Frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga

Fimmtudagur, 6. maí 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Félags- og tryggingamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 5. maí 2010

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, 560. mál.

Neytendasamtökin telja mjög til bóta að lögum um greiðsluaðlögun sé skipað í sérstakan lagabálk eins og lagt er til með ofangreindu frumvarpi, en ekki sem kafla í lög um gjaldþrotaskipti eins og nú er sbr. lög nr. 24/2009. Jafnframt er með þessu frumvarpi bætt úr ýmsum annmörkum sem samtökin töldu vera á lögum nr. 24/2009, sbr. umsögn samtakanna dags. 11. febrúar 2009 við frumvarp það sem varð að þeim lögum.
Neytendasamtökin telja greiðsluaðlögun einstaklinga afar mikilvægt úrræði enda um gamalt baráttumál samtakanna að ræða. Hins vegar sé greiðsluaðlögun neyðarúrræði þeirra sem ekki geti staðið við skuldbindingar sínar, og eðlilegt sé að ganga út frá því að almennt vilji fólk greiða skuldir sínar sé þess nokkur kostur. Í ljósi þess telja samtökin brýnt að greiðsluaðlögun geri ráð fyrir því að skuldari standi skil á skuldbindingum sínum eins og honum er frekast unnt, t.a.m. með hlutfallslegri lækkun krafna sbr. 3. gr. frumvarpsins, fremur en að alger eftirgjöf sé meginreglan. Með því telja samtökin að jafnræðis verði betur gætt meðal heimila í landinu, en gera má ráð fyrir því, miðað við núverandi efnahagsástand að margir komi til með að sækja um greiðsluaðlögun og að talsverður kostnaður hljótist af því fyrir kröfuhafa, sem væntanlega veltist svo að einhverju marki yfir á neytendur í heild.

Að þessu sögðu gera samtökin eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

Um 7. gr.: Í 2. mgr. 7. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef samþykkt umsóknar væri óhæfileg. Í a-, b-, c-, d-, og e-lið 2. mgr. 7. gr. er svo að finna atriði sem líta skal til við matið, t.a.m. ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga, eða látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var unnt.
Neytendasamtökin eru þeirrar skoðunar að 2. mgr. 7. gr. bjóði upp á of mikið mat og geti leitt til þess að jafnræðis meðal þeirra sem sækjast eftir greiðsluaðlögun raskist. Að mati samtakanna er afar brýnt að skýrt sé í lögum hvenær réttur til greiðsluaðlögunar sé til staðar og því væri æskilegra að löggjafinn tæki af skarið varðandi það hvenær synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar.

Um 10. gr.: Í 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að umboðsmaður skuldara skipi umsjónarmann með greiðsluaðlögun. Samkvæmt greininni eru einu skilyrðin þau að viðkomandi hafi lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði, og því má segja að í raun komi allir lögmenn og lögfræðingar landsins til greina í starf umsjónarmanns, kjósi umboðsmaður að leita fanga utan embættis síns. Samkvæmt frumvarpinu hefur umsjónarmaður svo afar víðtækar heimildir, m.a. við mat á því hvort skuldara skuli gert að selja eignir, hversu hátt hlutfall skulda skuli greitt o.s.frv. Með vísan til þessa, og til að gætt sé jafnræðis meðal þeirra sem óska eftir greiðsluaðlögun þar eð mörg ákvæði frumvarpsins eru nokkuð matskennd, telja Neytendasamtökin brýnt að settar verði einhvers konar verklagsreglur fyrir þá sem taka að sér starf umsjónarmanns.

Um 14. gr.: Í 14. gr. frumvarpsins er fjallað um hugsanlega sölu eigna skuldara. Í VIII. kafla athugasemda við frumvarpið sem og athugasemdum við greinina sjálfa er svo fjallað nánar um inntak þessa ákvæðis. Má þar ráða af öllum ummælum að heimild til sölu eigna er afar matskennd, þannig skal m.a. líta til markaðsaðstæðna, þess hvort líklegt sé að sala eignar dragist á langinn, hugsanlegrar röskunar á högum barna við búferlaflutninga, áhrifa á skuldara og fjölskyldu hans af því að flytja milli staða og þess hvort bersýnilega sé ósanngjarnt að skuldari haldi eftir tilteknum eignum. Jafnframt er tekið fram að sala eigna sem eru veðsettar að fullu eða yfirveðsettar skuli alla jafna ekki koma til álita. Öll eru þessi skilyrði afar matskennd, og reikna má með að ákvarðanir um sölu á eignum skv. 14. gr. verði æði misjafnar enda háðar mati hvers og eins umsjónarmanns.
Ljóst er að sala eigna er íþyngjandi fyrir skuldara og því telja Neytendasamtökin afar brýnt að settar séu skýrari reglur um það hvenær slík sala skuli fara fram, enda vandséð hvernig jafnræðis meðal þeirra sem æskja greiðsluaðlögunar verður gætt að öðrum kosti.

            Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir við frumvarpið og hvetja eindregið til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er