Frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi

Föstudagur, 17. mars 2017

Nefndasvið Alþingis
Umhverfis- og samgöngunefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

 

Reykjavík 24. febrúar 2017

 

Umsögn Neytendasamtakanna og Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (ECC) um frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, 128.mál.

 

Ferðaiðnaðurinn á Íslandi fer sífellt stækkandi og á hverju ári kemur mikill fjöldi ferðamanna til landsins. Stór hluti ferðamanna ferðast um landið með ýmsum farþegaflutningum og mikilvægt er að til staðar séu greinargóðar og skýrar reglur um réttindi og skyldur aðila á þessum markaði. Neytendasamtökin fagna því að til standi að innleiða reglur um réttindi farþega í reglubundnum farþegaflutningum.

 

Að því sögðu gera Neytendasamtökin og ECC þó eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

 

Í 20. gr. frumvarpsins er m.a. kveðið á um réttindi farþega þegar aflýsta þarf ferð eða henni seinkar um meira en 120 mínútur. Þar kemur fram í a- og b-lið að farþegi eigi rétt á að velja milli þess að fá að halda ferðinni áfram, fá akstursleið breytt, eða þá að fá andvirði farmiðans endurgreiddan og endurgjaldslaust far til baka til fyrsta brottfararstaðar. Í athugasemdum með umræddu ákvæði er vísað til þess að ákvæðið megi rekja til ákvæða IV. kafla reglugerðar (ESB) nr. 181/2011 (hér eftir reglugerð) er varðar réttindi farþega þegar ferð er aflýst eða henni seinkar, en sambærileg ákvæði má finna í 19. gr. reglugerðarinnar. Hvergi virðist þó tekið fram þau réttindi sem fram koma í 21. gr. reglugerðarinnar sem kveður á um rétt farþega til aðstoðar þegar um er að ræða ferð sem varir lengur en 3 klukkustundir og er aflýst eða seinkar um meira en 90 mínútur. Í 21. gr. reglugerðarinnar kemur fram að í slíkum tilvikum þá eigi farþegar rétt á endurgjaldslausum hressingum og máltíðum í samræmi við lengd tafarinnar, sbr. a-lið 21. gr. reglugerðarinnar. Jafnframt er þar kveðið á um í b-lið sömu greinar að farþegar eigi rétt á endurgjaldslausri gistingu og flutningi á milli gististaðar og miðstöðvar, eða biðstöðvar. Að mati Neytendasamtakanna og ECC ætti ákvæði 21. gr. reglugerðarinnar jafnframt að koma fram í lagafrumvarpinu.

Mikilvægt er að tryggja að farþegar fái upplýsingar um réttindi sín í samræmi við 25. gr. reglugerðarinnar. Þar er m.a. kveðið á um að flytjandi skuli tryggja að farþegar fái upplýsingar um réttindi sín, en gert er ráð fyrir að þær upplýsingar eigi að vera til staðar á miðstöðvum og á internetinu þegar við á. Þar skuli m.a. koma fram tengslaupplýsingar fyrir viðkomandi eftirlitsstjórnvald. Að mati Neytendasamtakanna og ECC ætti slík skylda á flytjanda að koma fram í frumvarpinu og/eða í reglugerð ráðherra.

Í 18. gr. frumvarpsins er kveðið á um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra einstaklinga, en jafnframt er vísað til þess að ráðherra kveði í reglugerð nánar á um skyldur flutningsaðila og réttindi farþega. Mikilvægt er að tryggður sé réttur fatlaðra og hreyfihamlaða, líkt og kveðið er á um í III. kafla reglugerðarinnar.

Í 8. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skyldu flutningsaðila til að aðstoða farþega þegar slys verða í tengslum við notkun á farartæki sem notað er við farþegaflutninga í atvinnuskyni. Slík aðstoð getur m.a. falið í sér gistingu, máltíðir og fatnað. Ekkert virðist koma fram í frumvarpinu um þessa skyldu flutningsaðila, en eðlilegt væri að kveðið væri á um þá skyldu í lagafrumvarpinu eða reglugerð sem ráðherra setur.

 

Að öðru leyti gera Neytendasamtökin og ECC ekki athugasemdir að svo stöddu.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna og Evrópsku neytendaaðstoðarinnar                                                  

Ólafur Arnarson
Formaður Neytendasamtakanna          

Ívar Halldórsson
Stjórnandi ECC á Íslandi              

 

Frumvarpið má finna hér.