Frumvarp til laga um innheimtustarfsemi

Þriðjudagur, 11. mars 2003

 

Efnahags- og viðskiptanefnd
Alþingi
150 Reykjavík

Reykjavík 11. mars 2003

Efni: Umsögn um frumvarp til innheimtulaga, 209. mál.

Neytendasamtökin lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta frumvarpið og telja að í því sé falin mikilvæg neytendavernd. Neytendasamtökin gera þó eftirfarandi þrjár tillögur um breytingar á frumvarpinu:

1.
Í 15. gr er í lok greinarinnar fjallað um eftirlit með innheimtustarfsemi. Í síðustu setningu þessarar greinar stendur að “gagnvart lögmönnum fer stjórn Lögmannafélags Íslands með eftirlit samkvæmt lögum þessum og lögum um lögmenn”. Neytendasamtökin telja það mjög óeðlilegt að félagasamtök hafi eftirlit með hvort félagsmennirnir fari eftir tilteknum lögum.

Í 12. gr. frumvarpsins stendur að “viðskiptaráðherra skal í reglugerð ákveða hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar …” Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir breytingu á lögum 77/1998 um að “dómsmálaráðherra skal að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands gefa út leiðbeiningar handa lögmönnum um endurgjald…” Í greinargerð með 5. gr. frumvarpsins segir í síðustu setningu að “hugsanlegt er að Fjármálaeftilitið og stjórn Lögmannafélagsins hafi, ef þurfa þykir, með sér samráð og jafnvel samstarf um gerð verklagsreglna …”.

Að mati Neytendasamtakanna er það bæði óviðunandi og óeðlilegt að félagasamtök hafi eftirlit með lögum eins og þessum og fá Neytendasamtökin ekki annað séð en að hugsanlega sé verið að byggja upp tvö mismunandi innheimtukerfi, annað á vegum Fjármálaeftirlitsins en hitt á vegum Lögmannafélags Íslands í samvinnu við dómsmálaráðherra. Neytendasamtökin hvetja því því eindregið til að frumvarpið verði einfaldað að þessu leiti og Fjármálaeftirlitið hafi allt eftirlit með lögunum.

2.
Neytendasamtökin telja nauðsynlegt til að tryggja sem bestu innheimtuhætti að bæta við einum tölulið í 4. gr. frumvarpsins og sem yrði töluliður b. Þess má geta að þetta ákvæði er að finna í dönsku innheimtulögunum . Lagt er til að töluliðurinn hljóði svo:

“Sýni fram á að hann muni geta stundað innheimtustarfsemi með viðunandi hætti í samræmi við góða innheimtuhætti.”

3.
Til að tryggja persónuvernd er lagt til að ný grein komi inn í frumvarpið og verði 7. grein. Tekið skal fram að þessi grein byggir á dönsku innheimtulögunum, nema þriðja málsgreinin sem er tillaga sem mörg neytendasamtök hafa sett fram. Lagt er til að greinin hljóði svo:

“Án fyrirfram gefins leyfis skuldara er óheimilt að snúa sér persónulega til skuldara án undanfarandi skriflegrar viðvörunar sem berist skuldara fyrirfram. Í tilkynningunni skal þess getið með ótvíræðum hætti hvenær dagsins og hvar innheimtuaðili muni snúa sér til skuldara. Í tilkynningunni skal koma fram símanúmer og heimilisfang innheimtuaðila. Tilkynningu eins og þá sem hér um ræðir má ekki senda fyrr en frestur samkvæmt innheimtuviðvörun í 8. gr. er liðinn (yrði 9. gr. með þessari breytingu). Hafi innheimtuaðili reynt að snúa sér persónulega til skuldara eftir útgáfu viðvörunar en ekki hitt á hann er innheimtuaðila heimilt síðar án frekari viðvarana að snúa sér persónulega til skuldarans svo fremi það komi ótvírætt fram í þeirri skriflegu viðvörun sem send var skuldaranum.
Innheimtuaðili er einungis heimilt að snúa sér persónulega til skuldara eftir að hafa sent skriflega viðvörun á virkum dögum þ.m.t. laugardagar að undanskildum helgidögum þjóðkirkjunar og aðeins milli kl. 8 að morgni til kl. 21 að kvöldi, á laugardögum þó aðeins milli kl. 10 og kl. 16.

Sé skuldarinn einstaklingur má aðeins snúa sér til hans persónulega á heimili hans eða vinnustað ef skuldari rekur atvinnustarfsemi.

Sá sem snýr sér persónulega til skuldara skal sýna fram á heimildir sínar gagnvart skuldara með því að framvísa skilríkjum þar að lútandi sem að dómsmálaráðuneytið gefur út eða sá sem að dómsmálaráðuneytið heimilar útgáfu slíkra skilríkja.”

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson
formaður Neytendasamtakanna

Sjá frumvarpið: