Frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015

mánudagur, 13. október 2014

Nefndasvið Alþingis
Efnahags- og viðskiptanefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík 13. október 2014 
 
Efni: Athugasemdir Neytendasamtakanna við frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015 2015, 3. mál.

Á þingi Neytendasamtakanna sem haldið var 27. september sl. var eftirfarandi samþykkt: „Neytendasamtökin skora á stjórnvöld að tryggja þegar í stað aðgengi allra að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.”

Í ljósi þessarar samþykktar gera Neytendasamtökin athugasemd við 19. gr. frumvarpsins. Samtökin minna á að S-merkt lyf hafa verð endurgjaldslaus en með þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir verða þessi lyf sett inn í greiðsluþátttökukerfi lyfja. Þessi aðgerð mun enn hækka kostnað almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Er jafnframt bent á að í sumar hækkuðu komugjöld til sérfræðinga langt umfram breytingar á almennu verðlagi.

Verði 19. gr. frumvarpsins samþykkt mun það leiða til aukins kostnaðar almennings vegna lyfja. Sá kostnaðarauki kemur til viðbótar boðaðri aðgerð sem gerir ráð fyrir að viðmiðunarmörk hámarksgreiðslu í lyfjagreiðslukerfinu hækki um 10% um áramótin. Þessar breytingar munu gera enn stærri hópi ómögulegt að hafa raunverulegt aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Neytendasamtökin leggjast því alfarið gegn samþykkt áðurnefndrar frumvarpsgreinar.

Virðingarfyllst
f.h. Neytendasamtakanna
Jóhannes Gunnarsson formaður

Slóð á frumvarpið.