Frumvarp til laga um neytendalán

Föstudagur, 11. maí 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 9. maí 2012.

Athugasemdir við frumvarp til laga um neytendalán, 704. mál.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarp þetta átti fulltrúi Neytendasamtakanna sæti í nefnd þeirri sem samdi frumvarpið. Jafnframt kom fulltrúi samtakanna á fund efnahags- og viðskiptanefndar vegna frumvarpsins hinn 2. maí sl. og reifaði þar ýmis sjónarmið samtakanna varðandi frumvarpið. Þá er um að ræða tilskipun þar sem að mestu er krafist fullrar samræmingar og svigrúm aðildarríkja til frávika því takmarkað. Allt að einu þykir þó rétt að gera athugasemdir við eftirfarandi ákvæði.

Um 10. gr.: Í umræddri frumvarpsgrein er kveðið á um skyldu til gerðar lánshæfis- og greiðslumats fyrir lántöku. Um er að ræða nýmæli í lögum en Neytendasamtökin hafa lengi barist fyrir því að settar verði reglur um skyldu til greiðslumats enda stuðli það að ábyrgum lánveitingum og geti komið í veg fyrir óhóflega og óraunhæfa skuldsetningu. Telja samtökin því afar brýnt að settar verði skýrar reglur um hvernig greiðslumat skuli fara fram, en til að ákvæðið nái markmiði sínu þarf að vera vandað til slíks mats og jafnframt afar mikilvægt að miðað sé við raunhæfan framfærslukostnað. Telja samtökin því mikilvægt að reglugerð sú sem rætt er um í 3. mgr. 10. gr. verði sett samhliða lögunum þannig að leikreglur varðandi greiðslumat séu frá upphafi skýrar.

Um 18. gr.: Í þessari frumvarpsgrein eru settar skorður við því hvað lánveitendur mega krefja neytendur um hátt uppgreiðslugjald vegna greiðslu fyrir gjalddaga. Í greininni er lagt til að fylgt verði þeim hámarksupphæðum (1% eða 0,5% ef minna en ár er eftir af lánstíma) sem tilskipunin kveður á um. Aðildarríkjum er hins vegar heimilt að kveða á um lægri mörk uppgreiðslugjalds. Neytendasamtökin hafa um árabil barist gegn töku svokallaðs uppgreiðslugjalds og talið það fela í sér óeðlilega hindrun á fjármálamarkaði. Hinn 20. febrúar sl. sendi stjórn samtakanna frá sér ályktun þar sem fram kemur sú krafa að uppgreiðslugjald vegna neytendalána verði bannað. Hér með er þessi krafa ítrekuð og hvatt til þess að heimildin um að ákvarða lægra hámark á uppgreiðslugjöldum verði nýtt.

Um 21. gr.: Í þessari frumvarpsgrein er fjallað um árlega hlutfallstölu kostnaðar. Við samningu frumvarpsins var ákveðið að láta gildissvið þess einnig ná til fasteignalána, en það er í samræmi við núgildandi lagaumhverfi en lög nr. 121/1994 um neytendalán ná einnig til fasteignalána, enda væru slík lán ella í ákveðnu tómarúmi. Hins vegar má ekki líta framhjá því að íslensk fasteignalán njóta ákveðinnar sérstöðu þar sem alla jafna er um verðtryggð lán að ræða, en verðtrygging lána með slíkum hætti tíðkast óvíða. Tilgangurinn með árlegri hlutfallstölu kostnaðar er sá að gera neytendum kleift að bera saman ólík lán og meta útfrá árlegri hlutfallstölu kostnaðar hvers kyns lán kunni að vera þeim hagstæðast. Í 3. mgr. 21. gr. er hins vegar gert ráð fyrir því að sé um verðtryggt lán að ræða skuli ganga út frá því, við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, að verðlag, vextir og önnur gjöld haldist óbreytt til loka lánstímans. Verður að telja að heldur óraunhæft sé að ætla að verðbólga verði 0% út lánstímann ef lán er t.a.m. tekið til 40 ára. Gerir þessi regla því það að verkum að ekki er raunhæft að bera saman óverðtryggð og verðtryggð lán út frá árlegri hlutfallstölu kostnaðar, enda hlyti slíkur samanburður alltaf að vera verðtryggða láninu í hag. Ljóst er að ekki er hægt að gera nákvæma verðbólguáætlun til langs tíma, en til að árleg hlutfallstala kostnaðar þjóni tilgangi sínum telja Neytendasamtökin þó mikilvægt að fundinn verði einhver raunhæfari grundvöllur til útreiknings hennar þegar um verðtryggð lán er að ræða. Mætti skoða ýmsar leiðir í því sambandi, t.a.m. að miða við meðaltalsverðbólgu undanfarinna ára, verðbólguspá Seðlabankans eða verðbólgumarkmið. Hvaða leið sem verður fyrir valinu er svo mikilvægt að gæta þess að reglur verði skýrar, og þannig að allir lánveitendur noti sömu aðferðir við útreikning, þannig að samanburður lána frá mismunandi lánveitendum verði raunhæfur.

Um lántökugjöld: Í frumvarpi þessu er ekkert fjallað um innheimtu lántökukostnaðar. Neytendasamtökin telja að rétt væri í svo ítarlegri lagasmíð að fjalla um slíka gjaldtöku. Um langa hríð hefur lántökukostnaður verið ákveðin prósentutala en ekki innheimtur sem krónutala vegna vinnu við gerð lánasamninga. Það telja samtökin afar óréttlátt, enda vandséð að vinna við skjalagerð vegna t.d. 2.000.000 króna láns sé tíu sinnum tímafrekari og eigi þ.a.l. að vera tíu sinnum dýrari en vinna vegna 200.000 kr. láns.

Almennar athugasemdir: Um fremur flókna lagasmíð er að ræða og t.a.m. má gera ráð fyrir að örðugt sé fyrir neytendur að gera sér fulla grein fyrir því hvað felst í skyldu lánveitenda til upplýsingagjafar, sbr. 6., 7., 8., 12. og 13. gr. frumvarpsins. Er því að mati samtakanna afar mikilvægt að samhliða gildistöku laganna verði útbúnar leiðbeiningar og upplýsingaefni fyrir neytendur er liggi frammi og sé aðgengilegt hjá öllum sem stunda lánveitingar í atvinnuskyni og falla þar með undir gildissvið laganna.

Að öðru leyti hvetja samtökin til samþykktar ofangreinds frumvarps.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður