Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald og tollalögum (sykurskattur)

mánudagur, 10. desember 2012

 

Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10 
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. desember 2012

Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987, og tollalögum nr. 88/2005, með síðari breytingum, 473. mál.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að skipaðir hafi verið tveir starfshópar í maímánuði sl. til að fjalla um og koma með tillögur um breytingar á vörugjaldi. Starfshópur  1 fjallaði álagningu vörugjalda á matvæli en hópur 2 um álagningu vörugjalda á aðrar vörur. Neytendasamtökin áttu fulltrúa í báðum þessum hópum og gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Varðandi vinnu starfshóps 1: Fljótlega kom í ljós að fjármálaráðherra var þegar búinn að taka ákvörðun um að vörugjald yrði fært á milli vöruflokka og  vörugjald lagt á sykur og sætuefni og vörur sem innhalda þessi hráefni. Á síðari stigum kom fram að þetta ætti að auka tekjur ríkissjóðs um 800 milljónir króna. Allir aðilar sem tóku þátt í þessum starfshóp, nema fulltrúi fjármálaráðherra, eru ónægðir með starfið í þessum starfshópi og hafa mótmælt hugmyndum  ráðuneytisins, en ekki hefur verið hlustað á sjónarmið þeirra. Áherslur fulltrúa Landlæknis voru að sumu leyti aðrar en annarra sem störfuðu í hópnum, sumsé fulltrúa frá Bændasamtökunum, Félagi atvinnurekenda, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.

Neytendasamtökin hafa lýst sig andstæð sérstökum sykurskatti og raunar vörugjaldi á öllum matvælum. Fyrir allmörgum árum síðan var slíkur skattur til umræðu og lýsti þing Neytendasamtakanna sig þá andvígt slíkum skatti. Jafnframt hefur þing Neytendasamtakanna ályktað að leggja eigi niður vörugjöld á öll matvæli.
Staða heimilanna í landinu er ekki með þeim hætti að ástæða sé til íþyngja þeim frekar eins og lagt er til í frumvarpinu. Minnt er á að hækkanir á vörugjöldum koma með tvöföldum þunga á heimilin, fyrst í hækkun vöruverðs en síðan með hækkun á verðtryggðum lánum heimilanna.
Jafnframt lýsa Neytendasamtökin yfir óánægju sinni með þau stjórnsýslulegu vinnubrögð að skipaður sé starfshópur til að skoða eitthvað sem í raun er þegar búið að taka pólitíska ákvörðun um, þannig að starf hópsins hafi í raun ekkert vægi.

Í greinargerð með fumvarpinu er vísað til manneldissjónarmiða með tillögu um sykurskatt. Neytendasamtökin hafa enga trú á að þær breytingar sem lagðar eru til breyti innkaupamynstri heimilanna nema í sáralitlu mæli. Þó tveggja lítra gosflaska hækki um ca. 20 krónur og dós af jógúrt um einhverjar fáar krónur breytir það litlu um innkaupamunstur og veldur því einu að matarinnkaup verða enn stærri útgjaldaliður en nú er.

Neytendasamtökin leggja áherslu á að það sem skilar árangri í baráttu við offitu er miðlun góðra upplýsinga og vönduð fræðsla um mikilvægi rétts mataræðis. Þar þurfa neytendur að hafa miklu meira í huga en sykur, má þar m.a. nefna fitu og salt. Hins vegar verður ekki séð af frumvarpinu að ætlunin sé að reyna að sporna við neyslu feitra matvæla og glata því  manneldissjónarmið þau sem haldið er fram í frumvarpinu nokkrum trúverðugleika, og virðist hér eingöngu vera um að ræða enn eina skatttökuna af heimilum í landinu.

Neytendasamtökin telja miklu nær að hér á landi verði teknar upp betri merkingar á matvæli sem sýna neytendum á skiljanlegan hátt hvort varan innihaldi mikið magn sykurs, fitu eða salts. Bretar hafa innleitt slíkar merkingar, svokölluð „umferðarljós” og nú stendur yfir enn frekari samræming á þessum merkingum í Bretlandi. Neytendasamtökin draga í efa að það liggi  í raun lýðheilsurök að baki sykur- og sætuefnaskattinum. Mjög illa gekk að sannfæra stjórnvöld um að innleiða norræna hollustumerkið Skráargatið hér á landi og þá hafa samtökin ekki fengið nein svör frá stjórnvöldum varðandi kröfuna um merkingar á salti. Neytendasamtökin telja algert grundvallaratriði að neytendur hafi aðgang að góðum og skýrum upplýsingum á matvælum, Það ætti að vera forgangsatriði ef markmiðið er að bæta lýðheilsuna.

Með vísan til þess sem hér kemur fram leggjast Neytendasamtökin alfarið gegn tillögum frumvarpsins um breytingar á vörugjaldi á matvæli.

Starfshópur 2 skilaði sameiginlegum niðurstöðum. Hópnum var ætlað að koma með tillögur um samræmi vörugjalds á einstökum vöruflokkum sem eru í innbyrðis samkeppni. Þessar breytingar eiga ekki að hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Að því gefnu styðja Neytendasamtökin þann hluta frumvarpsins er snúa að öðrum vörum en matvælum.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður