Frumvarp til laga um greiðsluaðlögun

Miðvikudagur, 11. febrúar 2009

 

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 11. febrúar 2009. 

Umsögn um frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., l. nr21/1991 með síðari breytingum, 281. mál.

Neytendasamtökin fagna því mjög að frumvarp til laga um greiðsluaðlögun hafi verið lagt fram á Alþingi, enda um gamalt baráttumál samtakanna að ræða. Að þessu sögðu vilja samtökin þó koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

Neytendasamtökin telja afar mikilvægt, svo lög um greiðsluaðlögun nái tilgangi sínum, að þeim sé skipað í sérstakan lagabálk en ekki felld inn í lög um gjaldþrotaskipti o.fl. Til þess ber að líta að hér er um að ræða löggjöf sem nýtast á almenningi og því mikilvægt að hún sé sem aðgengilegust. Löggjöf um gjaldþrotaskipti er hins vegar afar flókin og óaðgengileg. Er það mat Neytendasamtakanna að ef ákvæðum um greiðsluaðlögun yrði skipað í sérstök lög mundi það einnig leysa úr ýmsum öðrum vanköntum sem samtökin telja vera á frumvarpinu, en helsti annmarki þessa frumvarps, að mati samtakanna, er hve óljós sum skilyrðin og reglurnar eru.

Um a-lið (63. gr. a)
Neytendasamtökin telja þörf á að skýra aðeins nánar sum þeirra hugtaka sem fram koma í greininni varðandi það hverjir geti sótt um greiðsluaðlögun og hvernig fjárhagsleg staða umsækjenda þurfi í raun að vera.
Þá gera samtökin athugasemdir við það skilyrði að atvinnurekstri skuli hafa verið hætt svo einstaklingar eigi rétt á greiðsluaðlögun. Í greinargerðinni er sagt að með þessu ákvæði sé litið til t.d. iðnaðarmanna eða sölumanna, eða einstaklinga sem starfa sem verktakar án þess að um eiginlegan eða viðamikinn rekstur sé að ræða. Slíkir einstaklingar eigi þá rétt á að leita samninga um greiðsluaðlögun hafi atvinnurekstri verið hætt og einungis lítill hluti heildarskulda stafi frá atvinnurekstri. Síðara skilyrðið telja samtökin eðlilegt, enda ýmis önnur úrræði sem bjóðast fyrirtækjum í vanskilum. Hins vegar er það álit samtakanna að skilyrðið um að atvinnurekstri hafi verið hætt leggi of þungar byrðar á ákveðnar stéttir, sem e.t.v. eiga fáa atvinnumöguleika aðra en að vinna sjálfstætt. Það er og ósanngjarnt að heimili þar sem fyrirvinnan (skuldari) vinnur sjálfstætt sem verktaki eigi ekki rétt á að sækja um greiðsluaðlögun vegna skulda heimilisins. Telja samtökin því þetta skilyrði ganga of langt en hins vegar ætti að vera hægt að greina skuldir heimilisins frá skuldum vegna atvinnurekstrar þannig að greiðsluaðlögunin næði aðeins til hinna fyrrnefndu.

Um b-lið (63. gr. b.)
Neytendasamtökin telja þörf á því að nánar komi fram í lagatextanum sjálfum hvaða kröfur geti fallið undir samning um greiðsluaðlögun en varla verður séð að það liggi í augum uppi hvað felst í hugtakinu „samningskröfur“. Eins og áður sagði er hér um að ræða frumvarp til laga sem nýtast eiga almenningi og því mikilvægt að almenningur geti áttað sig á því hvaða kröfur falla að meginstefnu undir greiðsluaðlögunarúrræðið, án þess að þurfa að leita eftir því í ummælum í greinargerð hvaða önnur ákvæði laga um gjaldþrotaskipti geti komið til álita.

Um c-lið (63. gr. c.)
4. tl. 2. mgr.: Hér er kveðið á um að skuldari leggi fram framtíðaráætlun um útgjöld, m.a. með tilliti til afborgana af veðskuldum sem tryggðar eru með veði í fasteign eða öðrum eignum skuldara sem hann hyggst leitast við að eiga áfram. Hvergi í þessum texta, né annars staðar í ákvæðum gjaldþrotalaga svo séð verði í fljótu bragði, er kveðið á um að skuldara beri að selja eitthvað af eignum sínum. Slíkur áskilnaður kemur hins vegar fram í athugasemdum við frumvarpið, þ.e. athugasemdum við 2. tl. 2. mgr. 63. gr. c og 4. tl. 2. mgr. 63. gr. c, en þar kemur fram að við áætlun á útgjöldum skuldara skuli miða við „mannsæmandi en látlausa lifnaðarhætti“. Má því gera ráð fyrir að skuldara verði í raun gert að selja eignir sem ekki er talin þörf fyrir, svo sem dýrar bifreiðar eða óhóflegt íbúðarhúsnæði. Að mati Neytendasamtakanna er hér um mjög mikilvægt efnislegt ákvæði að ræða, sem undirstrikar það að greiðsluaðlögun er hugsuð sem neyðarúrræði, og verður því að telja ófært að þessa sé ekki getið í lagatextanum sjálfum, enda er ekkert í lagatextanum sem gefur til kynna að nánari skýringa þurfi að leita í greinargerð.

