Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu

Fimmtudagur, 8. nóvember 2012

 

Nefndasvið Alþingis
Allsherjar- og menntamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 7. nóvember 2012

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 194. mál.

Neytendasamtökin telja tilefni til að gera eftirfarandi athugasemdir við 14. gr. ofangreinds frumvarps:

Samtökin hafa við hvert tækifæri, í umsögnum sínum, mótmælt fjárhæð útvarpsgjaldsins, enda telja þau gjaldtökuna í mörgum tilvikum koma verr við heimilin heldur en afnotagjöldin gerðu. Lengst af voru samtökin þó í þeirri góðu trú, eins og líkast til flestir skattgreiðendur, að þetta gjald, sem heitir enda „útvarpsgjald“ á innheimtuseðlum skattgreiðenda, rynni óskipt til rekstrar Ríkisútvarpsins.

Þessi skilningur samtakanna, og væntanlega meginþorra almennings, sækir stoð í 1. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 6/2007 um Ríkisútvarpið ohf., en hann er svohljóðandi: [Tekjur]1) Ríkisútvarpsins ohf. eru sem hér segir: 1. Samkvæmt sérstöku gjaldi sem [ríkisskattstjóri leggur]2) á samhliða álagningu opinberra gjalda skv. 93. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. [Gjaldið rennur í ríkissjóð.]1) Gjaldskylda hvílir á þeim einstaklingum sem skattskyldir eru skv. 1. gr. og þeim lögaðilum sem skattskyldir eru og bera sjálfstæða skattaðild skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, öðrum en dánarbúum, þrotabúum og þeim lögaðilum sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Skal gjaldið nema [18.800 kr.]3) ár hvert á hvern einstakling og lögaðila. Undanþegnir gjaldinu eru þeir einstaklingar sem ekki skulu sæta álagningu sérstaks gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra eða skulu fá það gjald fellt niður skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 6/2007 var talað um „nefskatt“ og hvergi má sjá að ætlunin hafi verið önnur en sú að gjald þetta rynni óskipt til Ríkisútvarpsins.

Með lögum nr. 174/2008 voru gerðar breytingar á 11. gr. laga nr. 6/2007, en bæði var gjaldið hækkað og eins gert ráð fyrir að það rynni í ríkissjóð. Rökin voru þessi en enn virðist ekki gert ráð fyrir öðru en að gjaldið rynni óskipt til Ríkisútvarpsins sbr. eftirfarandi ummæli í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 174/2008: „Í lögum um Ríkisútvarpið ohf. og athugasemdum með frumvarpi því er varð að þeim lögum er skýrt að tekjur Ríkisútvarpsins ohf. af hinu sérstaka útvarpsgjaldi skv. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna taka mið af því gjaldi sem raunverulega innheimtist. Þannig skal áætla fyrir gjaldinu fyrir fram í fjárlögum og greiða til félagsins mánaðarlega 1/12 af áætluðum tekjum vegna gjaldsins árið á eftir. Þegar raunálagning liggur fyrir á haustmánuðum skal gera upp við félagið miðað við rauntekjur. Í þessu felst að ef innheimt fjárhæð gjaldsins verður hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir rennur mismunurinn til félagsins. Ef fjárhæðin reyndist á hinn bóginn lægri, getur það leitt til þess að félagið fái skert eða jafnvel ekkert rekstrarfé síðustu mánuði ársins. Miðað við efnahagshorfur má reikna með því að áætlun sem taki mið af greiðendafjölda 2008, þar sem byggt er á álagningu ársins 2007, feli í sér ofáætlun um fjölda greiðenda á árinu 2009. Þannig er skynsamlegt að reikna með því að greiðendur geti mögulega orðið færri en gengið er út frá í áætluninni. Í stað þess að búa við slíka óvissu þar sem Ríkisútvarpið yrði í áætlunum sínum að taka mið af slíkum aðstæðum er, eins og rakið hefur verið, lagt til að gjaldið greiðist í ríkissjóð.“

Um hækkun gjaldsins sagði svo í greinargerð með frumvarpinu: Hér er lagt til að hækkun gjaldsins frá því sem ákveðið er í 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga um Ríkisútvarpið ohf. taki mið af því sjónarmiði sem áður er lýst, að haga bæri álagningu gjaldsins þannig að heimili með tvo einstaklinga sem greiða mundu gjaldið verði því næst sem jafnsett eftir upptöku gjaldsins. Samkvæmt þessu yrði gjaldið 17.200 kr., sem felur í sér rétt um 18% hækkun heildartekna Ríkisútvarpsins ohf. frá gildandi lögum. Tekjuaukning félagsins stafar að mestu af því að lögaðilar með sjálfstæða skattaðild greiða gjaldið nú, en greiddu það ekki áður. Ekki verður heldur ráðið af þessum ummælum, þar sem rætt er um að hækkun útvarpsgjaldsins feli í sér hækkun heildartekna Ríkisútvarpsins, að ætlunin hafi verið að ráðstafa gjaldinu í annað en rekstur Ríkisútvarpsins.

Hins vegar er það svo að fjárhæð sú sem runnið hefur til Ríkisútvarpsins hefur á undanförnum árum verið töluvert lægri en fjárhæðin sem innheimt er sem útvarpsgjald. Jafnframt virðist gjaldtakan hafa verið ætluð til almennrar fjáröflunar fyrir ríkissjóð, en í athugasemdum með frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum nr. 164/2010 sagði orðrétt „Vegna almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum er nú talið nauðsynlegt að hækka fjárhæð sérstaks útvarpsgjalds um 4%.“ Neytendasamtökin mótmæltu hækkuninni og töldu einnig hæpið að ræða hækkun gjaldsins í sambandi við almenna tekjuöflun ríkissjóðs enda væri gjaldinu ætlað að vera tekjustofn Ríkisútvarpsins.

Af ofangreindu frumvarpi, og ekki síður af umsögn fjárlagaskrifstofu með því, má svo ráða að ekki standi til að Ríkisútvarpið fái allar tekjur af útvarpsgjaldinu fyrr en árið 2014, en á árinu 2013 er gert ráð fyrir að 4.060 milljónir króna innheimtist vegna útvarpsgjaldsins en að aðeins 3.195 milljónir renni til Ríkisútvarpsins. Því er í raun gert ráð fyrir að stór hluti þess sem á álagningarseðlum landsmanna heitir „útvarpsgjald“ sé í raun ósérgreindur skattur, sem ríkissjóði er frjálst að ráðstafa að vild óháð rekstri Ríkisútvarpsins. Þar sem gjaldtaka þessi var auðsjáanlega kynnt landsmönnum sem nefskattur er rynni til Ríkisútvarpsins telja Neytendasamtökin þessa framkvæmd á skattlagningu afar varhugaverða og leggjast gegn henni. Standi Ríkisútvarpið það vel að ekki sé þörf á heildarfjárhæð útvarpsgjaldsins til rekstrar þess ætti enda að lækka gjaldið en haga almennri fjáröflun ríkissjóðs með öðrum og gegnsærri aðferðum.

Að öðru leyti gera samtökin ekki athugasemdir við frumvarpið.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir