Frumvarp til laga um náttúrupassa

Föstudagur, 20. febrúar 2015

Nefndasvið Alþingis
Atvinnuveganefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 20. febrúar 2015.

Athugasemdir við frumvarp til laga um náttúrupassa, 455. mál.

Með ofangreindu frumvarpi er lagt til að einstaklingar, sem hyggjast heimsækja ákveðna ferðamannastaði á Íslandi, afli sér sérstaks náttúrupassa og greiði fyrir það ákveðið gjald.

Rétt er að taka fram í upphafi að Neytendasamtökin leggjast gegn hugmyndum um að ferðamönnum verði yfirleitt gert að greiða gjald fyrir að ferðast um landið, og leggjast því gegn frumvarpinu í heild sinni, en að öðru leyti gera samtökin einnig eftirfarandi athugasemdir við einstök atriði þess:

Ferðamannastaðir sem eiga aðild að náttúrupassa: Í 4. gr. frumvarpsins er tiltekið að allir ferðamannastaðir í eigu eða umsjón opinberra aðila eigi sjálfkrafa aðild að náttúrupassanum og ennfremur að ferðamannastaðir í eigu einkaaðila geti gerst aðilar. Jafnframt er tekið fram að Ferðamálastofa skuli halda úti aðgengilegum og uppfærðum lista yfir ferðamannastaði sem eigi aðild að náttúrupassanum á hverjum tíma. Að mati Neytendasamtakanna virðist því vera nokkuð óljóst hvaða staði á landinu ferðamenn mega heimsækja án umrædds náttúrupassa. Þannig leggur þetta ákvæði töluvert ríkar skyldur á ferðamenn að fylgjast með umræddum lista á heimasíðu Ferðamálastofu, en telja verður að erfitt sé fyrir ferðalanga að átta sig fyrirfram á því t.a.m. hvaða ferðamannastaðir séu í eigu eða umsjón opinberra aðila. T.a.m. er í athugasemdum með frumvarpinu tiltekið að staðir sem eru í umsjá Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins muni hafa aðild að umræddum náttúrupassa en telja má að margir ferðamenn geri sér alls ekki grein fyrir hvaða staðir það eru. Telja samtökin því að þetta geri framkvæmdina strax nokkuð flókna.

Erlendir ferðamenn: Í athugasemdum við frumvarpið kemur m.a. fram að „það er ávallt ferðamaðurinn sem ber ábyrgð á að afla sér náttúrupassa en ekki ferðaskipuleggjandinn.“ Þó er í athugasemdum með frumvarpinu tekið fram að ferðamenn sem lendi í vandræðum með að greiða fyrir náttúrupassann geti leitað aðstoðar hjá ferðaskrifstofum, upplýsingamiðstöðvum og gististöðum. Ekki er hins vegar að sjá af frumvarpinu að sú skylda að kynna fyrir erlendum ferðamönnum tilvist náttúrupassa yfirleitt sé lögð á neinn sérstakan aðila, þvert á móti virðist gert ráð fyrir að ferðamenn sjálfir beri ábyrgð á því að afla sér passans, en geti hins vegar leitað aðstoðar við að greiða fyrir hann. Að mati Neytendasamtakanna er því ástæða til að óttast að t.a.m. þeim fjölmörgu erlendu ferðamönnum sem kjósa að ferðast um landið á eigin vegum, t.a.m. á eigin bifreið eða bílaleigubíl (en bílaleigur eru mýmargar og sinna almennri upplýsingagjöf til ferðamanna mjög misvel) sé alsendis ókunnugt um tilvist náttúrupassa yfirleitt og eigi þá á hættu að verða sektaðir um 15.000 kr., hugkvæmist þeim ekki að leita upplýsinga á t.d. heimasíðu Ferðamálastofu áður en þeir halda í ferðina. Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að sýna fram á handhöfn náttúrupassa með því að framvísa tölvupósti, þá væntanlega í snjallsíma sem þarf þá að vera nettengdur á ferðamannastað, eða útprentaðri kvittun. Telja verður að þetta fyrirkomulag geti valdið erlendum ferðamönnum töluverðum óþægindum, en bæði er afar mismunandi að hve miklu leyti ferðmenn hafa nettengingu í símum sínum (auk þess sem slíkt getur verið afar kostnaðarsamt, a.m.k. fyrir þá sem eru búsettir utan EES-svæðisins) og eins getur aðgengi að prenturum verið mjög mismunandi eftir t.a.m. gististöðum, og telja verður t.a.m. að þeir fjölmörgu ferðamenn sem hafast við í svokölluðum „túristaíbúðum“ en útleiga almennra íbúða til erlendra ferðamanna er vaxandi vandamál, hafi hvorki aðgang að prentara né nokkurri aðstoð á gististað þegar kemur að greiðslu fyrir náttúrupassa.

Rétt er að taka fram að samtökin eru fyllilega meðvituð um að þörf er á fjármagni til viðhalds, uppbyggingar og verndunar ferðamannastaða en telja rétt að leita annarra leiða í þeim efnum. Hvað það varðar vilja samtökin jafnframt taka undir tillögur Ferðamálasamtaka Íslands um valkvæðan náttúrupassa, en þær tillögur eru m.a. reifaðar í umsögn Ferðamálasamtaka Íslands við ofangreint frumvarp. Er það mat Neytendasamtakanna að það sé vel þess virði að útfæra þær hugmyndir nánar og láta á þær reyna, enda má telja að fjármögnun með þeim hætti sem þar er lögð til hafi á sér mun jákvæðari blæ en fjármögnun sem felst í því að skylda alla ferðamenn, að viðlagðri sekt, til kaupa á náttúrupassa.

Með hliðsjón af öllu framansögðu lýsa Neytendasamtökin sig því andvíg ofangreindu frumvarpi og hvetja eindregið til endurskoðunar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0699.html.