Frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og fl. lögum

Fimmtudagur, 25. nóvember 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og skattanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 25. nóvember 2010

EFNI: Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara, 206. mál.

Neytendasamtökin fagna því að setja eigi lög sem ætlað er að eyða þeirri óvissu sem skapast hefur í kjölfar dóma Hæstaréttar vegna svokallaðra gengislána. Að þessu sögðu gera samtökin þó eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um 1. mgr. 2. gr.: Í 1. msl. 1. mgr. er kveðið á um það að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald (þá væntanlega m.a. um verðtryggingu) teljast ógild skuli alla jafna miða við 1. msl. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þ.e. óverðtryggða vexti Seðlabankans. Þetta telja Neytendasamtökin í sjálfu sér eðlilegt ákvæði og í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar í máli 471/2010. Í 2. msl. er hins vegar kveðið á um að sé annað tveggja, vextir eða verðtrygging ógild, skuli ákvæði samnings um vexti og verðtryggingu fara eftir því sem kveðið er á um 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu. Neytendasamtökin telja skilin milli þessara tveggja ákvæða afar óljós og að skýra mætti nánar í hvaða tilvikum hvað á við. Þá er rétt að benda á að væntanlega er í seinna tilvikinu átt við ákvæði 2. málsliðar 4. gr., en 4. gr. fjallar bæði um vexti á verðtryggð og óverðtryggð lán, og væri væntanlega rétt að taka fram hvort ákvæðið átt er við.  Í lokamálslið 2. mgr. 2. gr. er einnig óljóst um hvers kyns vexti í skilningi 4. gr. er að ræða, og telja Neytendasamtökin mikilvægt að allri óvissu varðandi það verði eytt.

Þegar litið er til þess að lögum þessum er ætlað að einfalda endurútreikning ólögmætra lánasamninga og skýra réttarstöðu lántakenda verður að viðurkennast að 2. gr. frumvarpsins er í heild nokkuð óljós og þvælin í framsetningu og vandséð hvernig almenningur skuli byggja rétt á henni. Til skýringar á greininni væri að mati samtakanna strax til bóta að setja fram fleiri dæmi endurútreiknings í greinargerð, en einungis er að finna eitt reikningsdæmi um endurútreikning í athugasemdum við 5. mgr. 2. gr., og er það svo einfalt í sniðum að varla er hægt að búast við að það nýtist við skoðun á endurútreikningi raunverulegra lánssamninga.

Þá telja Neytendasamtökin ekki koma nægilega skýrt fram með hvaða hætti lánveitendur skuli vaxtareikna ofgreiðslur af lánunum, en væntanlega er eðlilegt að ofgreiðslur beri sömu vexti og lánin sjálf, það er alla jafna óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, þannig að lántaki beri ekki skaða af því að lánið hafi í upphafi verið ólöglegt og þess vegna ofgreitt. Hugsanlega má ráða einhverjar vísbendingar í þessa veru af 5. mgr. 2. gr. en það er þó engan veginn skýrt. Þetta verður að koma fram með afdráttarlausum hætti svo að almenningi sé kleift að byggja einhvern rétt á þessu ákvæði.

Um 4. mgr. 2. gr.: Hér er kveðið á um heimild til uppgreiðslu án uppgreiðslugjalds teljist samningsákvæði um verðtryggingu og vexti ógild. Í greinargerð með ákvæðinu er hins vegar tekið fram að ákvæðið gildi ef samningur um lán hefur haft að geyma ólögmæt ákvæði um vexti eða verðtryggingu. Neytendasamtökin telja brýnt að hér verði skorið úr um hvort bæði ákvæði um vexti eða verðtryggingu þurfi að teljast ólögmæt eða hvort dugi að annað tveggja komi til. Samtökin telja jafnframt brýnt að þessu ákvæði verði einnig skipað í lög um neytendalán nr. 121/1994, enda hefur III.kafli þeirra laga að geyma ákvæði um greiðslu fyrir gjalddaga. Þegar um ólögmæt samningsákvæði um vexti og/eða verðtryggingu er að ræða er enda yfirleitt um að ræða neytendalán, og því mikilvægt að ákvæði um uppgreiðslu slíkra lána sé að finna í lögum um neytendalán. Raunar er vert að velta upp þeirri hugmynd hvort öll þau ákvæði þessa frumvarps sem snúa að neytendalánum ættu e.t.v. betur heima í lögum um neytendalán. Mundi það jafnframt tryggja eftirlit með þessum ákvæðum, en Neytendastofa hefur eftirlit með lögum um neytendalán. Hins vegar er ekki sambærilegt eftirlit með framkvæmd laga um vexti og verðtryggingu né verður séð að gert sé ráð fyrir að koma því á fót í frumvarpi því sem hér er til skoðunar.

