Frumvarp til laga um lyfjalög

Fimmtudagur, 9. júní 2016

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 9. júní 2016

Umsögn Neytendasamtakanna á frumvarpi til lyfjalaga, 677. mál.

Á síðasta þingi Neytendasamtakanna sem haldið var haustið 2014 kom fram eftirfarandi áhersla: Í heilbrigðismálum þarf að leggja áherslu á heildarsýn með samstarfi stofnana og samræmingu á nýtingu fjárveitinga til heilbrigðis- og félagsmála. Kerfið þarf að vera sveigjanlegt með rými fyrir fjölbreytt úrræði á borð við hreyfiseðla og óhefðbundnar lækningar.

Neytendasamtökin fagna framlögðu frumvarpi sem er endurskoðun lyfjalaga sem sett voru árið 1994 en að því sögðu gera samtökin eftirfarandi athugasemdir:

1.      Markmið laganna er skýrt að flestu leyti. Að mati Neytendasamtakanna vantar í markmið að tryggja almenningi aðgang að lyfjum sem standast ekki eingöngu kröfur um gæði, virkni og öryggi heldur líka að lyfin séu ódýr.

2.      Um 4. grein: Neytendasamtökin telja rökin sem fram koma fyrir því að leggja niður embætti lyfjamálastjóra ekki fullnægjandi og hafa samtökin áhyggjur af því að erfiðara verði að tryggja hlutleysi embættismanna gagnvart sérhagsmunum sem ganga gegn hagsmunum almennings. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að þessi tillaga sé í samræmi við lagasetningu Alþingis undanfarin ár þar sem sett hafa verið sérlög sem fjalla heildstætt um heila málaflokka og sú þróun virðist sem að ekki tíðkist lengur að kveða sérstaklega á um embætti sérstakra einstaklinga sem fari með ákveðna málaflokka innan ráðuneytis. Engu að síður er talið nauðsynlegt að þekking á lyfjamálum sé til staðar innan ráðuneytisins þar sem um sérhæfðan, flókinn og hagsmunatengdan málaflokk er að ræða. Ef það er nauðsynlegt að gæta hlutleysis gagnvart hagsmunaárekstrum er erfitt að sjá að hægt sé að tryggja að markmið lagagreinarinnar náist þegar óskilgreindur fjöldi fólks er að vinna í lyfjamálum í stað þess að einn aðili (lyfjamálastjóri) er ábyrgur fyrir lyfjamálum eins og lögin í dag segja til um. Þetta atriði skiptir neytendur miklu máli til að viðhalda trúverðugleika að unnið sé að markmiðum laganna með hagsmuni almennings að leiðarljósi.

3.      Um 10. grein: Neytendasamtökin fagna því að í frumvarpinu eru ákvæði um reglugerðir sem byggja á þessum lögum vera ítarleg og er nákvæmlega talið upp um hvaða mál ráðherra er heimilt að setja frekari ákvæði í reglugerðum en fram koma í lögunum sjálfum. Mikilvægt er að hafa möguleika að setja ítarlegar reglugerðir um efni og því nauðsynlegt að ákvæði um heimildir fyrir reglugeðrum séu skýr. Í þessu ljósi er mat samtakanna að nauðsynlegt er að skilgreina hver sé ábyrgur fyrir lyfjamálum í ráðuneytinu og því leggjast samtökin gegn því að embætti lyfjamálastjóra sé lagt niður.

4.      Neytendasamtökin fagna ákvæðum sem fram koma í 16. grein frumvarpsins sem miðast af því að fækka hindrunum að leyfa notkun á lyfi sem hefur fengið markaðsleyfi frá öðrum ríkjum innan EES.

5.      Neytendasamtökin fagna því að í 33. grein frumvarpsins er opnað á möguleika að selja níkótín-lyf í almennum verslunum. Það er óskiljanlegt að ekki sé hægt kaupa níkótín-lyf í sömu verslunum og selja níkótín.

6.      Í 59. grein frumvarpsins verður það hlutverk Lyfjastofnunar að ákveða verð á lyfjum en Lyfjagreiðslunefnd hefur sinnt þessari hlið lyfjamála. Nefndin verður lögð niður. Neytendasamtökin fagna þessari breytingu og sem er í samræmi við umsögn samtakanna um nýja lyfjastefnu sem sent var Velferðarráðuneyti. Í umsögninni var skipulag stofnanakerfis lyfjamála í landinu gagnrýnt og stjórnvöld hvött til að einfalda stofnanakerfið.

7.      Neytendasamtökin fagna tillögu um skipan ráðgjafanefndar um lyfjaverð og greiðsluþátttöku eins og fram kemur í 66. grein frumvarpsins. Samtökin hvetja ráðherra til að skipa fulltrúa almennings og sjúklingasamtaka í ráðgjafanefndina.

8.      Neytendasamtökin fagna tillögu um að sjúklingar (með réttu ætti að heita almenningur) eigi að hafa aðgang að eigin lyfjaupplýsingum eins og fram kemur í 70. grein frumvarpsins. Í sömu lagagrein kemur fram að læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, lyfjafræðingar og tannlæknar sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á lyfjasögu hans að halda vegna meðferðarinnar eigi hafa aðgang að lyfjaupplýsingum sjúklingsins síðastliðin þrjú ár í lyfjagagnagrunninum til að tryggja að sjúklingur fái viðeigandi meðferð. Þetta ákvæði er jákvætt, m.a. til að minnka líkur á ofneyslu lyfja, sérstaklega ávanabindandi lyfja.

9.      Í lögunum er ekki að finna ákvæði um að hrinda í framkvæmd útboð á lyfjum til að lækka lyfjakostnað í landinu og að útboðsferlið verði styrkt og bætt opnað á möguleika á að opinberar sjúkrastofnanir leiti eftir samstarfi um sameiginleg útboð með öðrum Norðurlandaþjóðum.

Virðingarfyllst
f.h Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/145/s/1105.html