Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.)

mánudagur, 10. desember 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. desember 2012.

Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (tekjuöflunaraðgerðir, kjarasamningar, verðlagsbreytingar o.fl.), 468. mál.

Neytendasamtökin gera eftirfarandi athugasemdir við ofangreint frumvarp:

Um V. kafla: Í V. kafla er kveðið á um breytingar á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta nr. 129/2009. Upphaflega var gert ráð fyrir því að þau lög féllu úr gildi í lok árs 2012, en nú er lagt til að lögin verði varanleg. Í athugasemdum með greinargerð með 18. gr. frumvarpsins segir m.a.: „Sú tekjuöflun sem skattlagning umhverfis- og auðlinda byggist á er nauðsynleg forsenda þess að takist að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun með tilheyrandi vaxtakostnaði.“ Neytendasamtökin lögðust á sínum tíma gegn því að lög nr. 129/2009 væru sett, og ítreka hér með þá afstöðu sína, enda að mati samtakanna hæpið að auka enn við álögur á eldsneyti auk þess sem undarlegt er að mati samtakanna að leggja sérstakan skatt á lífsnauðsynlegar vörur á borð við hita og rafmagn. Þá telja samtökin það sök sér væri innheimtu kolefnisgjaldi og hita- og rafmagnsskatti ætlað að standa á einhvern hátt undir aukinni umhverfisvernd, eða til að bæta fyrir skaða sem kolefnisútblástur hefur í för með sér, en þvert á móti virðist þessi gjaldtaka ekki eyrnamerkt í nein slík verkefni. Neytendasamtökin ítreka því áður framkomin sjónarmið sín varðandi lög nr. 129/2009 og leggjast gegn þeim tillögum sem fram koma í V. kafla frumvarpsins.

Um VI. og X. kafla:  Með 20. og 21. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Eru í 20. gr. lagðar til hækkanir á vörugjaldi af bensíni og í 21. gr. eru lagðar til hækkanir á svokölluðu bensíngjaldi. Eldsneytisverð hefur undanfarin misseri verið í sögulegu hámarki hér á landi og heimilin í landinu mega varla við frekari hækkunum. Því telja samtökin fulla ástæðu fyrir stjórnvöld að halda að sér höndum þegar kemur að gjaldtöku sem kemur til með að hækka eldsneytisverð til neytenda.

Með 29. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á olíugjaldi, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald. Með sömu rökum og að framan greinir leggjast samtökin gegn þeirri tillögu.

Neytendasamtökin telja ljóst að aukin skattlagning af þessu tagi muni bitna þungt á neytendum. Ekki einasta í formi hækkaðs verðs, en ljóst er að eldsneytisverð mun hækka umtalsvert, heldur einnig í formi þyngri greiðslubyrði verðtryggðra lána, en ljóst er að þessir kaflar frumvarpsins, verði þeir að lögum, munu hafa nokkur áhrif á vísitölu neysluverðs. Þróun vísitölu neysluverðs hefur þegar verið skuldsettum heimilum mjög óhagstæð og því hvetja samtökin stjórnvöld til að leita annarra leiða til aðferða í ríkisfjármálum.

Samtökin leggjast því gegn ofangreindum tillögum.

Um VII. kafla: Í 22. grein frumvarpsins er lagt til að vörugjald á áfengi, áfengisgjald, hækki um 4,6%. Verði sú hækkun að veruleika hefur það í för með sér að áfengisgjöld hafa hækkað um u.þ.b. 60% frá hausti 2008 (58-62,7% eftir því hvort um er að ræða sterk eða létt vín). Neytendasamtökin telja því að um óeðlilega mikla hækkun á einstökum vöruflokki hafi verið að ræða.

Ekki verður annað séð af greinargerð með frumvarpinu en að gert sé ráð fyrir því að sala áfengis haldist óbreytt þrátt fyrir fyrirhugaðar hækkanir, í það minnsta er ekki annað tekið fram í athugasemdum. Hér þarf að líta til þess að sala Vínbúðanna á sterku áfengi hefur dregist verulega saman að undanförnu. Reikna má með að einhverjir hafi dregið úr drykkju vegna verðhækkana á þessu tímabili en einnig virðist sem ólögleg framleiðsla áfengis hafi aukist. Í þessu sambandi má benda á að sala á vodka hefur dregist mun meira saman en sala annarra sterkra vína, eða um u.þ.b. 40% á síðustu þremur árum og því má reikna með að heimabrugg, þ.e. landi og spíri, hafi að einhverju leyti komið í stað vodkans, fremur en að svo stórlega hafi dregið úr neyslu. Nýlegar fréttir og kannanir virðast einnig benda til þess að neysla á heimabruggi hafi aukist stórlega. Neytendasamtökin hafa áhyggjur af þeirri þróun og því að aðgengi ungmenna að ólöglega framleiddu áfengi hafi batnað. Því telja samtökin að enn frekari hækkanir á áfengisgjaldi, en sýnt er að þær draga a.m.k. úr sölu á sterku áfengi, komi varla til með að skila eins miklu til ríkisins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, en gert er ráð fyrir að viðbótartekjur ríkisins vegna hækkunar áfengisgjalda verði 500 milljónir króna.

Þá er í 23. og 24. gr. lögð til  20% hækkun á tóbaksgjaldi. Það er langt umfram aðrar hækkanir sem lagðar eru til í frumvarpi þessu en almennar verðlagshækkanir eru um 4,6%. Tóbaksgjöld hafa þegar hækkað um 60 – 167% frá árinu 2008, misjafnt eftir því um hverslags tóbak er að ræða. Gert er ráð fyrir að fyrirhuguð hækkun skili ríkissjóði einum milljarði króna í viðbótartekjur árið 2013. Ekkert kemur fram um hvort gert er ráð fyrir að neysla tóbaks minnki við þessa hækkun, og virðist því svo ekki vera, og ekki verður séð að færð séu fyrir henni lýðheilsurök af neinu tagi í frumvarpinu. Neytendasamtökin telja óeðlilegt að ein vörutegund, sem er lögleg hvað sem um skaðsemisáhrif hennar má segja, sé tekin út fyrir sviga á þennan hátt og sæti fjórföldum hækkunum á við t.a.m. áfengisgjöld. Þá verður að teljast fráleitt, sé meiningin að hækka tóbaksgjald svo verulega, að áhrifa þeirrar hækkunar gæti á verðtryggðum lánum landsmanna.

Standi til að halda áfram því fyrirkomulagi sem hefur tíðkast undanfarin ár, að hækka áfengis- og tóbaksgjöld til að afla ríkissjóði tekna, er að mati samtakanna algert grundvallaratriði að ekki sé tekið tillit til þessara vöruflokka við verðtryggingu lána.

Neytendasamtökin leggjast því alfarið gegn framangreindum tillögum, ekki síst með vísan til þeirra áhrifa sem þessi gjaldtaka mun hafa á neysluvísitölu og þar með verðtryggð lán.
Um XI. kafla: Í 33. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á bifreiðagjaldi, sbr. 2. gr. laga nr. 39/1988 um bifreiðagjald. Neytendasamtökin leggjast gegn þessum hækkunum, með sömu rökum og eiga við um önnur mótmæli samtakanna, enda má telja á álögur á bifreiðaeigendur séu þegar komnar úr hófi fram, með hækkunum á eldsneytisverði, upptöku kolefnisgjalds og hækkunum á olíugjaldi.

Um XIII. kafla: Í 35. gr. frumvarpsins er lögð til 900 kr. hækkun á svokölluðu útvarpsgjaldi. Neytendasamtökin leggjast alfarið gegn þessari hækkun. Neytendasamtökin ítreka jafnframt afstöðu sína til þessa gjalds yfirleitt, en í umsögn samtakanna við frumvarp til laga nr. 6/2007, 56. mál á 133. löggjafarþingi mótmæltu Neytendasamtökin upphæð nefskattsins og lögðu til aðrar leiðir til fjármögnunar. Ríkisútvarpsins.

Þá mótmæla Neytendasamtökin harðlega hvernig ráðstöfun útvarpsgjaldsins hefur verið hagað undanfarin ár, en miðað við skoðun samtakanna á fjárlögum undanfarinna ára hafa aðeins um þrír fjórðu hlutar gjaldsins runnið til Ríkisútvarpsins. Gjald sem heitir í fjárlögum og á álagningarseðlum landsmanna „útvarpsgjald“ er enda kynnt landsmönnum sem nefskattur er renni til Ríkisútvarpsins en ekki sem almennur ósérgreindur skattur sem ríkissjóði sé frjálst að ráðstafa að vild. Önnur ráðstöfun gjaldsins en til rekstrar Ríkisútvarpsins er því að mati samtakanna afar villandi skattheimta.

Allar framangreindar athugasemdir Neytendasamtakanna snúa því að því að forðast eigi af fremsta magni frekari álögur á heimilin í landinu í formi hækkaðra gjalda sem þess utan leiða til hækkana á verðtryggðum lánum vegna áhrifa á vísitölu neysluverðs. Verðtryggð lán hafa hækkað gríðarlega á síðustu árum, og eru margir fasteignaeigendur í þeirri stöðu að hafa misst allt eigið fé í eignum sínum vegna þess. Hvetja samtökin því stjórnvöld eindregið til að leita annarra leiða hvað varðar ráðstafanir í ríkisfjármálum. Verði ekki fallist á það telja samtökin í öllu falli brýnt að þess sé gætt að fyrirhugaðar hækkanir hafi ekki áhrif á verðtryggð lán heimilanna.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir við einstök ákvæði ofangreinds frumvarps.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir