Frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl., 315. mál.

Föstudagur, 4. apríl 2014

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. apríl 2014.

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um gjaldskrárlækkanir o.fl., 315. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um I. og II. kafla: Í umræddum köflum er m.a. lögð til lækkun á olíugjaldi, lækkun á vörugjaldi af bensíni og lækkun á sérstöku vörugjaldi af bensíni, bensíngjaldi. Er í raun lagt til að hækkanir á ofangreindum gjöldum sem tóku gildi með gildistöku laga nr. 140/2013 verði að hluta dregnar til baka, þ.e. lækkaðar úr 3% miðað við fyrra ár og í 2%.
Í umsögn sinni við frumvarp það sem varð að lögum nr. 140/2013 lögðust Neytendasamtökin gegn ofangreindum hækkunum og hljóta því að fagna því að þær séu að hluta dregnar til baka.

Um III. kafla: Í umræddum kafla frumvarpsins er lögð til samsvarandi lækkun á kolefnisgjaldi og skatti af raforku. Í umsögn sinni við frumvarp það sem varð að lögum nr. 140/2013 lýstu Neytendasamtökin eftirfarandi afstöðu sinni til laga nr. 129/2009.

„Í III. kafla er kveðið á um breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta nr. 129/2009. Upphaflega var gert ráð fyrir því að þau lög féllu úr gildi í lok árs 2012 en nú virðast þau komin til að vera. Neytendasamtökin lögðust á sínum tíma gegn því að lög nr. 129/2009 væru sett, og ítreka hér með enn og aftur þá afstöðu sína, enda að mati samtakanna hæpið að auka enn við álögur á eldsneyti auk þess sem undarlegt er að mati samtakanna að leggja sérstakan skatt á lífsnauðsynlegar vörur á borð við hita og rafmagn. Þá telja samtökin það sök sér væri innheimtu kolefnisgjaldi og hita- og rafmagnsskatti ætlað að standa á einhvern hátt undir aukinni umhverfisvernd, eða til að bæta fyrir skaða sem kolefnisútblástur hefur í för með sér, en þvert á móti virðist þessi gjaldtaka ekki eyrnamerkt í nein slík verkefni. Neytendasamtökin ítreka því áður framkomin sjónarmið sín varðandi lög nr. 129/2009 og leggjast gegn þeim tillögum sem fram koma í III. kafla frumvarpsins.“

Samtökin ítreka áður framkomna afstöðu sína en hljóta þó að fagna því verði framangreind gjöld lækkuð.

Um IV. kafla.: Hér eru lagðar til lækkanir á áfengis- og tóbaksgjaldi. Neytendasamtökin hafa á undanförnum árum lagst gegn miklum hækkunum á áfengis- og tóbaksgjöldum, en áfengisgjöld hafa hækkað um u.þ.b. 60 -70% frá hausti 2008 eftir því hvort um er að ræða sterk eða létt vín. Neytendasamtökin telja því að um óeðlilega mikla hækkun á einstökum vöruflokki hafi verið að ræða, ekki síst með vísan til þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka hefur á neysluvísitölu og þar með verðtryggð lán.

Neytendasamtökin fagna þ.a.l. því að umrædd gjöld verði lækkuð en lýsa þó áhyggjum af því að umrædd lækkun skili sér illa til neytenda þegar kemur að tóbaki og áfengi á veitinga- og skemmtistöðum.

Að þessu sögðu styðja Neytendasamtökin framangreint frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður