Frumvarp til laga um neytendakaup og frumvarp til breytinga á samkeppnislögum

mánudagur, 24. febrúar 2003

 

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 24. febrúar 2003

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um neytendakaup.

Neytendasamtökin fagna frumvarpi til laga um neytendakaup en gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið: 

d-liður 2. mgr. 2. gr. 
Samkvæmt d-lið 2. mgr. 2. gr. fellur samningur utan gildissviðs laganna þegar sá sem afhendir hlut skal jafnframt láta í té vinnu eða aðra þjónustu sem felur í sér mestan hluta af skyldum hans.  Í greinargerð er nefnt sem dæmi um samning sem falli utan gildissviðsins þegar bílaverkstæði gerir samning um sölu á einföldum varahlut í bíl og sér jafnframt um að koma varahlutnum fyrir.

Það álitaefni sem Neytendasamtökin vilja velta upp hér snýr að því þegar varahluturinn reynist gallaður.  Í lögum um þjónustukaup eru ýmis ákvæði um það hversu fagmannlega seljanda beri að standa að verki.  Ekkert segir hins vegar í lögunum um hvað gera skuli ef verkið er fagmannlega unnið en hluturinn sem seldur var neytandanum í leiðinni, s.s. eins og varahlutur, reynist gallaður.  Er þetta sérlega bagalegt.  Sérstaklega í ljósi þess að í því frumvarpi sem hér er til umsagnar er skýrt tekið fram að samningur af þessu tagi sé undanskilin ákvæðum laga um neytendakaup.  Ýmsar spurningar geta því vaknað um hverjar séu skyldur bílaverkstæðis gagnvart neytanda þegar varahlutur reynist gallaður.  Á verkstæðið að gera við varahlutinn eða skipta honum út fyrir nýjan?  Hvað með reglur um tilkynningarfrest neytanda vegna galla?

Samkvæmt ákvæðum þjónustukaupalaga hefur neytandinn tveggja ára frest til að tilkynna um galla á unnu verki.  Ekkert segir í lögunum um hver sé frestur neytanda til að tilkynna um galla á hlut sem seldur var í tengslum við verk.  Í frumvarpi til laga um neytendakaup er að finna ákvæði um þetta efni og er tilkynningarfresturinn þar almennt tvö ár en fimm ár vegna hluta sem ætlaður er langur endingartími.  Þess bera að geta að hlutum sem afhentir eru í tengslum við þjónustu er mjög oft ætlaður lengri endingartími en almennt gerist.  Nefna má sem dæmi afhendingu iðnaðarmanna á byggingarefni, bifvélavirkja á varahlutum eða afhendingu bólstrara á áklæði vegna vinnu við sófa.

Neytendasamtökin telja að framangreint misræmi milli laga um þjónustukaup og frumvarps til laga um neytendakaup sé algjörlega óviðunandi.  Af þeim sökum leggja samtökin til að d-liður 2. mgr. 2. gr. falli niður og að við 1. mgr. 2. gr. bætist nýr liður, d-liður, svohljóðandi:

Lög þessi gilda um:

d. afhendingu hlutar þó að sá sem afhendi hlutinn skuli jafnframt láta í té vinnu eða aðra þjónustu sem feli í sér mestan hluta af skyldum hans.

Rök Neytendasamtakanna fyrir þessari tillögu eru þau að engin ástæða sé til að láta tvenns konar reglur gilda um sölu hluta þó að sumir séu seldir í tengslum við vinnu eða aðra þjónustu en aðrir með hefðbundnum hætti.  Í raun telja samtökin það réttlætismál að neytandi sem fær varahlut frá verkstæði sem annast viðgerð sé ekki verr settur en sá sem kaupir varahlut í varahlutaverslun reynist hluturinn gallaður. 

14. gr. 
Í 14. gr. frumvarpsins er fjallað um áhættuflutning og það hvernig áhættan flytjist yfir á neytandann þegar hlutar er ekki vitjað á réttum tíma.  Neytendasamtökin telja að í 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins vanti reglu sem er að finna í 2. ml. 2. mgr. 13. gr. kaupalaga (kpl.) en lagt er til í 5. tl. 64. gr. frumvarpsins að reglan falli út úr kpl.  Í 2. ml. 2. mgr. 13. gr. kpl. er mælt fyrir um að í neytendakaupum beri kaupandi þó ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburði sem verður meðan hlutur er hjá seljanda, enda sé ekki unnt að rekja atburðinn til eiginleika hlutarins sjálfs.

Neytendasamtökin telja afar mikilvægt að núverandi regla 13. gr. kaupalaga flytjist óbreytt yfir í 1. mgr. 14. gr. laga um neytendakaup.  Því til stuðnings vísast til greinargerðar með kpl. en þar segir að rökin fyrir reglunni séu þau að seljandinn hafi mun meiri möguleika en kaupandinn á að fá tilviljunarkennt tjón bætt, s.s. með vátryggingu eða á annan sambærilegan hátt.  Sömuleiðis telja Neytendasamtökin ófært að réttur neytenda skerðist að þessu leyti við setningu sérstakra neytendakaupalaga.  Neytendasamtökin leggja því til að við 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins bætist eftirfarandi málsgrein:

Neytandi ber þó ekki áhættuna af tilviljunarkenndum atburði sem verður meðan hluturinn er hjá seljanda, enda sé ekki unnt að rekja atburðinn til eiginleika hlutarins sjálfs.

c-liður 1. mgr. 16. gr.
Í c-lið 1. mgr. 16. gr. segir að hlutur teljist gallaður ef hann svarar ekki til upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun og ætla má að hafi haft áhrif á kaupin.

Ekkert segir í frumvarpinu, hvorki í 16. gr. né í greinargerðinni, á hvorum aðilanum sönnunarbyrðin hvíli um það hvort upplýsingarnar höfðu áhrif á kaupin.  Samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar ætti neytandinn að sanna að upplýsingar sem seljandi veitti hafi haft áhrif á kaupin.  Í tilskipun nr. 99/44/EB segir hins vegar í 4. gr. að seljandi skuli ekki vera bundinn af almennum upplýsingum ef hann sýnir fram á að upplýsingarnar hafi ekki getað haft áhrif á kaupin.

Í ljósi þess að tilskipunin er lágmarkstilskipun og að hún mælir fyrir um sönnunarbyrði sem er frábrugðin almennum reglum telja Neytendasamtökin að nauðsynlegt sé að taka skýrt fram í lögunum að sönnunarbyrðin um það hvort upplýsingar höfðu áhrif á kaup hvíli á seljandanum.  Neytendasamtökin leggja því til að c-liður 1. mgr. 16. gr. verði orðaður með eftirfarandi hætti:

Söluhlutur telst vera gallaður ef:
...
c.         hann svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun, nema seljandi sýni fram á að upplýsingarnar hafi ekki getað haft áhrif á kaupin. 

2. mgr. 27. gr. 
Í 2. mgr. 27. gr. er að finna ákvæði um 5 ára frest til að tilkynna um galla þegar hlut er ætlaður verulega lengri endingartími en almennt gerist um söluhluti.  Í greinargerð er byggingarefni það eina sem nefnt er í dæmaskyni um hluti sem falla undir regluna.  Engin önnur dæmi er að finna og er það mjög bagalegt.  Afar mikilvægt er að í tiltækum lögskýringargögnum með lögunum, t.d. nefndaráliti, komi fram nánari tilgreininga á því hvaða söluhlutir falli undir 5 ára regluna.

Nefnt er í greinargerð að reglan sé í samræmi við reglu norsku neytendakaupalaganna.  Á heimasíðu Forbrukerrådet í Noregi ( www.forbrukerportalen.no ) er að finna samantekt um norsku neytendakaupalögin sem ber heitið ,,Fakta om forbrukerkjøpsloven”.  Þar segir um fimm ára tilkynningarfrestinn: 

,,Fristen er imidlertid fem år, hvis tingen er ment å vare vesentlig lenger enn to år.  Dette gjelder for exempel kapitalvarer som møbler, biler, radio/tv-apparat og byggevarer.” 

Neytendasamtökin leggja til að sambærilega upptalningu verði að finna í lögskýringargögnum með íslensku neytendakaupalögunum. 

3. mgr. 37. gr. 
Í greinargerð með 3. mgr. 37. gr. segir að samkvæmt ákvæðinu eigi seljandi ekki að geta krafist til viðbótar kaupverði þóknunar fyrir að gefa út og senda reikninga.  Engu að síður segir í 3. mgr. að ekki megi krefjast þóknunar ,,hafi ekki verið samið um það í kaupsamningnum”.  Neytendasamtökin leggja til að þessi orð verði felld út.  Ákvæðið yrði mun skýrara auk þess sem afdráttarlaust væri tekið af skarið um það að kostnaður við útgáfu og sendingu reikninga er einfaldlega hluti af rekstri fyrirtækis en ekki tegund þjónustu.

Neytendasamtökin hafa afar víðtæka þekkingu og reynslu á sviði neytendamála, enda hafa þau unnið að hagsmunagæslu fyrir neytendur síðastliðin 50 ár auk þess að reka leiðbeiningar- og kvörtunarþjónustu.  Sætir það því nokkurri furðu innan Neytendasamtakanna að ekki skuli hafa verið leitað eftir sjónarmiðum samtakanna þegar frumvarp þetta var á vinnslustigi í viðskiptaráðuneytinu.

Neytendasamtökin gagnrýna loks stuttan umsagnarfrest, en bréf efnahags- og viðskiptanefndar barst samtökunum föstudaginn 15. febrúar með beiðni um umsögn í síðasta lagi 19. febrúar.  Því miður gátu samtökin ekki lokið við umsögn sína innan tilgreinds frests en umsögnin var unnin eins hratt af hálfu samtakanna og kostur var.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna
Ólöf Embla Einarsdóttir, lögfr.

Til að skoða frumvörpin:
http://www.althingi.is/altext/128/s/0904.html
http://www.althingi.is/altext/128/s/0894.html