Frumvarp til laga um stimpilgjald

mánudagur, 28. október 2013

 

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 28. október 2013

Athugasemdir við frumvarp til laga um stimpilgjald, 4. mál.

Neytendasamtökin hafa lengi lýst yfir eindreginni andstöðu sinni við töku stimpilgjalda vegna skulda- og tryggingarbréfa, á þeim forsendum að um sé að ræða ósanngjarna skattheimtu sem hamli verulega hreyfanleika á fjármálamarkaði. Lýsa samtökin því yfir ánægju sinni með tillögur um að fella stimpilgjöld niður þegar kemur að veðskuldum. Það er hins vegar lítið gleðiefni að samhliða afnámi stimpilgjalda af slíkum skjölum sé lagt til að upphæð stimpilgjalds vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði tvöfölduð. Raunar eru Neytendasamtökin þeirrar skoðunar að stimpilgjöld yfir höfuð séu úrelt skattlagning og að rétt væri að fella þau að fullu niður, líka vegna kaupa á íbúðarhúsnæði.

Þá er rétt að vekja athygli á að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu koma niður á þeim sem eru að kaupa sína fyrstu eign. Þannig er í 35. gr. a. núgildandi laga um stimpilgjald nr. 36/1978 kveðið á um að skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði skuli stimpilfrjáls að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þeir sem kaupa fyrstu fasteign greiða því nú aðeins 0.4% stimpilgjald af kaupsamningi eignarinnar en ekki stimpilgjald vegna skuldabréfa. Verði þetta frumvarp óbreytt að lögum mun hins vegar kostnaður vegna stimpilgjalds þegar um er að ræða fyrstu eign tvöfaldast; þ.e. fara úr 0,4% og í 0,8% af verði fasteignar.

Neytendasamtökin telja að lagafrumvarp þetta leiði vissulega til einföldunar á töku stimpilgjalds, og gera má ráð fyrir því að kostnaður vegna stimpilgjalda minnki hjá þeim sem eru að kaupa sína aðra eða þriðju fasteign og fjármagna kaupin með nýrri lántöku. Því hærra sem veðhlutfallið er þeim mun meira mun stimpilgjaldið lækka miðað við núgildandi lagaumhverfi. Sé hins vegar um að ræða veðflutning á eldra láni eða kaupin fjármögnuð með reiðufé mun lagafrumvarp þetta, verði það óbreytt að lögum, leiða til umtalsverðrar hækkunar. Því má telja kosti og galla við það fyrirkomulag sem hér er lagt til sé miðað við núgildandi fyrirkomulag. Treysta samtökin sér því ekki til að styðja framangreint frumvarp án þeirra fyrirvara sem hér koma fram.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir