Frumvarp til laga um námslán og námsstyrki

Föstudagur, 16. september 2016

Námslánakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins og er tilgangur þess að auðvelda fólki að afla sér menntunar án tillits til efnahags eða félagslegra aðstæðna. Mikið er í húfi og ljóst að breytingar á kerfinu þurfa að eiga sér stað samhliða breytingum í samfélaginu. Þannig þarf að huga að aldurs -og fjölskyldusamsetningu nemenda, félagslegri stöðu nemenda og efnahagi ríkissjóðs. Um langa hríð hafa verið uppi kröfur um að breyta núverandi kerfi þannig að hluti af námslánum verði breytt í styrki til lánþega. Þessa langþráðu breytingu má finna í frumvarpinu og því ber að fagna.  

Á upplýsingavef menntamálaráðuneytisins er að finna spurt og svarað dálk þar sem reynt er að svara helstu spurningum varðandi frumvarpið. Þar segir meðal annars um markmið frum-varpsins:

“Markmiðið er að tryggja áfram jafnan aðgang að námi, skapa aukið réttlæti og gegnsæi við úthlutun styrkja og að skapa fyrirsjáanleika fyrir námsmenn og lánasjóðinn. Jafnframt er markmiðið að tryggja námsmönnum fulla framfærslu og gefa þeim aukinn kost á að mennta sig án skuldsetningar.”

Þetta góða markmið hefur verið sett í uppnám því allmargir hagsmunaaðilar hafa bent á að þessu sé í raun öfugt farið og að umrætt frumvarp gagnist þeim best sem búa við góðar félagslegar aðstöðu en gagnist þeim minnst sem hafa það verst. Þetta er á skjön við tilgang og markmið námslánakerfisins sem var í upphafi að jafna stöðu nemenda til náms, án tillits til efnahags.  

Þegar kemur að endurgreiðslum námslána felur frumvarpið í sér þá breytingu að hætt verði að tekjutengja endurgreiðslurnar. Það myndi hafa í för með sér verulega hækkun á greiðslubyrði þeirra sem hæstu lánin hafa tekið, óháð fjárhagslegri stöðu þeirra að öðru leyti.

Það hefur líka verið gagnrýnt að hámarkslánstími samkvæmt frumvarpinu sé 7 ár í stað 8 ára eins og samkvæmt núverandi kerfi. Einnig hefur verið bent á að þetta bitni harðast á þeim sem leggja stund á doktorsnám. Það hlýtur að vera áhyggjuefni, sérstaklega þegar kemur að einstaklingum í námsgreinum þar sem laun eru ekki sérstaklega há. Þetta gæti þýtt að fækkun verði í sumum námsgreinum, eins og til dæmis tengdum hugvísindum. Einnig gæti þetta leitt

til þess að vísindaiðkun deildanna verði slakari en ella, ef t.a.m. færri treysta sér í doktorsnám af fjárhagslegum ástæðum.       

Það er ljóst að innsendar athugasemdir vegna frumvarpsins eru á einn veg og hvetja Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld til þess að taka tillit til þeirra. Neytendasamtökin vara sérstaklega við þeirri stöðu sem gæti komið upp sé námsmönnum yrði þrýst í það að taka dýrari námslán hjá einkafyrirtækjum.  Reynsla Bandaríkjanna af sligandi námslánaskuldum nýútskrifaðra nemenda er víti til að varast.  

 

Virðingarfyllst,

f.h. Neytendasamtakanna,

Jóhannes Gunnarsson, formaður

 

Frumvarpið má finna hér.