Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fimmtudagur, 24. nóvember 2011

 

Neytendasamtökin hafa sent umsögn um frumvarp til  laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.  Þar leggjast samtökin gegn hækkunum á ýmsum neyslusköttum.

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 17. nóvember 2011.

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl.), 195. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um IV., V., og VI. kafla:  Með 11. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, sem meðal annars fela í sér skv. c-lið 11. gr. hækkanir á kolefnisgjaldi af dísilolíu og bensíni. Um töluvert mikla hækkun er að ræða, eða um 30%. Neytendasamtökin lögðust á sínum tíma gegn því að lög nr. 129/2009 um umhverfis- og auðlindaskatta yrðu samþykkt, og ítreka samtökin í raun þau sjónarmið er fram komu í umsögn þeirra við frumvarp til þeirra laga, 257. mál á 138. löggjafarþingi.

Með 12. og 13. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Eru í 12. gr. lagðar til hækkanir á vörugjaldi af bensíni og í 13. gr. eru lagðar til hækkanir á svokölluðu bensíngjaldi. Í athugasemdum með umræddum greinum er tekið fram að hækkunin sé lægri en almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda og því sé í raun um lækkun að raungildi að ræða. Jafnframt er tekið fram að hlutfall vörugjalda í eldsneytisverði sé um 26,5% af útsöluverði bensíns, sem sé lágt í sögulegu samhengi. Neytendasamtökin vilja benda á að í sögulegu samhengi er heimsmarkaðsverð á eldsneyti gríðarlega hátt. Heimilin í landinu mega varla við frekari hækkunum og því telja samtökin fulla ástæðu fyrir stjórnvöld að halda að sér höndum þegar kemur að gjaldtöku sem kemur til með að hækka eldsneytisverð til neytenda.

Með 14. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á olíugjaldi, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald. Með sömu rökum og að framan greinir leggjast samtökin gegn þeirri tillögu.

Neytendasamtökin telja ljóst að aukin skattlagning af þessu tagi muni bitna þungt á neytendum. Ekki einasta í formi hækkaðs verðs, en ljóst er að eldsneytisverð mun hækka umtalsvert, heldur einnig í formi þyngri greiðslubyrði verðtryggðra lána, en ljóst er að þessir kaflar frumvarpsins, verði þeir að lögum, munu hafa nokkur áhrif á neysluvísitölu. Þróun neysluvísitölu hefur þegar verið skuldsettum heimilum mjög óhagstæð og því hvetja samtökin stjórnvöld til að leita annarra leiða til aðferða í ríkisfjármálum.

Samtökin leggjast því gegn ofangreindum tillögum.

Um VIII. kafla.: Í 20. grein frumvarpsins er lagt til að vörugjald á áfengi, áfengisgjald, hækki um 5,1%. Verði sú hækkun að veruleika hefur það í för með sér 55,6% heildarhækkun á áfengisgjöldum vegna bjórs og léttvíns frá hausti 2008 og hækkun gjalda af sterku víni (umfram 15% af vínandamagni) um 51,1% frá sama tíma. Neytendasamtökin telja því að um óeðlilega mikla hækkun á einstökum vöruflokki hafi verið að ræða.

Ekki verður annað séð af greinargerð með frumvarpinu en að gert sé ráð fyrir því að sala áfengis haldist óbreytt þrátt fyrir fyrirhugaðar hækkanir, í það minnsta er ekki annað tekið fram í athugasemdum. Hér þarf að líta til þess að sala Vínbúðanna á sterku áfengi hefur dregist verulega saman að undanförnu. Reikna má með að einhverjir hafi dregið úr drykkju vegna verðhækkana á þessu tímabili en einnig virðist sem ólögleg framleiðsla áfengis og neysla þess hafi aukist. Í þessu samhengi má benda á að sala á vodka hefur dregist mun meira saman en sala annarra sterkra vína, eða um u.þ.b. 30% á síðustu tveimur árum og því má reikna með að heimabrugg, þ.e. landi og spíri, hafi að einhverju leyti komið í stað vodkans, fremur en að svo stórlega hafi dregið úr neyslu. Neytendasamtökin hafa áhyggjur af þeirri þróun og því að aðgengi ungmenna að ólöglega framleiddu áfengi hafi e.t.v. batnað. Því telja samtökin að enn frekari hækkanir á áfengisgjaldi komi varla til með að skila eins miklu til ríkisins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Þá er í 21. og 22. gr. lögð til töluverð hækkun á tóbaksgjaldi.

