Frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja

mánudagur, 2. mars 2015

Nefndasvið Alþingis
Atvinnuveganefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

 

Reykjavík 23. febrúar 2015

Umsögn Neytendasamtakanna og Evrópsku neytendaaðstoðarinnar um frumvarp til laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, 421.mál.

Ferðaiðnaðurinn á Íslandi fer sífellt stækkandi og á hverju ári kemur mikill fjöldi ferðamanna til landsins. Stór hluti ferðamanna og ferðast um landið á bílaleigubílum og mikilvægt er að til staðar séu greinargóðar og skýrar reglur um réttindi og skyldur aðila á þessum markaði. Neytendasamtökin fagna því að til standi að endurskoða lög um bílaleigur.
Að því sögðu gera Neytendasamtökin og Evrópska Neytendaaðstoðin þó eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp

Um 1. gr.
Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram að leiga þar sem einsaklingar leigja út skráningarskyld ökutæki í einkaeigu til annarra einstaklinga með milligöngu leigumiðlunar falli einnig undir gildissvið þess. Þar sem slík viðskipti virðast vera að aukast er jákvætt að ákveðið hafi verið að fella slíkar leigur undir regluverkið.
Um 6. gr.
Í 6. gr. kemur fram að leyfishafi skuli tryggja að leigutaka séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Ekki er þó nánar fjallað um hvað geti fallið undir slíkan áskilnað og virðist orðalagið nokkuð matskennt. Æskilegt væri að settar yrðu nánari vísireglur í til að tryggja stöðu neytenda. Einnig er mikilvægt að neytendur geti fengið skjóta úrlausn deilumála og væri heppilegt ef Samgöngustofa fengi víðtækt eftirlitshlutverk er varðar samninga og skilmála bílaleiga. Í þessu samhengi má benda á hversu óheppilegt það er að engin eftirlitsstofnun hafi eftirlit með ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 er varðar neytendasamninga.

Um 7. gr.
Við á Íslandi búum yfir talsverðri sérstöðu er varðar veðurfar og vegakerfi, og hafa erlendir ferðamenn oft lent í vandræðum er snýr að akstri á slæmum vegum og hafa nokkur mál borist vegna tilrauna ferðamanna til að fara yfir óbrúaðar ár og farvegi. Mikilvægt er að bílaleigur veiti fullnægjandi upplýsingar og leiðbeiningar til ferðamanna varðandi akstur í íslensku umhverfi, ásamt upplýsingum um hvort viðkomandi bílaleigubíll sé hæfur til notkunar við þær aðstæður sem leigutaki hyggst nota bifreiðina við. Það verður að telja nokkuð ríka upplýsingaskyldu hvíla á bílaleigum varðandi þessi atriði. Einnig er mikilvægt að bílaleigur vari sérstaklega við þeim hættum sem geta stafað af umhverfinu, s.s. vegna sand- og öskutjóns, og kynni hvaða tryggingar standa til boða til að lágmarka kostnað leigutaka ef tjón verður. Í 3. mgr. frumvarpsins virðist því kveðið á um frekar þrönga upplýsingagjöf og væri æskilegra að hún yrði víkkuð.

Almennar athugasemdir
Því miður virðist lítið tekið á málum sem lúta beint að réttindum neytenda í lagafrumvarpinu og virðist aðaláherslan vera á reglur er varða eiginlega starfsemi bílaleiga. Neytendasamtökin hýsa Evrópsku neytendaaðstoðina (ECC) á Íslandi. Árlega berst ECC töluverður fjöldi erinda vegna bílaleiga og höfum við því nokkra reynslu á helstu kvörtunarefnum á því sviði. Helstu kvörtunarmál sem ECC berast á hverju ári eru vegna skilmála og upplýsingagjafar bílaleigufyrirtækja
Samhliða frumvarpi þessu er mikilvægt að endurskoða reglugerð um bílaleigur nr. 790/2006, sérstaklega hvað varðar leiguskilmála. Í því samhengi mætti m.a. hafa til hliðsjónar leiðbeiningar Sambands Evrópska bílaleigufyrirtækja (LeaseEurope) um góða starfshætti í bílaleigugeiranum (sjá fylgiskjal ). Þar er m.a. kveðið á um í kafla 2.3.2 að bílaleigufyrirtæki skuli við upphaf bílaleigu veita viðskiptavinum sínum ástandsskýrslu bifreiðar, sem er undirrituð af viðskiptavininum og starfsmanni bílaleigunnar. Þar skulu tilteknar allar þær skemmdir og ágallar sem á bifreiðinni eru og merkt er við þær á teikningu af bílnum. Viðskiptavinurinn hefur þá tækifæri til að fara yfir skráð tjón og bæta við ef hann sér frekari skemmdir sem ekki koma fram í skýrslunni. Við skil bifreiðarinnar er hún svo skoðuð af starfsmanni ásamt viðskiptavini og gerð skýrsla við skilin þar sem fram kemur hvort nýjar skemmdir hafi fundist eða hvort ástand bifreiðarinnar við skil eru fullnægjandi. Með þessu móti hefur viðskiptavinurinn tök á því að koma með athugasemdir og mótmæla.
Töluvert hefur borist af kvörtunum til ECC vegna verklags sumra bílaleiga varðandi skil bifreiða að leigutíma loknum. Mörg mál hafa borist þar sem bílaleigur rukka viðskiptavini sína vegna meintra skemmda á bifreiðum sem haldið er fram að hafi átt sér stað á meðan leigutíma stóð. Í mörgum tilvikum hafa viðskiptavinirnir ekki haft möguleika á að vera viðstaddir þegar farið er yfir ástand bifreiðarinnar að leigutíma loknum og geta lítið sagt eða mótmælt þegar þeir eru farnir af landi brott og rukkun fyrir skemmdum berst. Æskilegt er að bílaleigur bjóði viðskiptavinum sínum að vera viðstaddir þegar farið er yfir ástand bifreiðarinnar við skil og láti eftir atvikum í té yfirlýsingu þess efnis að ástand bifreiðarinnar sé fullnægjandi og ekki verði krafist greiðslu vegna frekari skemmda. Einnig er mikilvægt að bílaleigur reyni að lágmarka tjón sitt ef skemmdir verða á bílaleigubílum með því að velja hagstæðustu og ódýrustu viðgerðarleiðarnar ásamt því að gæta meðalhófs við mat á skemmdum. ECC hefur fengið mál þar sem bílaleigur virðast hafa farið í miklar viðgerðir vegna skemmda sem ekki var hægt að sjá að hafi verið alvarlegar.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir að svo stöddu og hvetja til samþykktar ofangreinds frumvarps.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna og Evrópsku neytendaaðstoðarinnar

 

______________________________
Hildigunnur Hafsteinsdóttir,  
Stjórnandi Evrópsku neytendaaðstoðarinnar

 

______________________________
Ívar Halldórsson

 

Slóðin á frumvarpið er: http://www.althingi.is/altext/144/s/0629.html