5. mgr.: Hér er kveðið á um heimild dómsmálaráðherra til að ákveða með reglugerð að skuldara bjóðist endurgjaldslaus aðstoð við gerð beiðni um greiðsluaðlögun, en þá falli niður réttindi eftir lögum nr. 65/1996 um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Ekki er að finna í greinargerð nánari útlistun á því í hvaða formi sú aðstoð verði eða hverjum verði falið að veita hana. Hér ber að taka tillit til þess að gerð slíkrar beiðni, og beining slíkrar beiðni til héraðsdómstóls, er afar flókið ferli. Þá er ekki að finna í frumvarpinu nána útlistun á því hvað þurfi að felast í slíkri beiðni, né heldur hvert skuli beina henni, heldur þarf að leita víða í löggjöf um gjaldþrotaskipti til glöggvunar á því hvað í slíku felst (t.a.m. 7. gr., 1. mgr. 8. gr., 34. gr., laga um gjaldþrotaskipti). Er því fullljóst að hinn almenni skuldari á í miklum vandkvæðum við að leggja slíka beiðni fram án sérfræðiaðstoðar. Þá ber að líta til þess að lög um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga (l. nr. 65/1996) eru lítið þekkt og hafa úrræði þeirra verið lítið nýtt, enda ferlið við að fá aðstoð samkvæmt lögunum fremur þungt í vöfum. Telja samtökin því mikilvægt að einhverjum aðila, stofnun eða embætti, verði falið að veita skuldurum aðstoð við gerð beiðni af þessu tagi.

Um g-lið (63. gr. g.)
Í 2. mgr. þessa ákvæðis er fjallað um það hvernig umsjónarmaður geti mælt gegn því að greiðsluaðlögun komist á. Hins vegar er ekkert að finna í ákvæðinu um stöðu skuldara komi sú aðstaða upp. Þess er á hinn bóginn getið í greinargerð að skuldaranum sé ekki veitt leið til að leita endurskoðunar á þessari niðurstöðu. Þá kemur ekkert fram um það hvort skuldarinn getur þá aftur leitað til héraðsdóms með beiðni, hvort skilyrði 38. gr. laga um gjaldþrotaskipti eigi þá við, eða hvort hann þarf að leita annarra leiða til að ráða bót á fjárhagsvanda sínum. Hér þarf enn að hafa í huga að um löggjöf er að ræða sem varðar heimilin miklu og mikilvægt er að réttarstaða skuldara samkvæmt lögunum sé skýr. Því telja samtökin nauðsynlegt að fjallað sé nánar um það í lagatextanum hvaða afleiðingar það hafi fyrir skuldara ef umsjónarmaður mælist gegn því að greiðsluaðlögun komist á.

Aðrar athugasemdir
Neytendasamtökin eru þeirrar skoðunar að greiðsluaðlögun hljóti að vera neyðarúrræði þeirra sem ekki ráða við skuldbindingar sínar, og að ganga megi út frá því að almennt vilji fólk greiða skuldir sínar sé þess nokkur kostur. Í ljósi þess telja samtökin eðlilegt að bætt verði við lögin ákvæði þess efnis að endurskoða megi samning um greiðsluaðlögun vænkist hagur skuldara verulega á samningstímabilinu. Með því telja samtökin að jafnræðis verði betur gætt meðal heimila í landinu, en gera má ráð fyrir því, miðað við núverandi efnahagsástand að margir komi til með að sækja um greiðsluaðlögun og að talsverður kostnaður hljótist af því fyrir kröfuhafa, sem væntanlega veltist að einhverju marki yfir á neytendur í heild.

Þá telja Neytendasamtökin þörf á að skýra nánar ýmis tímamörk er gilda skuli um samninga um greiðsluaðlögun. Til dæmis til hve langs tíma slíkir samningar skuli að jafnaði gerðir, hversu oft, og með hvaða millibili megi sækja um greiðsluaðlögun o.s.frv. en allt er þetta fremur óljóst í frumvarpinu.

Að öðru leyti hvetja samtökin til samþykktar þessa frumvarps og vona að lög um greiðsluaðlögun verði að veruleika hið fyrsta.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvapið er: