Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (endurgreiðsla lána og niðurfelling)

Fimmtudagur, 27. nóvember 2014

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd 
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 27. nóvember 2014

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna með síðari breytingum (endurgreiðsla lána og niðurfelling), 31. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um 1. gr.: Á þingi Neytendasamtakanna hinn 27. september sl. var samþykkt tillaga um að ábyrgðir vegna eldri námslána verði felldar niður, enda sé það í samræmi við núgildandi stefnu Lánasjóðs íslenskra námsmanna að krefjast aðeins í undantekningatilfellum ábyrgðarmanns vegna nýrra lána. Samtökin lýsa sig því samþykk því að ábyrgðir falli almennt niður við 67 ára aldur eða fráfall ábyrgðarmanns en telja rétt að ganga enn lengra og fella úr gildi allar núgildandi ábyrgðir eldri námslána. Þá er rétt að benda á að í lokamálslið greinarinnar segir m.a.: „falla niður þau lán sem hann hefur gengist í ábyrgð fyrir“, en þarna er væntanlega átt við brottfalla ábyrgða en ekki lána sem slíkra.

Um 2. gr.: Hvað varðar 2. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að námslán geti fallið niður, í heild eða að hluta, vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara, og að námslán skuli almennt falla niður er skuldari nær 67 ára aldri þá er það mat samtakanna að þetta ákvæði þurfi frekari skoðunar við. Neytendasamtökin eru afar hlynnt því að tekið sé tillit til aðstæðna skuldara, svo sem örorku eða heilsubrests, sem skerði möguleika hans á endurgreiðslu, og eru því fylgjandi því að slíkar reglur verði teknar upp hér á landi. Hins vegar telja samtökin jafnframt rétt að eftir 67 ára aldur fari fram persónubundið mat á högum skuldara, og að ekki sé rétt að námslán falli fortakslaust niður við það tímamark, heldur þurfi að meta fjárhagslegar aðstæður hvers og eins. Þannig teldu samtökin æskilegra, sér í lagi þar sem um nokkurn kostnað fyrir ríkissjóð getur orðið að ræða, að heimilt verði, en ekki skylt, að fella lán niður við 67 ára aldur, og verði þá fyrst og fremst farið eftir því hvaða tekjur viðkomandi hafi sér til framfærslu eftir að taka lífeyris hefst, en ekki t.a.m. því hvenær lán var tekið.

Með ofangreindum fyrirvörum styðja Neytendasamtökin ofangreint frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0031.html.