Frumvarp til laga um mannvirki

Föstudagur, 26. mars 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Umhverfisnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 26. mars 2010

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um mannvirki, 426. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið. Að miklu leyti er um að ræða samhljóða athugasemdir og samtökin hafa sent frá sér í tvígang áður vegna sama frumvarps.
      a Kostnaður við rekstur Byggingarstofnunar – Byggingaröryggisiðgjald.
Í 50. gr. frumvarps til laga um mannvirki kemur fram að byggingaröryggisiðgjald skuli innheimt til að fjármagna starfsemi Byggingarstofnunar. Er 1. mgr. 50. gr. svohljóðandi:
,,Vátryggingafélög og aðrir sem annast vátryggingar skulu árlega innheimta með iðgjöldum sínum sérstakt byggingaröryggisgjald. Byggingaröryggisgjaldið skal nema 0,07 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Viðlagatrygging telst þó ekki gjaldskyld trygging í þessu efni né heldur brunatryggingar skipa og flugvéla. Byggingaröryggisgjaldið skal notað til að fjármagna starfsemi Byggingarstofnunar.”           

Neytendasamtökin leggjast gegn því að byggingaröryggisiðgjald skuli standa undir rekstri Byggingarstofnunar. Hér er í raun um skatttöku að ræða sem bitna mun á meginþorra almennings. Er ljóst að þessi tilhögun mundi leiða til hærri iðgjalda þannig að vátryggjendur beri í raun þungan af kostnaði við rekstur Byggingarstofnunar, það er ríkisstofnunar sem sinnir opinberu eftirliti á vegum ríkisins. Þá er því jafnframt mótmælt að vátryggingarfélögum sé falið að taka að sér innheimtu fyrir ríkissjóð á þennan hátt.
Neytendasamtökin telja hins vegar eðlilegt að kostnaður við rekstur Byggingarstofnunar greiðist af þeim aðilum sem nýta sér þjónustu stofnunarinnar og að sett verði hófleg gjaldskrá er endurspegli raunverulegan kostnað, sbr. 51. og 52. gr. frumvarpsins.
Að því leyti sem slík gjaldtaka stendur ekki undir kostnaði við Byggingarstofnun telja Neytendasamtökin að rekstrarkostnaður skuli greiðast úr ríkissjóði en ekki með gjaldtöku frá almenningi.
Ábyrgð eiganda mannvirkis – Ábyrgð byggingarstjóra - Ábyrgðartrygging
Í frumvarpi til laga um mannvirki er lagt til að ábyrgð eiganda mannvirkis aukist frá því sem nú er og að á móti takmarkist ábyrgð byggingarstjóra. Í 15. gr. frumvarpsins kemur fram að eigandi mannvirkis beri ábyrgð á því að farið sé að kröfum laganna og reglugerða sem verða settar á grundvelli þeirra. Í núgildandi lögum er það á ábyrgð byggingarstjóra að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög og reglugerðir. Telja Neytendasamtökin lítið samræmi milli þessarar greinar og þess að skv. 27. gr. frumvarpsins er skylt að hafa byggingarstjóra við stjórn byggingarframkvæmda. Þá þurfa byggingarstjórar skv. 28. gr. frumvarpsins að hafa starfsleyfi og uppfylla ákveðin hæfisskilyrði. 
Þá hefur Hæstiréttur túlkað ábyrgð byggingarstjóra með enn rýmri hætti, sbr. H 267/2005, en þar er það niðurstaða réttarins að byggingarstjóri beri ekki eingöngu ábyrgð á því að unnið sé í samræmi við lög og reglugerðir heldur einnig á göllum sem rekja má til lakra vinnubragða iðnmeistara, ef sýnt er fram á að byggingarstjóri hafi látið slík vinnubrögð viðgangast. Samkvæmt þessum dómi ber byggingarstjóri því ábyrgð á því að þeir meistarar sem vinna við verkið viðhafi fagleg og gallalaus vinnubrögð við framkvæmd starfans. Sú niðurstaða verður að teljast eðlileg í ljósi þess að eigendur eða lóðarhafar hafa jafnan takmarkaða þekkingu á byggingarframkvæmdum og –löggjöf en byggingarstjóri er fagaðili sem hefur reynslu og menntun, sem er til þess fallin að tryggja að byggt sé í samræmi við lög og reglur og að viðhöfð séu rétt vinnubrögð.
Neytendasamtökin telja hættu á að réttaróvissa skapist ef gerðar verða slíkar breytingar á núgildandi löggjöf. Geti slíkt leitt til vafa um hvar ábyrgðin liggi, enda hætt við að gildissvið 15. gr. og 29. gr. frumvarpsins geti skarast. Telja Neytendasamtökin jafnframt að ákvæði 15. gr. frumvarpsins leggi óhóflegar byrðar á hinn almenna húsbyggjanda, sem í góðri trú ræður sér fagaðila til starfans.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á furmvarpið er: