Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum

Þriðjudagur, 25. maí 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Iðnaðarnefnd
Austurstræti 8-10
15ö Reykjavík

Reykjavík, 21. maí 2010.

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, 573. mál.

Almennar athugasemdir

1.      Í ofangreindu frumvarpi er að finna tillögur um breytingar á gildandi raforkulögum nr 65/2003. Breytingarnar varða þau ákvæði raforkulaganna, sem fjalla um flutningskerfi og dreifiveitur, en ekki þau sem varða framleiðslu raforku.
2.      Í tengslum við frumvarpið hefur töluverð vinna verið lögð í að skipta ákvæði um tekjumörk og gjaldskrá upp í tvær aðskildar greinar, aðra um tekjumörk og hina um gjaldskrá. Þetta á bæði við um flutningsfyrirtæki og dreifiveitur. Greinarnar í frumvarpinu um tekjumörk eru 6. og 9. grein og um gjaldskrá 7. og 10.grein. Þessar greinar eru unnar upp úr lögunum frá 2003, en töluverðu hefur verið breytt og sumu bætt við. Ekki verður fjallað um tekjumörkin sérstaklega hér á eftir, enda er það varla í verka­hring Neytendasamtakanna. Gjaldskrár tengjast því reyndar einnig, en þær eru settar upp í samræmi við tekjumörk. Nauðsynlegt er, að ætlun löggjafans sé skilmerkilega sett fram, þannig að öðlast megi fullan skilning á verklagi verðmyndunar í gjaldskrám flutningsfyrirtækis og dreifiveitna og mögulegt sé að gera athugasemdir eða grípa til aðgerða ef og þegar þörf krefur.
3.      Hér á eftir verður farið yfir einstakar greinar frumvarpsins, en minna verður rætt um almenn áhugaverð atriði sem tengjast markaðsvæðingu raforkukerfisins. Upphafleg hugsun með markaðsvæðingunni var sú, að aukin samkeppni mundi leiða til lægra orkuverðs, á sama hátt og hefur orðið innan flug- og fjarskiptageirans. Reynsla af markaðsvæðingu erlendis hefur því miður ekki leitt til lækkaðs raforkuverðs, og Neytendasamtökin sjá því fulla ástæðu til að vera vel á verði gagnvart þróuninni hérlendis.

Athugasemdir við einstakar greinar:

Um b-lið 1. gr.: Ekki er ljóst hvað er átt við með “innan þriggja ára” og mætti skýra það nánar. Er átt við: “á einhverju 3ja ára tímabili”?
Um 2. gr.: Hvers vegna er æskilegt að setja stærðarmörk, hvort sem þau eru 7 MW eða 10 MW? Hvað ef virkjunaraðili reisir tvær 10 MW virkjanir hlið við hlið í stað einnar 20 MW virkjunar? Gilda þá mismunandi ákvæði gagnvart flutningsfyrirtækinu? Þetta mætti skýra nánar.
Um 3. gr.: Hér er ákvæði um að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni opinberri eigu og segir svo í frumvarpinu: “Flutningsfyrirtækið skal vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitar­félaga”. Varla verður annað skilið, en að hér sé átt við 100% opinbera eignaraðild. Í fylgiskjali frá Fjármálaráðuneyti, fjárlagaskrifstofu: Umsögn um frumvarp til laga um breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum segir hins vegar “að flutningsfyrirtækið skuli vera í beinni meirihlutaeign ríkis og/eða sveitarfélaga frá og með 1. janúar 2015.” Meirihlutaeign væri þá eignaraðild sem væri stærri en 50%. Hér er væntanlega um misskilning fjárlagaskrifstofunnar að ræða, eða hvað?
Um a-lið d-liðar 3. gr.:Síðar í 3. grein er að finna sömu ákvæði og í lögum nr 65/2003 um að flutningsfyrirtækinu sé heimilt að reka raforkumarkað. Eitt helsta áhersluatriði í athugasemdum við frumvarp til raforkulaga nr 65/2003 var virkur raforkumarkaður.Við stofnun Landsnets var hinn almenni skilningur sá að fyrirtækið ætlaði að taka þetta verkefni að sér, en eftir sjö ára undirbúning og umþóttunar tíma er raforkumarkaðurinn enn í mýflugumynd. Sú spurning vaknar hvort ekki ætti að herða á þessu ákvæði og skuldbinda Landsnet til þess arna eða fá annan í verkið? Svo er sá möguleiki uppi að sleppa bara að stofna til raforkumarkaðar. Það væri kannski skynsamlegast í ljósi þess að nauðsynleg skilyrði fyrir rekstri raforkumarkaðar eru ekki fyrir hendi. Þar er átt við fámennið, markaðsráðandi stöðu stærstu orkufyrirtækjanna svo sem Landsvirkjunar o.fl.
Um b-lið d-liðar 3. gr. Hvað er átt við með að “eiga og reka fjarskiptakerfi”? Umfjöllun þar að lútandi þarf að vera skýrari.
Einnig er óljóst hvað er umframflutningsgeta er? Spurningin er sú hvort flutningsfyrirtækinu verði gert heimilt með auknum flutningum að raska gæðum raforkuafhendingar til notenda sem fyrir eru? Þetta mætti koma skýrar fram í athugasemdum við frumvarpið, kannski með dæmi. Varla þarf að taka fram að Byggðalínan er nú þegar víða að nálgast þolmörk. Umframflutningsgetu þarf að útskýra nánar til þess að Neytendasamtökin geti tekið afstöðu.
Um c-lið d-liðar 3.gr.: Á sama hátt má segja varðandi ákvæðið um að flutningsfyrirtækinu sé heimilt að “selja út sérfræðiþekkingu fyrirtækisins ef eftir því er leitað, svo fremi sem samkeppni sé ekki raskað”. Hvaða samkeppni? Þarna mætti kveða skýrar að og taka af allan vafa um að ekki sé til þess ætlast að flutningsfyrirtæki í einokunarstöðu taki að sér verkefni sem gætu verið unnin hjá íslenskum verkfræðistofum. Væntanlega væri þar á ferðinni hönnun á kerfishlutum sem tengdust íslenska raforkukerfinu. Þá væri jafnvel óeðlilegt að starfsmenn flutningsfyrirtækisins taki að sér þannig verkefni. Öðru vísi gegnir ef hér eru á ferðinni verkefni erlendis og þá mundi flutningsfyrirtækið væntanlega leita eftir samvinnu við íslenskar verkfræðistofur. Neytendasamtökin mundu ekki gera athugasemdir þó þessu ákvæði yrði sleppt.

