Frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla.

Föstudagur, 2. september 2016

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd                                                                                                                
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

 

Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um félagasamtök til almannaheilla, 779. mál.

 

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

Um 8. gr. frumvarpsins: Eins og gefur að skilja geta félagasamtök verið mismunandi í eðli sínu og sú starfsemi sem þar fer fram verið margvísleg. Af þeim sökum er nauðsynlegt að ekki sé of þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að reglum um inngöngu félagsmanna að viðkomandi félagi. Þannig getur verið eðlilegt í vissum tilfellum að stjórn félags meðhöndli hverju sinni þær inngöngubeiðnir sem berast og þá sérstaklega ef félag er sérhæft í sinni starfsemi. Hins vegar hafa mörg félagasamtök starfsemi sem gengur allt árið um kring og reka til þess skrifstofu. Þannig verður að telja eðlilegt að lögin heimili þeim sem sækja um inngöngu til félaga að geta gert það til starfsmanna viðkomandi félags, fremur en eingöngu til stjórnar. Eins og gefur að skilja fundar stjórn félaga með mismunandi löngu millibili og verður því að telja farsælt að starfsfólk félagasamtaka geti tekið við skráningu félagsmanna þegar um er að ræða félög sem eru opin öllum. Þetta ætti að koma í veg fyrir óþarfa tafir við skráningu félagsmanna í þeim tilfellum þegar ljóst er að inngangan verði heimiluð.       
            Að sjálfsögðu eru þó ákveðin félög þess eðlis að eðlilegt sé að stjórn taki afstöðu til inngöngubeiðni, en það væri þá hægt að mæla fyrir um það í frumvarpinu að þeir sem óski eftir inngöngu þurfi að sækja um þátttöku til stjórnar nema um annað sé kveðið á um í samþykktum félagsins. Þannig geta félögin sjálf ákveðið að til dæmis starfsfólk viðkomandi félaga megi taka við inngöngubeiðnum, en ekki einungis að þau megi taka ákvörðun um þátttökuna sé ekki annað ákveðið í samþykktum - eins og mælt er fyrir um í greininni.

 

Um 21. gr. frumvarpsins: Í greininni kemur fram að hver þátttakandi hafi atkvæðisrétt sem nemur einu atkvæði, sé ekki annað tekið fram í samþykktum. Telja verður eðlilegt og lýðræðislegt að hver og einn njóti einungis atkvæðisréttar fyrir sig, þ.e. atkvæðisrétt sem nemur einu atkvæði. Vandséð er hvernig það getur talist eðlilegt að samþykktir félaga kveði á um að ákveðnir aðilar hafi meiri atkvæðisrétt en sem þessu nemur. Því er sett spurningarmerki við efni greinarinnar hvað þetta varðar, í ljósi þess að um félagasamtök til almannaheilla sem eru þá rekin án hagnaðarsjónarmiða fyrir einstaklinga er að ræða. Í athugasemdum með greininni kemur jafnframt fram að það sé einkennandi fyrir slík félagaform að aðilar njóti einungis atkvæðisréttar sem nemur einu atkvæði. Af þeim sökum verður ekki séð hvers vegna heimila ætti slíkum félögum að breyta út frá því með samþykktum sínum.

 

Um 29. gr. frumvarpsins: Neytendasamtökin gera alvarlegar athugasemdir við það efni greinarinnar er snýr að kosningu formanns, sbr. 1. málsl. 4. mgr. 29. gr. frumvarpsins. Samkvæmt greininni stendur til að lögfesta þá framkvæmd að stjórn félags kjósi sér formann, en þetta er í andstöðu við þá framkvæmd sem hefur verið við lýði hjá mörgum félagasamtökum hér á landi og þar á meðal eru Neytendasamtökin. Telja samtökin mun eðlilegra að formaður sé kjörinn af félagsmönnum viðkomandi félags á aðalfundi félagsins sem haldinn er samkvæmt ákvörðun í samþykktum þess. Þannig geta allir félagsmenn sem hafa vilja og áhuga á því kosið sér formann, en það sé þá ekki á færi fárra einstaklinga að taka svo stóra ákvörðun fyrir hönd allra félagsmanna. Það verður því að telja skynsamlegt að efni greinarinnar sé breytt á þann veg að um kjör formanns fari eftir samþykktum viðkomandi félags, fremur en að lögfesta þessa framkvæmd án heimildar til undantekninga.    
            Þá verða samtökin einnig að vekja athygli á 3. málsl. 4. mgr. 29. gr. frumvarpsins og gagnrýna hana. Af greininni leiðir að þeir einstaklingar sem hafa verið teknir til gjaldþrotaskipta megi ekki sitja í stjórn félags fyrr en þeir hafa aftur orðið fjár síns ráðandi. Það er hægt að fallast á að þessi regla sé eðlileg í vissum tilfellum en í mörgum tilfellum geta aðilar setið í stjórn félagasamtaka án þess að það snerti þeirra persónulegu fjármál að nokkru leyti. Þannig verður að telja félagasamtökin sjálf geta ákveðið það fyrir sig, hverju sinni, hvort efni sé til þess að takmarka aðgengi einstaklinga í gjaldþrotameðferð að stjórnarsetu. Er því lagt til að bætt verði við efni greinarinnar þeim fyrirvara að reglan gildi nema annað sé ákveðið í samþykktum viðkomandi félags, eins og kemur fram í mörgum öðrum greinum frumvarpsins.

Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins.

 

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna

  Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur.

 

Frumvarpið má finna hér.