Frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála

Fimmtudagur, 6. nóvember 2014

Nefndasvið Alþingis
Velferðarnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 4. nóvember 2014

Efni: Umsögn Húseigendafélagsins og Neytendasamtakanna um frumvarp til laga um úrskurðarnefnd velferðarmála, 207. mál.

Með tölvupósti dags. 24. október sl. barst Húseigendafélaginu og Neytendasamtökunum ofangreint frumvarp til umsagnar. Þar sem fyrrnefnd félög telja sig eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta á þessu sviði var ákveðið að senda sameiginlegar athugasemdir við frumvarpið og eru þær eftirfarandi:

Með frumvarpinu er lagt til að sjö úrskurðar- og kærunefndir á sviði velferðarráðuneytisins verði sameinaðar í eina. Leiði það til skjótari og skilvirkari stjórnsýslu er ekkert nema gott um það að segja en þó hafa Húseigendafélagið og Neytendasamtökin af því nokkrar áhyggjur að örðugt verði fyrir hina nýju nefnd að hafa yfirsýn og sérþekkingu á öllum þeim ólíku málaflokkum sem henni er ætlað að sinna, auk þess sem hætt sé við að ákveðin sérfræðiþekking glatist við fækkun nefndarmanna.

Að mati Húseigendafélagsins og Neytendasamtakanna er sérstök ástæða til að óttast þetta þegar kemur að kærunefnd húsamála en verksvið þeirrar nefndar er af töluvert öðrum toga en hinna sex nefndanna sem lagt er til að verði sameinaðar í eina. Sú nefnd tekur þannig ekki til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðanir af neinu tagi heldur veitir álit í einkaréttarlegum ágreiningi, sem er þá iðulega milli tveggja eða fleiri einstaklinga. Þannig má segja að nefndin starfi einvörðungu á talsvert þröngu sviði kröfuréttar en ekki stjórnsýsluréttar en verkefni hennar eru að gefa álit sitt á ágreiningi sem fellur undir ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994, laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 og laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008. Er því um talsvert sérhæft svið að ræða.

Sé verksvið hinna sex nefndanna skoðað nánar má sjá að til kærunefndar barnaverndarmála má skjóta ákvörðunum barnaverndarnefnda og ákveðnum ákvörðunum Barnaverndarstofu, til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála má skjóta ákveðnum ákvörðunum umboðsmanns skuldara eða umsjónarmanns með greiðsluaðlögun (sem umboðsmaður skuldara hefur þá skipað til starfans), til úrskurðarnefndar almannatrygginga má skjóta ákveðnum ákvörðunum Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða má skjóta ákvörðunum Vinnumálastofnunar, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála má skjóta ákveðnum ákvörðunum sveitarfélaga og Íbúðalánasjóðs og til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála má skjóta tilteknum ákvörðunum Tryggingastofnunar og Fæðingarorlofssjóðs.

Í öllum tilvikum er þannig um að ræða mögulega endurskoðun á ákvörðunum opinberra aðila, en ekki úrskurði um einkaréttarlegan og fjárhagslegan ágreining milli tveggja einkaaðila. Því er óhjákvæmilegt að líta svo á að kærunefnd húsamála skeri sig verulega úr meðal þeirra nefnda sem til stendur að sameina.

Samkvæmt framansögðu er því hvatt til þess að frumvarp þetta verði endurskoðað hvað varðar kærunefnd húsamála, en örðugt er að sjá að mál sem varða ágreining milli leigusala og leigutaka og deilur nágranna í fjöleignarhúsum eigi mikið sameiginlegt með þeim málaflokkum sem taldir voru upp hér að ofan. Það er þannig álit Húseigendafélagsins og Neytendasamtakanna að rétt sé að kærunefnd húsamála starfi áfram með óbreyttu sniði hvað þetta varðar.

Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við frumvarpið.

Virðingarfyllst,

F.h. Leigjendaaðstoðar NS
Hildigunnur Hafsteinsdóttir 

F.h. Húseigendafélagsins
Sigurður Helgi Guðjónsson hrl.

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0233.html.