Frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum

Miðvikudagur, 12. maí 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 12. maí 2010

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum nr. 44/2005, 572. mál.

Neytendasamtökin telja mjög til bóta að Samkeppniseftirlitinu séu veittar rýmri heimildir en stofnunin hefur í dag til þess að grípa inn í aðstæður á markaði sem telja má að séu óeðlilegar og geti haft neikvæð áhrif á hagsmuni neytenda. Það ákvæði frumvarpsins sem snýr helst að hagmunum neytenda er að finna í b-lið 2. gr. frumvarpsins.
Með b-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Samkeppniseftirlitið fái heimild til þess að grípa inn í aðstæður á markaði sem geta hamlað virkri samkeppni. Þannig verður Samkeppniseftirlitinu heimilt að grípa til aðgerða gagnvart fyrirtækjum á markaði án þess að fyrirtækin hafi gerst brotleg við bannreglur laganna. Einungis er nauðsynlegt að til staðar séu aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni. Í ljósi lítils markaðar á Íslandi má almennt ætla að á mörgum sviðum markaðarins ríki töluverð fákeppni sem er neytendum í óhag. Þannig getur t.d. verið um að ræða samruna fyrirtækja á annars litlu og afmörkuðu sviði sem hugsanlega myndi ekki falla undir tilkynningarskyldu 17. gr. a. samkeppnislaga nr. 44/2005. Einnig getur verið um að ræða þegjandi samráð fyrirtækja eins og tekið er fram í athugasemdum við frumvarpið, sem annars eru með háttsemi sinni ekki að brjóta bannreglur laganna.

Það er ljóst að þessi heimild er matskennd og gerir þær kröfur til Samkeppniseftirlitsins að markaður sé rannsakaður rækilega áður en gripið er til aðgerða gagnvart einstökum fyrirtækjum. Að þessu virtu verður hins vegar að telja að þessi aukna heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar þar sem aðstæður kunna að vera þannig að hagsmunir neytenda séu ekki ofarlega á baugi í rekstri fyrirtækja á markaði, sé til þess að auka virka og raunverulega samkeppni sem aftur kemur neytendum til góða í vonandi bættri þjónustu og lægra vöruverði.

Að þessu virtu styðja Neytendasamtökin þetta frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóðin á frumvarpið er