Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki

Föstudagur, 27. mars 2015

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 24. mars 2015.

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum (starfsleyfi, áhættustýring, stórar áhættuskuldbindingar, starfskjör, eignarhlutir, eiginfjáraukar o.fl.), 571. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Leyfisskyld starfsemi: Ekki verður séð að með ofangreindu frumvarpi sé fyrirhugað að gera breytingar á núgildandi 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í því ákvæði kemur fram að veiting útlána sé leyfisskyld sé hún fjármögnuð með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenning. Þetta orðalag veldur því að svokölluð smálánafyrirtæki eru ekki leyfisskyld né lúta eftirliti á grundvelli laganna. Hins vegar fellur starfsemi þeirra nú undir lög um neytendalán, nr. 33/2013. Þessi fyrirtæki eiga sér fáa formælendur en þrátt fyrir góðan vilja, og útvíkkað gildissvið nýrra laga um neytendalán, hefur lítt gengið að koma böndum á starfsemi þeirra. Hér má einnig nefna fyrirtækið Framtíðina, sem býður upp á „námslán“, en mun ekki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Því er að mati samtakanna æskilegt að skoðað verði hvort ekki sé rétt að þessi fyrirtæki lúti jafnframt eftirliti Fjármálaeftirlitsins á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Þá er rétt að hafa í huga að þróun í lánamálum hefur verið hröð, sbr. t.a.m. smálánafyrirtæki og svokallað netgíró, og væri því eðlilegt að eftirlit á grundvelli laganna nái til sem flestra fjármálafyrirtækja, enda má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram.

Sé ætlunin að bæta eftirlit með fjármálastarfsemi telja samtökin einnig æskilegt að bætt sé við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 kafla um eftirlit og viðurlög. Í umsögn sinni um mál 561 benda samtökin á að í upphaflegum drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um Seðlabanka Íslands og lögum um neytendalán, hafi verið gert ráð fyrir slíku eftirliti. Í umsögn samtakanna, en rétt þykir að ítreka þetta atriði hér, segir m.a.: „Í áðurgreindum drögum var að finna töluverðar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu hvað varðaði ákvæði um eftirlit, viðurlög og málsmeðferð. Var þar m.a. gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hefði eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar skv. 1. mgr. 2. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi færu að ákvæðum laganna, en samkvæmt núgildandi lögum um vexti og verðtryggingu er engu sérstöku stjórnvaldi falið eftirlit með þeim, og því verður að telja að það séu aðeins dómstólar sem hafa það með höndum. Neytendasamtökin töldu þessa tillögu mjög til bóta, enda æskilegt að slíkt eftirlit sé til staðar, en í frumvarpinu virðist þó hafa verið fallið frá þessum tillögum. Er hér með hvatt til þess að þetta atriði verði tekið til endurskoðunar.“

Breytileg starfskjör: Í 26. gr. frumvarpsins er fjallað um breytileg starfskjör starfsmanna fjármálafyrirtækja, eða það sem í daglegu tali er kallað kaupaukar eða bónusar. Er gert ráð fyrir að hámarkshlutfall breytilegra starfskjara, þ.e. 25%, nái aðeins til þeirra starfsmanna sem teljast hafa veruleg áhrif á áhættusnið fjármálafyrirtækis. Má því gera ráð fyrir, verði frumvarpið óbreytt að lögum hvað þetta varðar, að hámarkshlutfallið nái aðeins til yfirstjórnar og lykilstarfsmanna. Það er að mati samtakanna vissulega jákvætt, og hefur væntanlega áhrif í þá veru að draga úr áhættusækni, að takmarka kaupaukagreiðslur til slíkra starfsmanna. Hins vegar verður ekki séð að mögulegar bónusgreiðslur til þeirra starfsmanna sem neytendur eiga samskipti við, þ.e. fyrst og fremst þjónustufulltrúa, séu takmarkaðar með samsvarandi hætti. Neytendasamtökin telja afar hæpið eigi þjónustufulltrúar, sem alla jafna sjá einnig um fjármálaráðgjöf til almennings, afkomu sína jafnvel undir því að þeim takist að selja tilteknar fjármálaafurðir fyrirtækisins til viðskiptavina og að slíkt geti ekki samrýmst markmiði um hlutlausa fjármálaráðgjöf, enda nógu erfitt að bera traust til fjármálaráðgjafar sem veitt er af starfsmanni fjármálafyrirtækis án þess að sérstakar bónusgreiðslur komi til. Hvetja samtökin því til þess að þak verði ekki aðeins á bónusgreiðslum til lykilstarfsmanna, heldur allra starfsmanna fjármálafyrirtækja, enda eru vandséð málefnaleg rök fyrir því að bónusgreiðslur slíkra starfsmanna eigi að vera svo almennar sem tíðkaðist hér áður fyrr, og hvort ekki sé æskilegra með tilliti til gæða þjónustu og hlutlægni, að slíkir starfsmenn vinni fyrst og fremst fyrir föstum launum.

Að svo stöddu gera samtökin ekki frekari athugasemdir við einstök atriði ofangreinds frumvarps.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: http://althingi.is/altext/144/s/0990.html