Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga)

Miðvikudagur, 24. nóvember 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og skattanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 25. nóvember 2010.

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (breyting ýmissa laga), 200. mál.

            Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

            Um 2. gr.: Samkvæmt þessari grein eru lagðar til breytingar á greiðslu barnabóta og áætlað er að útgjöld ríkisins vegna þessa liðar skerðist um 1.300 milljónir króna verði frumvarpið að lögum. Til að ná þessu markmiði er lagt til að allar barnabætur verði tekjutengdar og að barnabætur vegna eins barns skerðist um 3% af tekjuskattsstofni í stað 2% nú. Neytendasamtökin mótmæla þessari aðferð og sér í lagi því að tekjulágmark áður en skerðing kemur til sé þá ekki hækkað frá því sem nú er. Verði frumvarpið að lögum fá hjón með eitt barn fullar barnabætur að því gefnu að samanlagðar mánaðartekjur þeirra séu undir 300.000 kr., en eftir að því marki er náð skerðist bæturnar um 3%. Neytendasamtökin eru þeirrar skoðunar að séu samanlagðar tekjur hjóna e.t.v. á bilinu 3-400.000 á mánuði dugi sú upphæð ekki til að framfleyta barnafjölskyldu og því megi lágtekjufólk, sem munar um hverja krónu, alls ekki við þessari skerðingu.

            Um 3.gr.: Hér er lögð til skerðing vaxtabóta sem ætlað er að skila ríkissjóði sparnaði upp á 2.200 milljónir á næsta ári. Til að ná þessu markmiði er áætlað að skerða hámarksbætur um 8% hjá öllum vaxtabótaþegum. Auk þess er áætlað að skerðing bóta vegna tekna fari úr 6% í 7%. Neytendasamtökin mótmæla þessum áformum. Ljóst er að skuldastaða íslenskra heimila er afar slæm og vaxtabyrði þeirra hefur aukist undanfarin ár. Þessi áform virðast því á engan hátt samrýmast þeirri stefnu að aðstoða eigi fólk í skuldavanda. Í öllu falli telja samtökin nauðsynlegt að sett verði upp einhvers konar gólf á tekjur áður en vaxtabætur taka að skerðast, en samkvæmt núgildandi lögum og því frumvarpi sem hér liggur fyrir er miðað við að skerðing bóta sé ákveðin hlutfallstala af öllum tekjum. Það er í ósamræmi við aðrar bætur, eins og barna- og húsaleigubætur en þær bætur taka ekki að skerðast fyrr en ákveðnu tekjumarki er náð. Neytendasamtökin telja að sú leið sem hér er lögð til muni því koma afar illa við lág- og millitekjufólk sem hefur reynt að standa í skilum með skuldbindingar sínar.

            Um 11. gr.: Í þessari grein er lagt til að vörugjald á áfengi hækki um 4% en það gjald hefur þegar verið hækkað um 42% frá hausti 2008. Neytendasamtökin mótmæltu síðustu hækkun með eftirfarandi rökum:
„Neytendasamtökin mótmæla fyrirhugaðri hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi. Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að þessi hækkun, að meðtalinni fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti, leiði til þess að áfengi hækki um 4,9-8,1% um næstu áramót. Verði frumvarpið að lögum mun það einnig leiða til þess að heildarhækkun áfengisgjalda síðasta árið nemur 42%, auk þess sem álagning ÁTVR var hækkuð töluvert með lögum 149/2008. Telja samtökin þetta óheyrilega mikla hækkun á gjöldum af ákveðnum tegundum neysluvarnings á svo stuttum tíma. Því leggjast Neytendasamtökin gegn þessum hugmyndum, ekki síst með vísan til þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka mun hafa á neysluvísitölu og þar með verðtryggð lán.“
Neytendasamtökin telja framangreind rök gegn þessum hækkunum enn í fullu gildi en vilja auk þess benda á nýlega könnun Capacent þar sem fram kom að 40% aðspurðra hefðu drukkið heimabrugg á síðastliðnum 12 mánuðum. Jafnframt höfðu 43% 16 til 19 ára unglinga drukkið heimabrugg á sama tíma. Hér þarf að líta til þess að sala Vínbúðanna á sterku áfengi hefur dregist verulega saman að undanförnu. Reikna má með að einhverjir hafi dregið úr drykkju vegna verðhækkana á þessu tímabili en einnig virðist sem ólögleg framleiðsla áfengis og neysla þess hafi aukist. Í þessu samhengi má benda á að sala á vodka hefur dregist mun meira saman en sala annarra sterkra vína og því má reikna með að heimabrugg, þ.e. landi og spíri, hafi að einhverju leyti komið í stað vodkans, fremur en að stórlega hafi dregið úr neyslu. Neytendasamtökin hafa áhyggjur af þeirri þróun og því að aðgengi ungmenna að ólöglega framleiddu áfengi sé e.t.v. orðið greiðara. Því eru samtökin efins um að enn frekari fyrirhugaðar hækkanir á áfengisgjaldi komi til með að skila eins miklu til ríkisins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

            Um 13. gr.: Hér er lagt til að vörugjald af tóbaki sé hækkað um 7% og er að sjá sem reiknað sé með að sú aðgerð skili ríkissjóði 250–300 milljónum í viðbótartekjur. Ekki kemur fram hvort við þann útreikning er gert ráð fyrir óbreyttri sölu en sala á tóbaki hefur dregist talsvert saman. Vissulega er það afar jákvætt að dragi úr tóbaksneyslu en Neytendasamtökin telja þó um að ræða óheyrilega mikla hækkun á gjöldum af tóbaksvörum. Því leggjast Neytendasamtökin gegn þessum hugmyndum, ekki síst með vísan til þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka mun hafa á neysluvísitölu og þar með verðtryggð lán.