Neytendasamtökin leggjast gegn framangreindum hugmyndum, ekki síst með vísan til þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka mun hafa á neysluvísitölu og þar með verðtryggð lán.

Um IX. kafla: Í 23. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á bifreiðagjaldi, sbr. 2. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald. Neytendasamtökin leggjast gegn þessum hækkunum, með sömu rökum og eiga við um önnur mótmæli samtakanna, enda má telja á álögur á bifreiðaeigendur séu þegar konar úr hófi fram, með hækkunum á eldsneytisverði, upptöku kolefnisgjalds og hækkunum á olíugjaldi.

Um XI. kafla: Í 25. gr. frumvarpsins er lögð til 900 kr. hækkun á svokölluðu útvarpsgjaldi. Neytendasamtökin leggjast alfarið gegn þessari hækkun. Neytendasamtökin ítreka jafnframt afstöðu sína til þessa gjalds yfirleitt, en í umsögn samtakanna við frumvarp til laga nr. 6/2007, 56. mál á 133. löggjafarþingi segir m.a.:

„Neytendasamtökin hafa fjallað ítarlega um hvernig rétt sé að standa að fjármögnun Ríkisútvarpsins Það er skoðun Neytendasamtakanna að upphæð nefskatts sem kynnt er í frumvarpinu sé mjög há og komi illa við mörg heimili þar sem stálpaðir unglingar eða ungt fólk búa enn í foreldrahúsum. Neytendasamtökin minna á að skylduáskrift að Ríkisútvarpinu með afnotagjöldum hefur reynst óvinsæl hjá mörgum. Hætt er við að nefskattur sem er jafn hár og frumvarpið gerir ráð fyrir verði ekki síður óvinsæll. Neytendasamtökin mæla því með að skoðað verði hvort ekki eigi að flétta saman mismunandi fjármögnunarleiðum, þ.e. nefskatti sem yrði lægri en fram kemur í frumvarpinu og fjárveitingum sem ákveðnar yrðu af Alþingi auk auglýsinga og kostunar.

Neytendasamtökin setja í þessu samhengi fram þá spurningu hvort ekki beri að skoða þá leið varðandi tekjur af auglýsingum og kostun, að sett verði ákveðið þak á þessar tekjuleiðir og sem miðist við að skapa einingu um þennan þátt í starfsemi Ríkisútvarpsins. Ljóst er að Ríkisútvarpið er stórtækur aðili á auglýsinga- og kostunarmarkaði á sviði ljósvakamiðla.“

Að endingu vilja Neytendasamtökin minna á að samkvæmt 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. nr. 6/2007 er gert ráð fyrir að um tekjur Ríkisútvarpsins sé að ræða en ekki ósérgreindan skatt sem heimilt sé að ráðstafa til annarra þátta í ríkisrekstri, en í almennum athugasemdum með frumvarpinu kemur aðeins fram að gjaldið muni skila ríkissjóði rúmlega 200 milljónum í viðbótartekjur en ekki er tekið fram hvernig þessum viðbótartekjum verði ráðstafað. Almenningur má ekki við frekari hækkunum og standi Ríkisútvarpið illa ætti að skoða aðrar leiðir eins og hagræðingu í rekstri.

Allar framangreindar athugasemdir Neytendasamtakanna snúa því að því að forðast eigi af fremsta megni frekari álögur á heimilin í landinu í formi hækkaðra gjalda sem þess utan leiða til hækkana á verðtryggðum lánum vegna áhrifa á neysluvísitölu. Hvetja samtökin því stjórnvöld til að leita annarra leiða hvað varðar ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir við einstök ákvæði ofangreinds frumvarps.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: