Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu (gjaldtaka)

Þriðjudagur, 5. nóvember 2013

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2013.

Umsögn um frumvarp til laga um greiðsluþjónustu (gjaldtaka), 9. mál.

Þegar greiðslukort ruddu sér rúms á Íslandi á níunda áratugnum gerðu Neytendasamtökin sér mjög vel grein fyrir því að aukinn kostnaður fyrir seljendur fylgdi þessari nýju greiðsluleið. Jafnframt óttuðust samtökin mjög að þessi kostnaður mundi skila sér út í verðlagið og bitna jafnt á þeim sem greiddu með kortum og peningum. Því voru samtökin ötull talsmaður þess að ákveðið afsláttarfyrirkomulag yrði tekið upp, þannig að þeir sem greiddu með peningum fengju vöruna ódýrari en þeir sem greiddu með kortum. Eftir því sem samtökin komast næst er ekkert í skilmálum greiðslukortafyrirtækja, né í lögum nr. 120/2011 sem bannar slíkt afsláttarfyrirkomulag, en af einhverjum ástæðum hefur það ekki náð að ryðja sér til rúms. Núgildandi 3. mgr. 47. gr. laganna bannar þannig bara beina gjaldtöku vegna notkunar eins greiðslumiðils umfram aðra en kveður ekki á um bann við afsláttum. Af einhverjum ástæðum virðast seljendur því tregir til að veita staðgreiðsluafslátt, og víst er að kostnaði vegna greiðslukorta hefur verið velt beint út í verðlagið. Taka má því undir það sjónarmið sem fram kemur hjá flutningsmönnum að neytendur eigi þess engan kost að forðast þennan kostnað. Jafnframt töldu Neytendasamtökin að kortafyrirtæki ættu ekki að innheimta kostnað vegna kortaumsýslu af seljendum, heldur beint af þeim neytendum sem kysu að greiða með kreditkortum. Hæpið er þó að slík tilhögun mundi skila sama árangri í dag þar sem fullyrða má að kostnaðurinn vegna kortaumsýslu sé kominn út í verðlagið og erfitt getur reynst að vinda ofan af því fyrirkomulagi.

Hefði ofangreint frumvarp verið lagt fram fyrir þremur áratugum eða svo er því víst að Neytendasamtökin hefðu stutt það með ráðum og dáð. Úr því sem komið er, og þar sem telja má víst að seljendur séu líklegri til að nýta sér heimildir til gjaldtöku fremur en heimildir til afslátta hafa samtökin þó ákveðnar efasemdir um að sérstök gjaldtaka af þeim neytendum sem greiða með kreditkorti komi til með að leiða til lækkaðs vöruverðs fyrir aðra.

Um tilgang frumvarpsins

Neytendasamtökin taka heils hugar undir það sem fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu; þ.e. að hver prósentulækkun á verðlagi geti skipt heimili og neytendur máli og að mikilvægt sé að draga úr skuldsettri neyslu sem sé allt of mikil hér á landi. Þá fallast samtökin jafnframt á það að verði tekin upp sérstök gjaldtaka vegna greiðslu með kreditkortum muni það verða þeim sem á annað borð eiga þess kost hvati til að greiða með peningum eða debetkortum. Þó er rétt að hafa í huga að hæpið er að allir eigi þess kost. Þeir sem fjármagna neyslu sína að mestu leyti með kreditkortum eru þannig alltaf „mánuði á eftir“ í að greiða neyslu sínaS og séu þeir ekki með þeim mun hærri tekjur er það vítahringur sem erfitt er að rjúfa. Neytendasamtökin óttast því að um auknar álögur á þann hóp verði að ræða.

Þá óttast samtökin jafnframt að það sé nokkur bjartsýni að ætla að seljendur muni draga kostnað vegna kreditkortaumsýslu frá almennu vöruverði og innheimta þann kostnað einungis af þeim sem greiða með kreditkortum. Samtökin telja þannig líklegra að kostnaðinum verði einfaldlega bætt við, og því hæpið að kostnaðurinn sem nú fellur til hverfi úr vöruverði og leiði til lækkunar á vísitölu.

Væri það hins vegar raunin gæti það komið sér afar vel fyrir neytendur, en samtökin telja þó frekari rannsókna þörf á þessu sviði, og t.a.m. að reynsla annarra þjóða sé skoðuð ítarlega áður en gjaldtakan yrði heimiluð.

Eftirlit og verðmerkingar

Lagt er til að 5. mgr. 47. gr. laga um greiðsluþjónustu nr. 120/2011 verði svohljóðandi: Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefja greiðanda um hærra gjald vegna notkunar greiðslumiðils en nemur því gjaldi sem viðtakandi greiðslu greiðir til greiðsluþjónustuveitanda vegna veittrar greiðsluþjónustu. Neytendasamtökin hafa af því nokkrar áhyggjur hvernig eftirliti með þessu ákvæði verði háttað. Gera má ráð fyrir að t.a.m. stórar matvöruverslanakeðjur nái hagkvæmari samningum við færsluhirða en t.a.m. sérverslanir í litlum byggðarlögum. Þar með hlýtur kostnaðurinn við hverja færslu hjá hinum síðarnefndu að vera margfaldur á við kostnaðinn hjá hinum fyrrnefndu. Því gæti orðið örðugt að greina hver raunverulegur kostnaður hvers seljanda vegna einstakrar kortafærslu er. Í athugasemdum með frumvarpinu er sagt að gjaldtakan verði „líklega 1-3% eftir atvikum“. Það er töluverður munur á því hvort gjaldtakan er 1 eða 3% og telja má að sé gjaldtaka mismunandi eftir seljendum torveldi það neytendum að gera verðsamanburð á hlutum sem þeir ætla sér að greiða með kreditkorti. Sé hins vegar gjaldtakan sú sama hjá öllum seljendum getur það haft verri áhrif á minni fyrirtæki en stærri. Neytendasamtökin telja að eftirlit með þessu, þ.e. hvaða kostnað viðtakandi greiðslu ber vegna greiðsluþjónustu og hvernig hann skuli skiptast niður á kaupendur eftir fjölda þeirra, yrði mjög flókið og jafnvel ógerlegt.