            Um 15. gr.: Í þessari frumvarpsgrein er lögð til umtalsverð hækkun á svokölluðu kolefnisgjaldi sem leggst meðal annars á bensín og díselolíu. Þegar frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta var sett fram sendu Neytendasamtökin frá sér eftirfarandi athugasemdir:
„Með ofangreindu frumvarpi er lagt til að annars vegar verði tekið upp kolefnisgjald á gas- og dísilolíu, bensín, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu og hins vegar að lagður verði skattur á sölu á raforku og heitu vatni.
Neytendasamtökin telja ljóst að aukin skattlagning af þessu tagi, að ekki sé minnst á skattlagningu á lífsnauðsynlegar vörur á við hita og rafmagn, muni bitna þungt á neytendum. Ekki einasta í formi hækkaðs verðs heldur einnig í formi þyngri greiðslubyrði verðtryggðra lána, en ljóst er að frumvarpið, verði það að lögum, mun hafa nokkur áhrif á neysluvísitölu.
Jafnframt lýsa samtökin undrun sinni á því að hugmyndir um töku kolefnisgjalds skuli koma upp samtímis tillögum um hækkanir á bensín- og olíugjaldi, en ljóst er, verði þessar hugmyndir að veruleika að bensínverð mun hækka umtalsvert um áramót, með tilheyrandi áhrifum á neysluvísitölu og þar með greiðslubyrði verðtryggðra lána.
Neytendasamtökin lýsa sig því andvíg þessu frumvarpi og hvetja eindregið til endurskoðunar þess.“
Neytendasamtökin telja ofangreind sjónarmið enn eiga fyllilega við og leggjast því gegn þessum tillögum

Um 19. og 20. gr.: Í þessum frumvarpsgreinum er lagt til að almennt vörugjald og sérstakt vörugjald af eldsneyti verði hækkað. Neytendasamtökin leggjast gegn þessum tillögum með sömu rökum og fram koma hér að framan og benda enn og aftur á að hækkun þessara gjalda, sem í raun eru neysluskattur á almenning, koma af tvöföldum þunga niður á heimilum í landinu þar eð allar hækkanir af þessu tagi leiða til hækkunar á vísitölu neysluverðs og þar með greiðslubyrði verðtryggðra lána.

            Um 21. gr.: Í þessari frumvarpsgrein er lögð til 4% hækkun á sérstöku útvarpsgjaldi og í athugasemdum við greinina segir orðrétt „Vegna almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum er nú talið nauðsynlegt að hækka fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds um 4%.“ Í þessu samhengi vilja Neytendasamtökin benda á að samkvæmt 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. nr. 6/2007, er þessu gjaldi ætlað að vera tekjustofn Ríkisútvarpsins og því telja samtökin hæpið að ræða hækkun þess í sambandi við almenna tekjuöflun ríkissjóðs. Almenningur má ekki við frekari hækkunum og standi Ríkisútvarpið illa ætti að skoða aðrar leiðir eins og hagræðingu í rekstri.

Loks vilja Neytendasamtökin ítreka afstöðu sína til þessa gjalds yfirleitt en í umsögn þeirra við frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið ohf. kom eftirfarandi fram:
„ „Neytendasamtökin hafa fjallað ítarlega um hvernig rétt sé að standa að fjármögnun Ríkisútvarpsins Það er skoðun Neytendasamtakanna að upphæð nefskatts sem kynnt er í frumvarpinu sé mjög há og komi illa við mörg heimili þar sem stálpaðir unglingar eða ungt fólk búa enn í foreldrahúsum. Neytendasamtökin minna á að skylduáskrift að Ríkisútvarpinu með afnotagjöldum hefur reynst óvinsæl hjá mörgum. Hætt er við að nefskattur sem er jafn hár og frumvarpið gerir ráð fyrir verði ekki síður óvinsæll. Neytendasamtökin mæla því með að skoðað verði hvort ekki eigi að flétta saman mismunandi fjármögnunarleiðum, þ.e. nefskatti sem yrði lægri en fram kemur í frumvarpinu og fjárveitingum sem ákveðnar yrðu af Alþingi auk auglýsinga og kostunar.
Neytendasamtökin setja í þessu samhengi fram þá spurningu hvort ekki beri að skoða þá leið varðandi tekjur af auglýsingum og kostun, að sett verði ákveðið þak á þessar tekjuleiðir og sem miðist við að skapa einingu um þennan þátt í starfsemi Ríkisútvarpsins. Ljóst er að Ríkisútvarpið er stórtækur aðili á auglýsinga- og kostunarmarkaði á sviði ljósvakamiðla.“
... T.a.m. má reikna með því að námsmenn í mennta- eða háskóla, sem vinna með námi og búa í foreldrahúsum, verði krafðir um greiðslu þessa nefskatts (enda tekjumörkin, 1.080.067 kr. (nú 1.361.468 kr.), ekki ýkja há), og þar með verði útgjöld heimilanna vegna Ríkisútvarpsins hærri en nú er og á það enn frekar við verði boðuð hækkun að veruleika.“

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir við einstök ákvæði ofangreinds frumvarps.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er: