Frumvarp til laga um fjölmiðla

Fimmtudagur, 8. apríl 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 6. apríl 2010

Efni: Athugasemdir Neytendatakanna við frumvarp til laga um fjölmiðla, 423. mál.

            Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp.

            Um 12. tl. 2. gr. Fjarsala.
            Í 6. tl. 2. gr. laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga nr. 46/2000 er að finna mun víðtækari skilgreiningu á hugtakinu fjarsölu. Telja Neytendasamtökin það valda hættu á ruglingi ef í lögum um fjölmiðla er sett fram þrengri skilgreining og telja nauðsynlegt að gæta samræmis milli lagabálka.

            Um 39. tl. 2. gr. Viðskiptaorðsending

            Með skilgreiningu á hugtakinu viðskiptaorðsendingu virðist ætlunin vera sú að skapa nýtt yfirhugtak yfir það sem hingað til hefur gengið undir nafninu auglýsing. Neytendasamtökin telja ákveðna hættu á að þetta skapi rugling, enda hefur hugtakið viðskiptaorðsending væntanlega þrengri merkingu samkvæmt almennum málskilningi en auglýsing. Samkvæmt skilgreiningu á auglýsingu í 2. tl. 2. gr. frumvarpsins má jafnframt ráða að hugtakið hafi þar þrengri merkingu en það hefur nú skv. lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, og er jafnframt hætta á að það valdi ruglingi. Samtökin telja afar jákvætt að leitast skuli vera við að skilgreina hugtak á borð við auglýsingar, en telja þó skilgreiningar frumvarpsins, þar sem einhvers konar auglýsingar eru skilgreindar í a.m.k. tíu töluliðum (2., 6., 12., 20., 22., 26., 37., 38., 39., 41.) 2. gr. heldur flóknar. Má geta þess að í núgildandi útvarpslögum er einungis að finna skilgreiningar á auglýsingu, dulinni auglýsingu, kostun og fjarsölu. Fallast má á að ekki sé vanþörf á að skilgreina auglýsingar betur en nú er gert en samtökin telja brýnt að gætt sé samræmis við aðra lagabálka við þá skilgreiningu og jafnframt telja samtökin auglýsingu heppilegra yfirhugtak, og í betra samræmi við almennan málskilning, en viðskiptaorðsendingu.

            Um 28. gr. Vernd barna gegn skaðlegu efni.

Í 1. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 50/2002, sem sett var með stoð í núgildandi útvarpslögum er að finna svohljóðandi reglu: Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út dagskrárefni, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi dagskrárefni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi, á þeim dagskrártíma sem hætta er á að börn sjái viðkomandi efni eða fyrir kl. 23.

Í a-lið 2. mgr. 28. gr. frumvarpsins er hins vegar kveðið á um að frá kl. 21:00 á kvöldin á virkum dögum en 22:00 um helgar og til 05:00 á morgnana megi, að uppfylltum skilyrðum um viðvörunarmerki og skýra viðvörun fyrir sýningu, miðla efni sem ekki er talið við hæfi barna. 

Neytendasamtökin telja ófært ef í nýju frumvarpi felst í raun lakari vernd til handa börnum en þeim er veitt samkvæmt núgildandi reglum. Telja samtökin það ekki skipta sköpum að í núgildandi reglum er talað um „alvarleg skaðvænleg áhrif“ en í frumvarpinu einungis um „skaðvænleg áhrif“, enda er matið á því hvað hugsanlega er til þess fallið að hafa alvarleg skaðvænleg áhrif, en ekki bara skaðvænleg áhrif, á þroska barna afar flókið og væntanlega ekki á allra færi. Að mati samtakanna má því gera ráð fyrir að mjög örðugt verði að greina milli þess efnis sem fallið getur undir undanþáguákvæði a-liðar, og þess efnis sem fellur undir ákvæði 3. mgr. 28. gr.

Hins vegar gera samtökin sér grein fyrir því að nokkur vandkvæði hafa verið á því að framfylgja núgildandi reglum um vernd barna að þessu leyti. Helgast það að mati samtakanna, meðal annars af því hversu lítið er um skilgreiningar á þessu sviði. Þannig er fremur óljóst hvað felst í „tilgangslausu ofbeldi“, þ.e. í hvaða tilvikum sýning ofbeldis hefur skýran tilgang. Telja samtökin skorta nokkuð á nánari skýringar á ýmsum hugtökum er fram koma í greininni, annaðhvort í lagatextanum sjálfum eða í athugasemdum við ákvæðið. Til þess að ákvæðið nái tilgangi sínum og hægt sé að starfa eftir því eru nánari skýringar nauðsynlegar. Eins og er má hins vegar telja nokkuð óljóst hvað felst í hugtakinu „ekki við hæfi barna“ í tilvitnaðri grein frumvarpsins.

Þá er jafnframt nokkurt ósamræmi milli lagalegrar skilgreiningar á hugtakinu „barn“ (fram að 18 ára) og þeirra aldurstakmarka sem sett eru t.a.m. á sýningar kvikmyndahúsanna (7, 12 og 16 ára). Þá telja samtökin vel koma til álita að flokka nánar, og á skýrari hátt, efni sem ekki telst við hæfi barna. Börn eru afar breiður hópur og telja má mikinn mun á því að sýna gamanmynd sem e.t.v. hefur í kvikmyndahúsi verið bönnuð innan tólf ára aldurs, eða grófa ofbeldismynd með klámfengnum senum, kl. 21:00. Í báðum tilvikum er þó hætt við að börn séu við sjónvarpið, en í fyrra dæminu má e.t.v. ætla að skaðvænleg áhrif á þroska þeirra séu ekki stórvægileg.

Samtökin fagna því að setja skuli skýrar reglur um vernd barna gegn skaðlegu efni, og jafnframt því að sett skuli skýr tímamörk í lögum, en telja að kl. 21:00, þegar mjög líklegt er að börn séu við sjónvarpið, sé of snemmt að sýna myndefni sem felur í sér klám og/eða tilefnislaust ofbeldi og haft getur skaðvænleg áhrif á þroska barna, óháð því hvort viðvörun er gefin.

Eftirlit

Neytendasamtökin hafa oftsinnis vakið athygli á því að í mörgum tilvikum er óljóst hvar eftirlitsskyldur og valdmörk einstakra stofnana skarast. Má hér minnast á eftirlit með fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum, en óljóst getur verið hvaða þættir þeirrar starfsemi heyra undir eftirlit Neytendastofu og hverjir undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Er þetta að mati samtakanna afar bagalegt þar sem erfitt er fyrir neytendur og aðra að átta sig á því hvert á að snúa sér með kvartanir og ábendingar.
Er það mat samtakanna að verði þetta frumvarp óbreytt að lögum geti það valdið ákveðnum ruglingi varðandi það hvar eftirlit stjórnvalda með auglýsingum liggi. Í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins segir að erindum vegna ætlaðra brota á ákvæðum laganna skuli beint til Fjölmiðlastofu.

           Í 37. gr. frumvarpsins er að finna ákveðnar meginreglur um auglýsingar (nefndar viðskiptaorðsendingar í greininni, en telja má skv. framansögðu að átt sé við það sem í núgildandi lögum gengur undir heitinu auglýsing), m.a. hvernig þær skulu ekki úr garði gerðar. Samkvæmt framansögðu er gert ráð fyrir að eftirlit með þeirri grein sé í höndum Fjölmiðlastofu. Í 6. gr. laga nr. 57/2005, sem Neytendastofa hefur eftirlit með er svo að finna aðrar efnisreglur um auglýsingar. Hlýtur það að valda ákveðinni óvissu í lagaframkvæmd að hafa efnisreglur um gerð og innihald auglýsinga í tveimur lagabálkum sem tveimur stofnunum er ætlað eftirlit með. Sama á í raun við, að breyttu breytanda, hvað varðar skörun 38. gr. frumvarpsins um vernd barna gegn ótilhlýðilegum viðskiptaorðsendingum og fjarsölu við 7. gr. laga nr. 57/2005 sem einnig fjallar um vernd barna gegn ótilhlýðilegum auglýsingum.

Í athugasemdum við 37. og 38. gr. frumvarpsins kemur fram að um skörun milli laga um fjölmiðla og áðurnefndra laga nr. 57/2005, sem Neytendastofu er falið eftirlit með, geti orðið að ræða. Jafnframt er þar tekið fram að gera megi ráð fyrir að þessi tvö stjórnvöld þurfi að hafa með sér samráð þegar kemur að eftirliti með auglýsingum. Samstarf milli stjórnvalda er vitaskuld af hinu góða, en Neytendasamtökin telja það þó afar bagalegt ef neytendur vita ekki hvert þeim er rétt að leita með erindi og kvartanir.

Er það því mat Neytendasamtakanna að skýra þurfi eftirlitsþátt laganna hvað varðar auglýsingar og markaðssetningu betur þannig að það valdi engum vafa hvar eftirlitsskyldurnar liggja.
Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við frumvarpið.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: