Frumvarp til laga um breytingu á landflutningalögum

Miðvikudagur, 6. febrúar 2013

 

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 6. febrúar 2013.

Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á landflutningalögum nr. 40/2010, 124. mál.

Neytendasamtökin ítreka umsögn sína dags. 2. apríl 2012 við 303. mál á 140. löggjafarþingi, en þá var ofangreint frumvarp einnig til umræðu. Umsögn samtakanna var svohljóðandi:

„Neytendasamtökin hafa lengi verið þeirrar skoðunar að rétt sé að efla strandflutninga, enda gætu slíkir flutningar reynst hagkvæmir, ekki síst sé tekið mið af slysahættu og sliti á vegakerfinu vegna þungaflutninga á þjóðvegum.

 
Í umsögn samtakanna við tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2011-2014 (392. mál.) og tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011-2022 (393. mál.), dags. 29. febrúar sl. kom meðal annars eftirfarandi fram:

„... styðja samtökin markmið um hagkvæmar samgöngur og telja í því sambandi að rétt væri að skoða til hlítar hugsanlega hagkvæmni við eflingu vöruflutninga á sjó. Ljóst er að þungaflutningar á þjóðvegum valda margföldu sliti á vegakerfinu miðað við umferð fólksbíla, flestir þéttbýliskjarnar landsins eru svo tengdir höfnum og því telja samtökin brýnt að skoðað verði ítarlega hvort auknir sjóflutningar kunni að vera hagkvæmari en landflutningar. Innanríkisráðherra skipaði 2011 starfshóp sem skila á tillögum um hvernig standa megi að því að koma á strandsiglingum að nýju. Í tillögum þeim sem hér liggja fyrir er ekki lagt til fjármagn til að koma á strandsiglingum en Neytendasamtökin hvetja eindregið til að það verði gert. Minnt er á að með því draga úr þungaflutningum á þjóðvegum landsins er um leið verið að auka umferðaröryggi.“

Samtökin taka því heils hugar undir þau markmið sem ofangreint frumvarp byggir á, þ.e. að gera strandsiglingar aðlaðandi kost í innanlandsflutningum.

Skilja má frumvarp þetta á þann veg að ætlunin sé að bann sé sett við því að binda veittan afslátt við heildarflutning. Þannig geti aðili sem þarf að flytja vöru um langan veg keypt hvern „legg“ ferðarinnar af mismunandi aðilum, þar eð ekki verði lengur svo miklum mun dýrara að skipta við tvo eða þrjá flutningsaðila um einn og sama flutninginn. Samtökin óttast að þetta ákvæði eitt og sér komi ekki endilega til með að bæta stöðu strandflutninga á samkeppnismarkaði, og óttast jafnvel að það muni fremur leiða til hærra verðs á landflutningum, sem er neytendum ekki til góða.

Er það því mat samtakanna að nánari skoðunar sé þörf og að frekari aðgerðir og breytingar þurfi að koma til svo strandflutningar verði raunhæfur og ákjósanlegur möguleiki í innanlandsflutningum.“

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður