Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýringu

Þriðjudagur, 3. maí 2016

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík 3. maí 2016

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar (hámarksgreiðslur sjúkratryggðra og þjónustustýringu), 676. mál.

Neytendasamtökin gera athugasemd við að hafa ekki fengið ofangreint frumvarp sent sérstaklega til umsagnar, en í ljósi þess að greiðsluþátttaka í heilbrigðisþjónustu er neytendamál gera samtökin eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

Almennar athugasemdir:

Rétt er að fagna því í sjálfu sér að í frumvarpinu eru ákvæði um hámarksþak á greiðslur einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu. Þá er gert ráð fyrir að nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu sé nokkuð víðtækt og nái t.a.m. til komu og endurkomu á göngudeild sjúkrahúsa vegna þjónustu annarra en lækna, komu til sérfræðilækna bæði utan og innan sjúkrahúss, rannsókna á rannsóknastofu, geisla- og myndgreiningar, beinþéttnimælingar og kostnað vegna þjálfunar hjá talmeinafræðingum, sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfurum, sem í sjálfu sér er jákvætt. Hins vegar er það sérstakt áhyggjuefni að þjónusta sálfræðinga er ekki hluti af nýja greiðsluþátttökukerfinu og lyfjakostnaður er einnig utan við þetta nýja kerfi.

Neytendasamtökin lýsa áhyggjum sínum af því að hið nýja kerfi sem lagt er til með frumvarpinu er millifærslukerfi, þ.e. ekki er sett meira fé inn í kerfið til að lækka hámarksþökin, heldur er gert ráð fyrir að kostnaður sé fluttur milli sjúklinga þannig að greiðslur standa í stað eða hækka hjá um 80% notenda en lækka hjá um 20% notenda. Það er þannig algerlega óásættanlegt að um 37.000 lífeyrisþegar (aldraðir og öryrkjar) komi til með að greiða 500 milljónum kr. meira fyrir heilbrigðisþjónustu en áður. Þá er sá hópur sem mun þurfa að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en áður mun stærri en sá sem mun greiða minna, en gert er ráð fyrir að heilbrigðiskostnaður 122.000 sjúkratryggðra einstaklinga muni hækka.

Neytendasamtökin geta ekki fallist á að nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu leiði til þess að fleiri og fleiri standi frammi fyrir auknum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Samtökin fagna því í sjálfu sér að sett sé hámarksþak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðiskostnaðar, en telja það hámarksþak hins vegar of hátt.

Um tilvísunarkerfi eða „þjónustustýringu“: Neytendasamtökin telja að tilvísunarkerfi á borð við það sem lagt er til í frumvarpinu geti, að óbreyttu, leitt til þess að neytendum heilbrigðisþjónustu sé mismunað eftir efnahag. Sé miðað við fréttaflutning undanfarið getur biðtími eftir tíma hjá lækni á heilsugæslustöð verið nokkuð langur, eða allt upp í nokkrar vikur, og verður því að telja að heilsugæslukerfið sé, hvað varðar fjármagn og mannafla, ekki í stakk búið til að fást við aukin verkefni. Eigi svo að „refsa“ sjúklingum með hærra gjaldi sæki þeir þjónustu sérfræðings án tilvísunar getur það hæglega leitt til þess að þeir efnaminni þurfi að bíða tvöfalt á við þá efnameiri, þ.e. fyrst eftir tíma og tilvísun frá heilsugæslustöð og svo eftir tíma hjá sérfræðingi, en bið eftir slíkum tímum getur verið ærin. Telja má að aukin bið geti í mörgum tilvikum haft skaðleg áhrif á heilsu sjúklinga, en gera má ráð fyrir að þeir efnameiri panti sér tíma beint hjá sérfræðingi, óháð refsigjaldi, telji þeir tilefnið brýnt. Í þessu samhengi er rétt að árétta að rannsóknir hafa leitt í ljós að um helmingur lífeyrisþega (aldraðra og öryrkja) og þriðjungur notenda heilbrigðisþjónustu á aldrinum 18-66 ára hafa frestað eða hætt við læknisheimsókn vegna kostnaðar. Sjái þessi hópur fram á að þurfa að greiða sérstakt refsigjald, leiti þeir beint til sérfræðings, verður að telja að í mörgum tilvikum verði hættulega löng bið eftir þjónustunni, ákveði viðkomandi á annað borð að leita sér aðstoðar.

Um hámarkskostnað við kaup á heilbrigðisþjónustu: Að mati Neytendasamtakanna er það réttlætismál að miða greiðslutímabil í heilbrigðisþjónustu við 12 mánuði en ekki við almanaksárið eins og gert er í núverandi kerfi. Að mati samtakanna er hámarksþak á kostnað einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu einnig of hátt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hámarksþakið verði um 95.200 kr. fyrir einstaklinga á aldrinum 18-66 ára og um 64.000 krónur fyrir aðra (lífeyrisþega, börn og öryrkja). Í dag miðast núverandi afsláttarmörk á heilbrigðisþjónustu við 35.200 kr., 8.900 kr. fyrir aldraða og öryrkja og 10.700 kr. fyrir börn. Þá er áréttað að ekki er gert ráð fyrir að lyfjakostnaður sé talinn með en hámarkskostnaður einstaklings vegna kaupa á lyfjum sem falla undir greiðsluþátttöku er um 62.000 kr. og 41.000 kr. hjá lífeyrisþegum (öldruðum og öryrkjum). Einstaklingar á aldrinum 18-66 ára sem koma til með að borga hámarksþak bæði fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf gætu því þurft að greiða 157.000 kr. og aðrir (börn, aldraðir og öryrkjar) gætu þurft að greiða 105.000 kr. á ári. Að mati samtakanna er hér um of háar upphæðir að ræða.

Samkvæmt öllu framansögðu geta samtökin því ekki stutt ofangreint frumvarp að óbreyttu. Beðist er velvirðingar á að umsögn þessi er send eftir lok umsagnarfrests en það stafar af því að samtökin fengu, eins og áður segir, umrætt frumvarp ekki sent sérstaklega til umsagnar.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður

 

Sjá má frumvarpið á þessari slóð: http://www.althingi.is/altext/145/s/1104.html.