Um 3. gr. b. (XI), sbr. 6.gr. (breyting á lögum nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara): Hér er kveðið á um að efnahags- og viðskiptaráðherra sé heimilt að fela umboðsmanni skuldara að hafa eftirlit með útreikningum fjármálafyrirtækja vegna uppgjörs, óska eftir upplýsingum um forsendur útreikninga og kveða á um úrbætur ef þörf krefur. Neytendasamtökin telja ekki nægilegt að hér sé um heimild ráðherra að ræða, heldur eigi þegar í stað að fela umboðsmanni skuldara þetta verkefni með breytingu á lögum nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara. Eftir að fjármálafyrirtæki hófu að senda lántökum endurútreikninga sína vegna bílalána hafa fjölmargir leitað til samtakanna með fyrirspurnir vegna þeirra. Oft getur verið um afar flókna útreikninga að ræða sem erfitt er fyrir almenning að átta sig á. Þá virðist jafnframt mjög misjafnt hversu vandaðar skýringar og forsendur fylgja þessum útreikningum frá fjármálafyrirtækjum. Hins vegar hefur verið mjög óljóst hvert lántakar geti leitað til að fá aðstoð vegna þessara mála, en varla er hægt að ætlast til að aðrir en sérfræðimenntaðir aðilar á sviði hagfræði eða endurskoðunar geti veitt hana. Þá er, eins og áður segir, frumvarp það sem hér liggur fyrir, nokkuð óskýrt og flókið og því nauðsynlegt að almenningur fái aðstoð við að átta sig á réttarstöðu sinni. Því hlutverki er best komið hjá opinberu embætti sem ætlað er að gæta hagsmuna skuldara og hefur víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar frá fyrirtækjum. Þá þykir einnig við hæfi að fjármálafyrirtækin sjálf fjármagni vinnu við eftirlit með endurútreikningum lána, en þau standa einmitt straum af kostnaði við rekstur áðurnefnds embættis. Því leggja Neytendasamtökin ríka áherslu á að eftirliti með þessum þáttum verði strax komið í viðeigandi horf og falið umboðsmanni skuldara með lögum.

Um a-lið 3. gr. f: Hér er kveðið á um það að skuldara sé heimilt, á eigin kostnað, að óska eftir óháðu mati löggilts bifreiðasala á matsverði bifreiðarinnar og skuli við það mat tekið tillit til hæfilegs kostnaðar við sölu bifreiðarinnar. Neytendasamtökin telja afar mikilvægt að settar séu skýrar reglur um það hvernig bifreið skuli metin við skil hennar við samningslok. Það virðist því miður hafa tíðkast að lánveitendur miði við uppítökuverð sambærilegra bifreiða (sem eru þá jafngamlar og álíka mikið eknar), dragi svo frá þeirri tölu viðbótarafföll (yfirleitt um 15%) en svo er dregið frá þeirri tölu matsverð viðgerða vegna ýmiss konar ágalla á bifreiðinni, án þess þó að þeir teldust gallar á notaðri bifreið. Þannig er dreginn frá matsverði kostnaður vegna ýmissa hluta sem teljast mega eðlilegir í eldri bifreiðum, svo sem smávægilegra rispa á lakki o.s.frv., sem ekki hafa alla jafna áhrif á gangverð notaðra bifreiða. Telja má að í mörgum tilvikum geti lánveitandi svo selt bílinn á gang- eða viðmiðunarverði án þess að til frekari viðgerða þurfi að koma. Er staðan því oft sú að jafnvel lántakar sem hafa staðið fyllilega í skilum sitja uppi með umtalsverða skuld vegna bifreiða. Telja Neytendasamtökin því eðlilegt að settar verði skýrar reglur um mat á bifreiðum við samningslok, og jafnframt að lánveitandi eigi að bera þann kostnað sem af því hlýst, en ekki lántaki.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er