Í öllu falli sýnist Neytendasamtökunum hætt við, verði þessi grein samþykkt óbreytt, að umrætt gjald verði óhóflega hátt, þar sem virkt eftirlit er væntanlega torvelt. Telja samtökin því nauðsynlegt að sett verði ákveðið, hóflegt, þak á gjaldtökuna en hún ekki miðuð við kostnað viðtakanda greiðslu.
Jafnframt telja Neytendasamtökin nauðsynlegt, verði frumvarp þetta að lögum, að efla mjög allt eftirlit með verðmerkingum, en í reglum um verðmerkingar nr. 536/2011 er kveðið á um að söluverð, en seljendum ber að merkja allar söluvörur með söluverði, sé endanlegt verð í íslenskum krónum að inniföldum virðisaukaskatti og opinberum gjöldum. Samtökin telja ljóst að verði frumvarp þetta að lögum þurfi að aðlaga reglurnar breyttum aðstæðum, en samtökin gera það að kröfu sinni að skylt verði að merkja vörur þá með tveimur verðum; annars vegar staðgreiðsluverði og hins vegar verði sé greitt með kreditkorti, enda eiga neytendur rétt á upplýsingum um endanlegt söluverð áður en komið er að greiðslukassa. Samtökin ætla að sinni ekki að koma fram með neinar fastmótaðar tillögur, en telja brýnt að verðmerkingar, verði frumvarp þetta að lögum, verði skýrar að þessu leyti, og eftirlit með þeim virkt.

Frá öðrum löndum

Við vinnslu umsagnar þessarar sendi Evrópska neytendaaðstoðin, f.h. Neytendasamtakanna, fyrirspurn á systurskrifstofur sínar í Evrópu um það hvernig þessu væri háttað í öðrum Evrópulöndum. Svör bárust frá Austurríki, Belgíu, Danmörku, Frakklandi, Hollandi, Írlandi, Kýpur, Lettlandi, Litháen, Möltu, Noregi, Portúgal, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni, Svíþjóð, Tékklandi, Ungverjalandi, eða átján löndum innan EES-svæðisins, þar sem tilskipun 2007/64/EB hefur verið innleidd í landsrétt. Fyrirspurn Evrópsku neytendaaðstoðarinnar til systurskrifstofa sinna var þríþætt; þ.e hvort heimilt væri að innheimta aukagjald eða veita aukaafslátt vegna greiðslu með tilteknum greiðslumiðli, hversu há slík gjöld eða afsláttur mættu vera og hvort vitað væri til að gjaldtaka af þessu tagi hefði leitt til lækkaðs vöruverðs fyrir þá sem greiða með peningum eða debetkortum.

Í sjö þessara landa er gjaldtaka (mismunun eftir því hvaða greiðslumiðill er valinn) bönnuð, í níu þeirra er hún heimil og í tveimur heimil upp að vissu marki, eða hvað varðar ákveðna greiðslumiðla (kreditkort). Í fæstum tilvikum virðast því svo hafa verið sett mörk hversu há gjaldtakan megi vera. Í Danmörku getur gjaldið numið 3,75% af vöruverði sé greitt með kreditkorti en mun lægra sé greitt með debetkorti. Þá virðast litlar rannsóknir liggja fyrir um að verðlag hafi almennt lækkað þegar greitt er með peningum eða debetkortum, en tvö lönd tóku sérstaklega fram að eitthvað væri um staðgreiðsluafslætti. Í alla vega einu tilviki sagði svarandinn að í raun væri um það að ræða að neytendur greiddu gjald fyrir að borga með kreditkorti fremur en að afslættir væru veittir til þeirra sem greiddu með öðrum miðlum. Þetta væri svo ósanngjarnt í tilvikum þar sem neytendur hefðu í raun ekki val um að borga með öðrum hætti, eins og við kaup á netinu eða þegar hagsmunir væru það miklir að öruggast væri að greiða með kreditkorti. Af svörunum virðist sem það séu helst þeir sem selja vöru og þjónustu á netinu sem leggja sérstakt gjald ofan á kreditkortafærslur.

Af þessum svörum verður því ekki dregin afdráttarlaus niðurstaða um að það að heimila gjaldtöku vegna einstakra tegunda greiðslumiðla hafi gefist vel.
Neytendasamtökin gera því ofangreinda fyrirvara við umrætt frumvarp og treysta sér, á grundvelli þeirra, því ekki til að taka afdráttarlausa afstöðu með eða á móti samþykkt þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson, formaður
Hildigunnur Hafsteinsdóttir, lögfræðingur