Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga (hreyfanleiki viðskiptavina)

mánudagur, 27. október 2014

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8 – 10.
150 Reykjavík

Reykjavík, 27. október 2014

Athugasemdir við frumvarp til laga um vátryggingarsamninga (hreyfanleiki viðskiptavina), 120. mál.

Í ofangreindu frumvarpi er lagt til að viðskiptavinir vátryggingarfélaga geti eftirleiðis sagt vátryggingarsamningi upp með 30 daga fyrirvara hvenær sem er á samningstímabilinu í þeim tilgangi að flytja viðskipti sín til annars félags.

Neytendasamtökin hafa lengi hvatt til þess að neytendur leiti tilboða í vátryggingar sínar og flytji viðskipti sín þangað sem hagkvæmustu kjörin bjóðast. Í núgildandi lagaumhverfi er svigrúmið til þess að skipta um vátryggingarfélag hins vegar þröngt og miðast við endurnýjunartíma samnings. Samkvæmt reynslu samtakanna eru margir neytendur sem beinlínis missa af því tækifæri, og einnig virðist það ákveðin tímaskekkja að binda neytendur við samninga við ákveðna aðila í ár í senn.

Samtökin fagna því þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu, telja þær löngu tímabærar og til þess fallnar að auðvelda hreyfanleika og auka samkeppni á markaði.

Neytendasamtökin styðja því ofangreint frumvarp og hvetja til samþykktar þess.

Virðingarfyllst,
f.h. Neytendasamtakanna,
Hildigunnur Hafsteinsdóttir

Slóðin á frumvarpið er http://www.althingi.is/altext/144/s/0122.html