Frumvarp til laga um ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð

Þriðjudagur, 20. mars 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10
150 Reykjavík

Reykjavík, 20. mars 2012.

Athugasemdir við frumvarp til laga um ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð, (lækkun olíugjalds og vörugjalds), 559. mál.

Í umsögn sinni við  frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, dags. 17. nóvember 2011 sögðu Neytendasamtökin m.a. eftirfarandi:

 
„Með 12. og 13. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Eru í 12. gr. lagðar til hækkanir á vörugjaldi af bensíni og í 13. gr. eru lagðar til hækkanir á svokölluðu bensíngjaldi. Í athugasemdum með umræddum greinum er tekið fram að hækkunin sé lægri en almenn viðmiðun við verðlagsuppfærslu krónutölugjalda og því sé í raun um lækkun að raungildi að ræða. Jafnframt er tekið fram að hlutfall vörugjalda í eldsneytisverði sé um 26,5% af útsöluverði bensíns, sem sé lágt í sögulegu samhengi. Neytendasamtökin vilja benda á að í sögulegu samhengi er heimsmarkaðsverð á eldsneyti gríðarlega hátt. Heimilin í landinu mega varla við frekari hækkunum og því telja samtökin fulla ástæðu fyrir stjórnvöld að halda að sér höndum þegar kemur að gjaldtöku sem kemur til með að hækka eldsneytisverð til neytenda.

Með 14. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á olíugjaldi, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 87/2004 um olíugjald og kílómetragjald. Með sömu rökum og að framan greinir leggjast samtökin gegn þeirri tillögu… …Allar framangreindar athugasemdir Neytendasamtakanna snúa því að því að forðast eigi af fremsta megni frekari álögur á heimilin í landinu í formi hækkaðra gjalda sem þess utan leiða til hækkana á verðtryggðum lánum vegna áhrifa á neysluvísitölu. Hvetja samtökin því stjórnvöld til að leita annarra leiða hvað varðar ráðstafanir í ríkisfjármálum.”

Með vísan til framangreinds, svo og þeirra raka sem koma fram í greinargerð með ofangreindu frumvarpi eru samtökin því hlynnt lækkun olíu- og vörugjalda. Ljóst er að með hækkandi eldsneytisverði hafa tekjur ríkisins í formi virðisaukaskatts af eldsneyti aukist og því ætti að vera eitthvert svigrúm til lækkana á þessu sviði. Þó er ljóst að verði frumvarp þetta að lögum þarf að vera til staðar virkt eftirlit með því að lækkanirnar skili sér til neytenda, og hyggjast Neytendasamtökin leggja sitt að mörkum hvað það varðar. Að endingu vilja samtökin svo taka fram að æskilegt væri að endurskoða fjárhæðir olíu- og vörugjalds til frambúðar, en ekki eingöngu út þetta ár eins og lagt er til hér, enda ljóst að eldsneytiskostnaður er afar stórt hlutfall neysluútgjalda flestra heimila.

Að þessu sögðu styðja Neytendasamtökin framangreint frumvarp og hvetja eindregið til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Jóhannes Gunnarsson, formaður
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er