Frumvarp til laga um umboðsmann skuldara

Þriðjudagur, 4. maí 2010

 

Nefndasvið Alþingis
Félags- og tryggingamálanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 3. maí 2010

Efni: Umsögn Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, 562. mál.

Neytendasamtökin fagna mjög þeim hugmyndum sem fram koma í framangreindu frumvarpi, enda telja samtökin ekki vanþörf á því að sett sé á fót sérstök stofnun umboðsmanns skuldara er sinni þeim verkefnum sem tíunduð eru í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
Að þessu sögðu gera samtökin þó eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:
Um d- og e-lið 2. mgr. 1. gr.: Neytendasamtökin fagna því að umboðsmanni skuldara sé ætlað að taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og að gæta hagsmuna skuldara og bregðast við þegar brotið er á þeim. Hins vegar telja samtökin ekki koma nægilega vel fram hvernig umboðsmanni sé ætlað að sinna þessum verkefnum. Þannig kemur ekki fram til hverra úrræða umboðsmaður getur gripið sé t.a.m. um að ræða ágalla á lánastarfsemi eða brotið er á rétti skuldara. Ekki er heldur ljóst hvort úrræði og heimildir umboðsmanns til að bregðast við eru á sviði einka- eða allsherjarréttar. Að því er varðar neytendalán, en ætla má að það séu helst þau sem koma til kasta umboðsmanns, er jafnframt vert að hafa í huga að skv. 1. mgr. 25. gr. l. nr. 121/1994 um neytendalán er það Neytendastofa sem hefur eftirlit með ákvæðum þeirra laga. Til að embætti umboðsmanns skuldara geti náð tilgangi sínum telja Neytendasamtökin brýnt að óvissu um þessi atriði sé eytt, að ljóst sé hvaða valdheimildir embættið hefur vegna d- og e-liðar 2. mgr. 1. gr. og að ekki sé óvissa um valdmörk umboðsmanns skuldara annars vegar og Neytendastofu hins vegar.
Að öðru leyti gera Neytendasamtökin ekki athugasemdir og hvetja eindregið til samþykktar frumvarpsins.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er