Varðandi liði a-c d-liðar hér að framan segir í athugasemdum með greinunum: “Um er að ræða sambærilegar heimildir og hjá flutningsfyrirtækjum í nágrannalöndunum”. Hér er að mati Neytendasamtakanna nauðsynlegt að geta heimilda.
Um 6. gr.: Hér er fjallað um tekjumörk flutningsfyrirtækisins og hvernig þau verði ákveðin, undir virku eftirliti Orkustofnunar. Sjá lið 2 í almennum athugasemdum hér að framan.
Um 7. gr.: Hér er fjallað um gjaldskrá vegna þjónustu flutningsfyrirtækisins og hvernig hún verði ákveðin í samræmi við tekjumörk, einnig undir virku eftirliti Orkustofnunar. Ýmis áhugaverð atriði eru í þessum kafla sem Neytendasamtökin munu ekki fjalla sérstaklega um hér og er sumt óbreytt frá lögum nr 65/2003. Með frumvarpinu er felldur niður sá hluti gjaldskrár sem fjallar um innmötun virkjana og er núna einungis fjallað um úttektargjald virkjana. Það á að renna að hluta til flutningsfyrirtækisins og að hluta til dreifiveitna. Orðið úttektargjald mætti skilgreina í 3. gr laganna. Reyndar vekur furðu að nokkur tæknileg smáatriði skulu á þennan hátt vera skilgreind í lögum. Þessi atriði ættu kannski alfarið heima í gjaldskrá, sem er háð ákvæðum reglugerða.
Um 9. gr.: Hér er fjallað um tekjumörk dreifiveitna og hvernig þau verði ákveðin, undir virku eftirliti Orkustofnunar. Sjá lið 2 í almennum athugasemdum hér að framan.
     Um 10. gr.: Hér er fjallað um gjaldskrá vegna þjónustu dreifiveitna og hvernig hún verði ákveðin í samræmi við tekjumörk, einnig undir virku eftirliti Orkustofnunar. Sjá umfjöllun um gjaldskrá flutningsfyrirtækis í athugasemdum við 7. gr. hér að framan.
Um 11. gr.: Með þessari grein er gerður greinarmunur á “18. gr. Leyfi til að stunda raforku­viðskipti” og “18. gr a. Leyfi til að reka raforkumarkað”. Ekki er nema gott um það að segja. Neytendasamtökin hafa þó áhuga á að þetta fyrirkomulag verði einungis tekið upp ef það leiðir til aukinnar hagræðingar og virkrar samkeppni á raforkumarkaði og þar af leiðandi sanngjarns raforkuverðs. Þetta fyrirkomulag hefur reynst ágætlega sums staðar erlendis, í krafti stórra raforkumarkaða með samtengingu raforkukerfa. Neytendasamtökin eru enn ekki sannfærð um að sú verði raunin í fámenninu hér á landi, einkum í ljósi einangrunar orkukerfisins, sem í dag er án tenginga við raforkukerfi annarra landa. Ekki er fyrirsjáanlegt að sæstrengur verði að raunveruleika fyrr en í fyrsta lagi eftir 10-20 ár. Lögð er áhersla á að kostnaður við rekstur raforkumarkaðar megi alls ekki verða til þess að raforkuverð hækki. Helsta leið rekstraraðila raforkukerfisins, ef illa tekst til, er að velta auknum kostnaði yfir á almennan markað. Neytendasamtökin munu leitast við að koma í veg fyrir það.

Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við fyrirliggjandi frumvarp.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er