningar þessara trygginga að neinu verulegu leyti, og jafnframt er alls óljóst hvort þau hafi öll tilkynnt viðskiptavinum sínum sérstaklega um skattskyldu bótagreiðslna úr slíkum tryggingum. Þá verður ekki séð að við endurnýjun sjúkdómatrygginga hafi viðskiptavinum sérstaklega verið boðið að hækka tryggingarfjárhæð vegna skattskyldu bótagreiðslna. Það er því ekki ljóst, enda ekki skýrt að neinu leyti í athugasemdum, af hverju 1. desember 2010 hefur orðið fyrir valinu. Einnig þarf að horfa til þess að stundum er um að ræða líf- og sjúkdómatryggingu sem seld er sem ein og sama tryggingin. Með samþykkt frumvarpsins gæti staðan því orðið þannig hjá einstaka tryggingatökum að sami samningur feli í sér skattskyldu og skattfrelsi útgreiðslu. Það er deginum ljósara að slíkt ósamræmi er afar slæmt og bíður augljóslega upp á deilur um það hvort greiðsla skuli vera skattskyld eða skattfrjáls.

Neytendasamtökin leggjast því gegn samþykkt þessa frumvarps í núverandi mynd. Í öllu falli þarf að koma mun skýrar fram í greinargerð hvert markmið þessarar lagabreytingar er og hvernig eigi að ná því markmiði.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slópin á frumvarpið er: