Frumvarp til laga um neytendasamninga

Fimmtudagur, 4. febrúar 2016

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 3. febrúar 2016

 

Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um neytendasamninga, 402. mál.

Neytendasamtökin áttu, eins og fram kemur í athugasemdum í greinargerð með ofangreindu frumvarpi, þess jafnframt kost að gera athugasemdir meðan frumvarpið var á vinnslustigi. Má ráða af frumvarpinu að við áframhaldandi vinnslu þess hafi verið fallist á ýmsar athugasemdir sem samtökin gerðu við það tilefni. Er því hér á eftir aðallega um að ræða ítrekun á þeim athugasemdum sem samtökin telja að ekki hafi verið tekið tillit til og að eigi enn við.

Rétt er að árétta að athugasemdir samtakanna snúa almennt ekki að efnisinntaki frumvarpsins, heldur fremur að skýrleika þess og uppsetningu.

Um gildissvið laganna: Af 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins má ráða að lögunum sé ætlað að gilda um hvers kyns neytendaviðskipti, þ.e. þegar einstaklingur utan atvinnu sinnar kaupir vöru eða þjónustu af seljanda sem stundar viðskiptin í atvinnuskyni. Þá fjallar 2. kafli frumvarpsdraganna, sem er raunar aðeins ein grein, sérstaklega um aðra samninga en þá sem gerðir eru utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, þ.e. þá væntanlega kaup sem fara fram á starfsstöð seljanda. Um slík viðskipti gilda einnig önnur lög, þ.e. þá mögulega lög um neytenda- eða þjónustukaup, og í öllu falli lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Að öðru leyti er efnisreglum þessa frumvarps fyrst og fremst ætlað að gilda um samninga sem gerðir eru utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga. Neytendasamtökin hefðu talið mun einfaldara, sér í lagi þar sem aðeins er gert ráð fyrir að ein grein frumvarpsdraganna, utan gildistökukafla og almennra ákvæða, fjalli sérstaklega um samninga sem gerðir eru á fastri starfsstöð, að halda óbreyttu fyrirkomulagi, takmarka þau lög sem hér um ræðir við samninga sem gerðir eru utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, eins og nú á við um húsgöngu- og fjarsölusamninga, en breyta frekar ákvæðum laga nr. 57/2005 til samræmis við áskilnað tilskipunarinnar hvað varðar aðra samninga. Jafnframt má telja að sum þeirra ákvæða sem hér eru lögð til, eins og t.a.m. um heildarverð vöru og verðupplýsingar, sé nú þegar að finna í lögum nr. 57/2005, og þurfi þá jafnvel lítilla breytinga við. Sama má telja að eigi við um efnisákvæði 7. kafla frumvarpsins. Hefðu samtökin talið æskilegt að þetta væri skoðað nánar, og kannað hvort breytt tilhögun gæti ekki samrýmst undanþáguákvæði 3. mgr. 1. gr., enda mikilvægt að lög sem varða almenning svo miklu séu skýr og aðgengileg og að óbreyttu má telja hætt við að misskilningur skapist, t.a.m. hvað varðar gildissvið reglna um réttinn til að falla frá samningi. Svo að lög nýtist neytendum sem skildi og þeir séu meðvitaðir um rétt sinn samkvæmt þeim og auðvelt sé að túlka hann er enda brýnt að lagatexti sé eins skýr og einfaldur og kostur er.

Um skýrleika frumvarpsins og orðalag:

Um 1. gr.: Neytendasamtökin velta fyrir sér hvort skilgreiningar í t.a.m. 1. gr. draganna mættu vera skýrari. T.d. er í a)-lið 3. mgr. talað um „happdrætti“ en sé orðalag tilskipunarinnar skoðað má sjá af c)-lið 3. mgr. 3. gr. að um mun víðara hugtak er að ræða, og mundu t.d. fjárhættuspil, veðmál (sem alla jafna eru gerð á netinu) og spilakassar falla þar undir.

Þá virðast undantekningar þær á gildissviði tilskipunarinnar, sem tilteknar eru í a) og b)-liðum 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar ekki meðal þeirra sem taldar eru upp í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

Um „dagleg viðskipti“ í 4. gr.: Þetta ákvæði fjallar, eins og áður segir, sérstaklega um upplýsingaskyldu seljanda vegna annarra samninga en samninga utan fastrar starfsstöðvar og fjarsölusamninga, sumsé alla jafna samninga sem eiga sér stað á starfsstöð, verslun eða þjónustufyrirtæki, seljanda. Í lokamálsgrein ákvæðisins kemur þó fram að ákvæðið í heild gildi ekki um samninga sem snerti „dagleg viðskipti“ og eru efndir jafnskjótt og samningur er gerður. Er hér um að ræða innleiðingu á valfrjálsu ákvæði 3. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, og í sjálfu sér má telja eðlilegt að sú víðtæka upplýsingaskylda sem ákvæði 4. gr. kveður á um nái ekki til t.a.m. kaupa á almennri matvöru. Hins vegar þyrfti að mati Neytendasamtakanna að skýra mun betur hvað átt er við með „dagleg viðskipti“ enda gæti annars farið svo að hugtakið yrði oftúlkað í einhverjum mæli, og í framkvæmd látið ná yfir stærri viðskipti, eins og kaup á bifreiðum eða húsgögnum, enda séu slíkir samningar efndir jafnóðum, en slíkt getur varla verið tilgangurinn.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir og hvetja til samþykktar ofangreinds frumvarps.

 

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: http://www.althingi.is/altext/145/s/0548.html